31.03.1924
Neðri deild: 37. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í C-deild Alþingistíðinda. (2285)

39. mál, kosningar til Alþingis

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg á brtt. á þskj. 170, sem jeg þarf að fara um nokkrum orðum.

Það stendur víða svo á, einkum á Vestur- og Austurlandi, að það bætir lítið, þótt kjörstaðir sjeu tveir í hreppi. Ef á annað borð á að breyta ákvæðum gildandi laga til þess að gera kjósendum auðveldara að sækja kjörfund, tel jeg sjálfsagt að gera breytinguna svo víðtæka, að hún komi að notum. Væri heimild til að skifta hreppum í þrjár kjördeildir, myndi það nægja til þess, að nærfelt allir kjósendur gætu sóttkjörfundi. Jeg geri ekki ráð fyrir, að sýslunefndirnar fari lengra í þessum efnum en brýn nauðsyn krefur, þar eð þetta verður ætíð nokkur kostnaðarauki fyrir viðkomandi hreppa.

Þá er og önnur breyting, sem jeg fer fram á, að gerð verði á frv., þ. e. að kjördagurinn verði ákveðinn laugardag í 12. viku sumars. Það má auðvitað ávalt um það deila, hvaða dagur sje heppilegastur sem kjördagur, en jeg hygg þó, þegar á alt er litið, að þessi dagur verði heppilegastur sem kjördagur. Jeg skal þó játa, að í kaupstöðunum sje 1. dagur vetrar betur fallinn til að vera kjördagur þar, því þá eru flestir þeir, er atvinnu stunda utan bæjanna, komnir heim aftur. En í sveitunum er alt öðru máli að gegna um þetta. Það má að vísu segja, að þá sje yfirleitt annalítið, en á hitt verður og að líta, að þá er allra veðra von, og þráfaldlega hefir það komið fyrir, að fjöldi kjósenda í sveitakjördæmunum getur ekki sótt kjörfund. Það verður að vera aðalatriðið, að kjósendur ekki verði útilokaðir í þátttöku þjóðmálanna.

Laugardagurinn í 12. viku sumars er betur fallinn til að vera kjördagur í kaupstöðum en laugardagurinn í 11. vikunni. Þá eru víðast hvar vertíðaskifti, vorvertíð enduð og menn að búa sig undir sumaratvinnuna, einkum síldveiðarnar, sem þá fara í hönd. Í sveitum er þá að vísu byrjaður sláttur á sumum stöðum, en ekki alstaðar; helst mun það vera á Suður- og sumstaðar á Norðurlandi, sem sláttur byrjar í þessari viku. En það er þó álit allflestra, að betra sje að fella niður verk einn dag framan af slætti, meðan lítið er enn að hirða af heyi, en þegar miklar annir eru, t. d. í lestaferðum, flutningi úr verstöðum og þessháttar. Verða brtt. mín um færslu kjördagsins samþykt, geta 2.–5. gr. frv. fallið niður. Þar sem þetta mál er svo kunnugt öllum háttv. þm. og þeir þekkja svo vel allar ástæður, hver í sínu kjördæmi, læt jeg útrætt um það.