31.03.1924
Neðri deild: 37. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í C-deild Alþingistíðinda. (2292)

39. mál, kosningar til Alþingis

Jón Baldvinsson:

Jeg sagði það áðan í fyrri ræðu minni, þeim til athugunar, sem halda vilja þing aðeins annaðhvert ár, hvað þeir myndu segja til þess, ef þessi flutningur á kjördeginum leiddi að því, að þing yrði tvisvar á ári. Jeg sagði ekkert um skoðun mína á því máli.

Jeg mótmæli því, sem hv. þm. V.-Sk. (JK) sagði um það, að jeg væri á móti því, að vilji almennings kæmi í ljós. Jeg berst fyrir því, að hann njóti sín sem best við kosningamar með því að vilja hafa þann kjördag, sem flestir eiga hægast með að neyta kosningarrjettarins.

Viðvíkjandi því að kalla saman aukaþing, þá mun hver stjórn í því efni fara eftir áskorun meirihluta þingsins, minsta kosti sú stjórn, sem telur sig fylgja þingræðinu. Það má vera, að þeir, sem hafa sýnt sig líklega til að mynda minnihlutastjórn, virtu ekki þingviljann mikils, hvorki í þessu efni nje öðru.