02.05.1924
Efri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í C-deild Alþingistíðinda. (2301)

39. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Jónas Jónsson):

Jeg gat ekki búist við gleggri svörum frá hálfu hæstv. stjórnar að sinni. Þar sem óskað er eftir rannsókn á málinu má ekki heimta dóm fyrirfram. En út af ræðu hæstv. forsrh. (JM) og fyrri hluta ræðu hv. 1. landsk. (SE) vil jeg taka það fram, að því verður ekki neitað, að nokkrir erfiðleikar eru á tveimur kjördögum. Má vel vera, að við rannsókn sína finni hæstv. stjórn kjördag, sem sje sæmilegur fyrir alla málsparta. Það mun sannast, að sveitirnar gera æ sterkari og sterkari kröfur um að fá kjördeginum breytt frá því, sem nú er; jeg er viss um, að á hverju ári verða tilraunir í þá átt, uns rjettarbót er fengin. Allshn. vill vona, að hæstv. stjórn finni úrlausn á þessari þraut; takist það ekki nú, verður að leita enn fyrir sjer, því sama óánægjan og möglið mun halda áfram, svo lengi sem núverandi fyrirkomulag stendur.

Það gleður mig, að hv. 1. landsk. (SE) vill taka á sig það hlutverk að vera pólitískur sálusorgari hjer í hv. deild. Hygg jeg hann vel færan til þess, vegna afls og vaxtar og annara góðra kosta, að gegna þeim vanda. Þó ekki sje ávalt sem fullkomnast samkomulag milli Íhaldsflokksins og Framsóknar, þá er það gott um sum hin mestu mál, t. d. hæstarjett, þar sem Framsóknarflokkurinn hefir örugglega stutt forsrh. (JM) til sigurs um eitt mesta sparnaðarmál þingsins. Einnig var í hv. Nd. mjög gott samkomulag um sendiherramálið, og vona jeg, að gott samkomulag náist, þegar það mál kemur á ný í þessa háttv. deild.