16.04.1924
Efri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

1. mál, fjárlög 1925

Björn Kristjánsson:

Háttv. 1. landsk. þm. (SE) hefir að mestu leyti tekið af mjer ómakið við að tala um till. hv. fjvn. um að fella niður styrkinn til Árna Th. Pjeturssonar. En af því að ýmsir hv. þdm. eru nýir og ókunnugir þessu máli, vil jeg rekja sögu þess, og þá fyrst lesa upp þskj. 179 frá 1922. Þar stendur svo:

„Alþingi ályktar að skora á landsstjórnina að rannsaka mál Árna Theodórs Pjeturssonar kennara og rjetta hlut hans, að svo miklu leyti, sem hann reynist órjetti beittur.“

Þetta er þá till. hv. fjvn. 1922, og nú fer þessi rannsókn fram. 1923 skýrir svo stjórnin mentamn. Nd. frá niðurstöðunni, en hún var sú, að maðurinn hefði ekki unnið til þess að hann væri sviftur kennaraembætti, sem hann hafði gegnt í 30 ár.

Í umsögn sinni um 18. gr. fjárlaganna fer fjárveitinganefnd neðri deildar svofeldum orðum um þessa fjárveitingu til

Árna Theódórs Pjeturssonar (sjá Alþt. 1923, A. bls. 458):

„Loks er nú að því komið, að bundinn verði endi á mál Árna Theodórs Pjeturssonar. Nefnd sú, er rannsakaði mál hans samkvæmt ályktun Alþingis, ályktaði, að rjett mundi að veita honum einhver lítil eftirlaun, eða hærri upphæð í eitt skifti fyrir öll. Mentamálanefnd deildarinnar leggur það til, að eftirlaun hans verði ákveðin 500 kr. á ári. Fjárveitinganefndinni finst nauðugur einn kostur að taka tillögu þessara nefnda til greina, og ber því fram breytingartillögu um það efni. En jafnframt vill hún skora á stjórnina að beita sjer fyrir það, að Árni fái sem fyrst aftur kennarastöðu eða svipaða stöðu, svo að hann þurfi ekki að sitja lengi á eftirlaunum.“

Þetta er niðurstaða stjórnarinnar og nefndanna, að manninum eigi að bæta upp uppsögn hans, ekki fyrir eitt eða tvö ár, heldur með fullkomnum eftirlaunum, þangað til honum væri veitt álíka góð kennarastaða. Jeg skal ekki segja um, hvernig þetta færi fyrir dómstólunum, en þetta er að minsta kosti siðferðileg skylda. Eins og háttv. 1. landsk. þm. sagði, skiftir það engu máli, hvort maðurinn er þessa verðugur eða ekki. Hjer er um bindandi samning að ræða. Jeg vona, að deildin fallist á röksemdir mínar í þessu máli. Jeg vildi hjer einkum upplýsa málið fyrir nýjum þingmönnum.