09.04.1924
Neðri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í C-deild Alþingistíðinda. (2312)

94. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. meirihl. (Jón Baldvinsson):

Allshn., eða rjettara sagt meirihl. hennar, hefir ekki getað fallist á þetta frv., og leggur því til við háttv. þd., að það verði felt. Frv. þetta fer fram á, að gerð verði breyting á sveitarstjórnarlögunum í þá átt, að leggja megi útsvar á ítök og önnur hlunnindi utansveitarmanna. Frv. er fram borið í tilefni af hæstarjettardómi, eins og vísað er til í greinargerð frv. Meirihl. nefndarinnar álítur, að þegar sje gengið of langt í álagningu útsvara á utansveitarmenn, sjerstaklega eftir að sveitarstjórnarlögunum var breytt með lögum frá 1922, og álítur því ekki rjett að samþ. nú þessa breytingu á þeim. Einnig telur nefndin alveg óupplýst, hvort umræddur hæstarjettardómur nær fremur til almenns efnis laganna eða þar sje aðeins um einstakt atriði að ræða. Það virðist og af greinargerð frv. koma í ljós, að flm. þess þyki í raun og veru ekki vera ástæða til þess að vera að elta með útsvörum fátæka þurrabúðarmenn, þótt þeir hafi haft einhver slægjuafnot eða þessháttar utan sveitarfjelags síns, og má fullkomlega af því ráða, að hann leggi ekki mikið kapp á þessa breytingu á lögunum, þótt hann beri það fram að vilja kjósenda sinna. En ef það á að fara að breyta lögunum á annað borð, geri jeg ráð fyrir, að meirihl. allshn. vilji fella ýmislegt niður, sem komið er inn í lögin, því nú er verið að elta menn með útsvarsálagningum, án þess að nokkur takmörk sje um það sett, eða hve lengi atvinnan hafi verið rekin, þar sem útsvarið er lagt á. Þannig eru núgildandi lög, að minsta kosti í sumum tilfellum, ákaflega nærgöngul. Þessvegna leggur meirihl. allshn. það til, að þetta frv. sem enn fer í þá áttina, verði felt.

Um till. frá hv. þm. Borgf. (PO) er það að segja, að nefndarmenn hafa þar óbundnar hendur um atkv. sitt, því að það segir sig sjálft, að ef frv. verður felt, getur þessi brtt. illa staðist. Brtt. er að vísu alveg sjerstaks efnis og tekur til þess, að svæðið frá Reykjanesi til Garðskaga skuli í þessu tilliti teljast til Faxaflóa, og er ástæðan fyrir því, að þessi brtt. er borin fram, dómur, sem fallið hefir um útsvarsmál frá Sandgerði. Þó að sanngirni sje í því að samþ. þessa brtt., finst mjer þó ekki vera ástæða til þess að gera aðeins þessa breytingu á lögunum og enga aðra. Verði þetta samþ., teldi jeg rjett að koma fram með miklu víðtækari breytingar á lögunum.

Nefndarmenn hafa sem sagt óbundnar hendur um þessa brtt., en meirihl. nefndarinnar leggur til, að frv. sje felt.