09.04.1924
Neðri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í C-deild Alþingistíðinda. (2313)

94. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. minnihl. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg hefi ekki getað orðið samferða hv. samnefndarmönnum mínum í þessu máli. Er það till. mín, að breytingu á sveitarstjórnarlögunum, sem hjer er farið fram á, nái fram að ganga, og hefi jeg í nál. á þskj. 203 gert grein fyrir þeim rökum, er til þess liggja. Frá mínu sjónarmiði er ekki nema sjálfsagt, að eins og kaupstaðabúar eru skattskyldir fyrir afnotarjett af ítökum og slægjum í öðrum hjeruðum, þá sjeu utansveitarbændur það líka. Og þó það sje satt, að oft hafi verið fullangt gengið í því að heimila slíkar skattaálagningar, þá lagast ekki þeir agnúar við það að halda því misrjetti áfram, sem verið hefir í þessu efni. Samræmisins vegna ætti hv. deild því að geta felt sig við breytinguna.

Jeg get fúslega fallist á brtt. hv. þm. Borgf. (PO) á þskj. 226. Hygg jeg, að hún sje í fullu samræmi við það, sem lögin ætluðust upphaflega til. Landfræðislega sjeð nær Faxaflóa milli Reykjanestár og Snæfellsness, og þeir firðir, sem þar eru á milli, heyra þessum flóa til. En brtt. þessi tekur af allan vafa í þessu efni, og það er gott.

Annars álít jeg þetta mál ekki vera svo mikið stórmál, að taki að hafa langar umræður. Jeg hefi aðeins í fám orðum viljað skýra frá afstöðu minni og gera grein fyrir því, hversvegna mjer finst bót að þessum breytingum, ef þær ná fram að ganga.