16.04.1924
Efri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

1. mál, fjárlög 1925

Jónas Jónsson:

Jeg held, að jeg verði að byrja þar, sem hv. 2. þm. G.-K. (BK) hætti, á þessu fræga Árna Theodórsmáli, sem hefir í mörg ár legið fyrir hverju þingi. Hv. 1. landsk. þm. (SE) virtist líta svo á þetta mál, að ríkið væri skuldbundið til að greiða þessi eftirlaun en bæði hann og hv. 2. þm. G.-K. töldu þó vafasamt, að Árni ynni fyrir dómi. Ef það er nú svo, að dómstólarnir úrskurðuðu málið á þennan hátt, sem mjer finst líklegast, sje jeg enga ástæðu til að þingið sinni þessum eftirlaunakröfum (BK: Þá á að svíkja manninn um þau). Þar sem engu er lofað, er ekkert svikið. Þá var talað um, að engu máli skifti hjer, hvort sakir þessa manns væru miklar eða litlar. Það er alkunnugt, að þessi maður er óreglumaður og óhæfur kennari, og bætir það í engu hans málstað, þótt víðar sje eins ástatt og öðrum sje hlíft, er líkt er ástatt um, og svipað hafi jafnvel mátt segja um menn, er hafa starfað við háskólann.

Hv. neðri deild mun líka ætla sjer að taka þennan mann út af fjárlögunum. Jeg get í því efni minst á mann, sem þóttist vera fær um að semja orðabók og tróð sjer inn á þingið í því skyni að fá styrk til þeirrar starfsemi, sem hann líka fjekk. Þetta er erfitt verk og á fárra færi, enda er víst um það, að það er hvergi unnið á sama hátt og hjer, og ættu þeir, sem um það efast, að geta haft gott af að kynna sjer vinnubrögð Englendinga við Oxfordorðabókina til að sannfærast með samanburði um ágæti Jóhannesar Lynge.

Þá skal jeg með nokkrum orðum minnast á tillögur okkar hv. þm. Vestm. (JJós). Það er annaðhvort óskiljanleg gleymska eða blátt áfram ranglæti hjá hv. sjútvn. að hækka ekki laun fiskimatsmannsins í Vestmannaeyjum, sem starfsbræðra hans. Þetta liggur svo í augum uppi, að ekki þarf að fjölyrða um það. Hin till. okkar fer fram á að hækka styrkinn til dr. Helga Pjeturss. Það gleður mig mjög að vita það, að hv. 2. þm. G.-K. (BK) er þessu fylgjandi, og jeg vona, að svo sje um fleiri. Jeg lít svo á, að þing og stjórn eigi að gera sjer mannamun. Á hverjum tíma eru ekki uppi með þjóðinni nema fáir afburðamenn. Og hvað sem menn segja annars um dr. Helga Pjeturss, þá er víst, að hann er einn af þessum afburðamönnum. Rit hans eru lesin með áhuga um land alt, og hvort sem þau hafa vísindalegt gildi eða ekki, þá er þó víst, að þau hafa spámannlegt gildi, sem mun geymast eftirkomendunum, þegar enginn snefill er eftir af lífsstarfi margra presta og sýslumanna og annara embættismanna, sem eru dýrir á fóðrum ríkissjóðs. Vjer eigum nóg af dægurflugum, sem vjer borgum fyrir mikið fje, og því meiri ástæða er til að sýna viðurkenningu í verki þessum manni í lifanda lífi, þar sem hann er einn af þeim fáu, sem eitthvað hefir að gefa niðjunum.

Þá skal jeg minnast lítið eitt á hv. þm. Snæf. (HSteins). Hann kom hjer fram sem sparnaðarmaður, þar sem ekki snerti stjett hans. Hann talaði um utanfararstyrk lækna. Jeg hefði nú fyrir mitt leyti haft löngun til að krefjast hins sama hjer fyrir mína stjett, enda mun þörfin síst meiri hjer. Það er alkunnugt, að sumir læknar hjer hafa 10–20 þús. kr. í laun á ári fyrir læknisvitjanir sínar. Einn af læknum landsins, og einn af þeim helstu, hefir lýst yfir opinberlega, að hann hafi getað farið í langferð til annara landa fyrir fje, er hann hafi grætt á sölu óleyfilegra áfengislyfseðla, og jeg veit, að hv. þm. Snæf. muni vera kunnugt, að fleiri læknar leggi fyrir sig verslun af þessu tægi, enda er útlit fyrir, að það sje allarðsöm atvinna, eftir frásögn þess læknis, er jeg gat um áðan. Að vísu veit jeg, að það eru, sem betur fer, margir læknar, sem ekki afla sjer tekna á þennan hátt. — En læknar eru yfirleitt best settir allra embættismanna. Jeg vil geta þess í þessu sambandi, að mjer er kunnugt um, að einn bóndi varð síðastliðið sumar að greiða 400 kr. fyrir læknishjálp við fótbrot. Jeg held að mjer sje óhætt að fullyrða, að margir læknar hafi ágætar tekjur og að ummæli hv. þm. Snæf. fyrir þeirra hönd sjeu barlómur einn, og vil því leggja til, að till. sje feld.

Þá var sparnaðurinn ekki á háu stigi hjá þessum hv. þm. er talað var um aðaðstoðarlækninn á Ísafirði. Hann á að hafa í árslaun 1800 eða 2000 kr., þótt öllum sje kunnugt, að hann hefir þar ekkert að gera. Þessu embætti vill þessi mikli sparnaðamaður halda við, einmitt er fram eru komnar tillögur um niðurlagningu óþarfra embætta. Hins vegar hefir hv. þm. Vestm. sýnt fram á það, að þörf sje á aðstoðarlækni í Vestmannaeyjum, og um það er jeg honum samdóma. Jeg vil því leggja til að flytja aðstoðarlækninn frá Ísafirði til Vestmannaeyja.

Þá skal jeg minnast á þá till. hv. þm. Snæf., að leggja niður tvo opinbera skóla, samvinnuskólann og verslunarskólann. Hann virtist langa til að leggja stýrimannaskólann niður líka, en hafði þó ekki kjark til þess. Helstu röksemdir hans voru þær, að hvorki væri þörf á fleiri kaupmönnum nje samvinnumönnum. Í sambandi við þetta má minnast á mentaskólann. Styrkur til hans hefir farið síhækkandi undanfarið; hefir hækkað úr 20 þús. kr. upp í 120 þús. kr. á einum mannsaldri, þrátt fyrir það, þótt allir viðurkenni, að þessi mikla aðsókn sje hvorki holl fyrir þjóðina nje nemendurna. Nýjum kennaraembættum hefir verið bætt við í sífellu, og ekki gott að sjá, hvar verður látið staðar numið. Þeir menn, er þaðan útskrifast, eru síður en svo hæfari til algengra starfa en aðrir menn. Hjer gæti því verið ástæða til að athuga, hvort ekki væri hægt að spara nokkrar þúsundir.

Nú stendur svo á um þessa skóla, að annar þeirra er ætlaður kaupmönnum, en hinn samvinnumönnum. Jeg hefði nú vel getað skilið það og það hefði alls ekki komið mjer á óvart, þótt þessi hv. þm. hefði komið fram með tillögu um að fella niður allan styrk til samvinnuskólans. En þessa tillögu hans fæ jeg ekki skilið. — Verslunarskólinn á að ala upp innlenda ment aða kaupmannastjett. Þeir, sem eru á móti samvinnufjelögum og innlendum kaupmönnum, hljóta að vera að vinna fyrir erlenda verslunarstjett. Það hafa nýlega komið fram gögn, er varpa skýru ljósi yfir þetta. Eitt af blöðum landsins, flokksblað þessa hv. þm., er eign útlendra kaupmanna og kostað af þeirra fje. Þessa till. er því ekki hægt að skýra á annan hátt en þann, að hv. þm. Snæf. vilji láta þessa dönsku kaupmenn hafa hjer tögl og hagldir á verslunarsviðinu, eins og þeir ráða hjer yfir útgáfu dönsku blaðanna hjer í bænum. Þetta er eina skýringin, og hún er meira að segja mjög góðgjörn og bygð á fylstu rökum.

Annars get jeg látið þennan hv. þm. vita það, að samvinnumenn mundu halda áfram skóla sínum, þótt þeir væru sviftir opinberum styrk til þess. Skólinn er stofnaður til að veita þeim körlum og konum þekkingu, er áhuga hafa á fjelagsmálum. Aðrar þjóðir, eins og Danir og Englendingar, hafa fyrir löngu sjeð nauðsyn þessarar fræðslu. Í Englandi nema um 60 þús. manna árlega í skólum og á námskeiðum samvinnumanna. Og einn merkur Englendingur sagði, að danska smjörið væri svo gott, af því að það væri blandað þekkingu og mannviti.

Ef athuga ætti áhrif samvinnustarfseminnar á líf almennings hjer á landi, gæti verið lærdómsríkt t. d. fyrir hv. þm. Snæf. að hann tæki sjer ferð á hendur til Eyjafjarðar, Þingeyjarsýslu, Fljótsdalshjeraðs eða Austur-Húnavatnssýslu og bæri saman byggingarnar og alla afkomuna þar við það, sem maður sjer á vissum stöðum í hans eigin kjördæmi. Hefi jeg hvergi á Íslandi komið, þar sem byggingar eru eins hörmulegar og einmitt þar. Fólkið er kúgað og haldið niðri í eymd og fátækt af erlendri einokunarverslun. Mjer er minnisstætt, er jeg var þar eitt sinn á ferð með útlendingi fyrir ellefu árum. Við komum á bæ einn og urðum að skríða inn í moldarkofana um dyr, sem voru lítið hærri en hjer er undir borðið. Jeg er ekki að áfellast fólkið, — það er fórnarlamb einokunarinnar, — miklu heldur hv. þm. Snæf. í hans kjördæmi eru menn nú að byrja að skilja mátt fjelagsskaparins í verslun og öðru. Svo kemur hv. þm. fram með ósk um það að svifta þessa menn og aðra þeirri mentun og þekkingu, sem helst gæti orðið til af lyfta þeim úr fátækt og basli og undan kúgun erlends valds.

Tveir af lærisveinum mínum, ungir menn, starfa nú að samvinnuverslun í kjördæmi hv. þm. Á þeim stað var verslunin svo hörmuleg þegar kaupfjelagið byrjaði, að hinir gömlu, dönsku einokunarkaupmenn urðu t. d. að lækka mjöl tunnuna um 10–11 kr. Hverju var þetta að þakka! Þeirri þekkingu, sem hv. þm. Snæf. vill útrýma úr landinu. — Einn ráðherra hefir haldið því fram, að í sumum sveitum — þar með kjördæmi hv. þm. Snæf. — væri þannig ástatt, að nauðsyn bæri til að reka þar landsverslun með nauðsynjavöru í svo sem 20 ár, til þess að fólkið væri ekki kúgað og pínt og þrýst niður í sárustu örbirgð.

Að síðustu vil jeg benda á það, að þessir tveir skólar, sem hv. þm. vill svo feginn eyðileggja, ef hann gæti, þeir kosta ríkið eitthvað um 10 þús. kr. Hvaða skólar á landinu eru tiltölulega jafnódýrir! Þeir eru engir. Kvennaskólinn í Reykjavík, sem er með ódýrustu skólum landsins, hann kostar helmingi meira en báðir þessir skólar til samans. Ríkisskólar, svo sem Eiðaskólinn og Blönduósskólinn, kosta þrefalt meira. Því er það dálítið kynlegt, þegar sparnaðarmennirnir vilja helst leggja niður ódýrustu skólana, sem til eru í kaupstöðum hjer á landi, — skóla, sem ekki starfa lengur en svo, að nemendur eru líkamlega óskemdir eftir. Þetta eru skólarnir, sem starfa sjerstaklega að því að veita borgurum landsins almenna fjelagslega fræðslu, til þess að gera þá færari í baráttu sinni við útlenda kaupmannavaldið, sem Lögrjetta í gær hefir lýst svo ískyggilega.

Jeg vil taka það fram, að jeg óskaði ekki eftir að halda hjer ræðu til að hafa áhrif á atkvæði manna. Mjer stendur á sama, hvort hv. þm. Snæf. sigrar við þessa atkvgr. eða ekki. Aðeins vildi jeg ekki láta það ómótmælt, að þessi sami hv. þm., sem vill spara nokkur þúsund við uppeldi, sjer ekkert á móti því að eyða fje í alóþarfan embættismann, dæmdan brotamann af hans stjett, — ekkert á móti því, að halda uppi mentaskólanum í því formi, sem hann er, þar sem hann kostar sex- eða sjöfalt við það, sem var fyrir mannsaldri. Flm. tillögunnar hlýtur að hafa skrítnar hvatir til að bera fram svona tillögu. Sennilegasta skýringin er, að hann sje að vinna fyrir útlenda fjármálavaldið, sem Lögrjetta lýsti svo fagurlega í gær. Enda mun útlenda verslunin á Snæfellsnesi drjúgan hafa stutt hv. þm. Snæf. til kosninga í haust.