08.03.1924
Neðri deild: 18. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í C-deild Alþingistíðinda. (2323)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Það er alger misskilningur hjá hv. 2. þm. Reykv. (JBald), að jeg hafi viljað gefa í skyn, að sjerstakt sleifarlag ætti sjer stað með tilliti til starfseminnar á skrifstofum ríkisins. Hitt getur átt sjer stað, að starfsmennirnir hafi stýrur í augunum fram á 11. stund, þó skrifstofan hafi verið opnuð kl. 10. Það, sem liggur til grundvallar fyrir frv., er einungis það, að mjer finst vinnutíminn of stuttur. Hitt er rjett, að það er stjórnarinnar að hafa eftirlit með þessu á hendi, og hefi jeg vikið að því í nál. En eðlilegt getur það verið, að henni finnist viðkunnanlegra að hafa lagaákvæði um þessi efni til að styðjast við. Vera má og, að lenging starfstímans sje full mikil eftir frv. Það verður altaf álitamál. En skilningi hv. þm. (JBald) á orðum mínum vil jeg fastlega mótmæla.