08.03.1924
Neðri deild: 18. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í C-deild Alþingistíðinda. (2325)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg býst við, að þörfin verði látin ráða því, hvað lengi hinum ýmsu skrifstofum verði haldið opnum. Geri jeg ráð fyrir, að þeim henti eigi öllum sami lokunartími, og verður því reynslan að skera úr um þetta atriði. Einnig er athugandi, að ekki eru allir menn á skrifstofunum bundnir við afgreiðsluna og geta því sint öðrum störfum. Annars verður þetta að vera ákvæði, sem ríkisstjórnin setur hverri einstakri skrifstofu, í samræmi við það, sem teljast verður nauðsynlegt eða heppilegt á hverjum stað.