11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í C-deild Alþingistíðinda. (2327)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Eins og nál. ber með sjer, hefir allshn. leitað sjer upplýsinga um þetta mál hjá þeim opinberu stofnunum, sem tilgreindar eru í nál. Hún hefir svo borið saman svör þessara stofnana og upplýsingar þeirra um launagreiðslur, og samkvæmt því verður eigi annað sagt en að vinnutími þeirra sje sem næst því, sem frv. það tiltekur, er háttv. þm. V.-Hún. (ÞórJ) bar fram.

Eftir þessum upplýsingum var nefndin öll á einu máli um það, að ekki væri ástæða til þess að farið væri að lögbjóða ákveðinn vinnutíma. Hinsvegar fjelst hún algerlega á ástæður hv. flm. um eftirlit með starfseminn á þessum skrifstofum, engu síður en með annari starfsemi hins opinbera. En eftir þeim upplýsingum, sem nefndin aflaði sjer, verður ekki annað sagt en að víðast hvar sje unnið á skrifstofunum eins og hægt er að krefjast af starfsmönnunum. Undantekningarlaust er þetta þó varla, og einkum er vinnutíminn í stjórnarráðinu stuttur. Þar fá starfsmennirnir aukaþóknun, ef þeir vinna lengur en 5 tíma, nema hvað skrifstofustjórarnir vinna oft lengur. Nú er nefndin þeirrar skoðunar, að heppilegra sje bæði starfsmönnunum og ríkinu, að þar verði vinnutíminn lengdur og launakjör starfsmannanna verði að sama skapi bætt. En eins og nú er, getur það ekki talist vafamál, að launin eru þar alt of lág til þess, að starfsmennirnir geti framfleytt sjer og fjölskyldu sinni með þeim einvörðungu. Til þess að bæta þetta upp, vinna margir þeirra í eftirvinnu annarsstaðar, og þá að alls ólíkum störfum. Þetta fyrirkomulag er í alla staði óheppilegt. Væri miklu nær, að starfsmennirnir væru færri, en ynnu svo alla sína vinnu í stjórnarráðinu, en fengju þá um leið svo mikil laun, að þeir gætu lifað sómasamlega af þeim.

Um aðrar stofnanir ríkisins er það að segja, að þar er starfstíminn víðast hvar 7–8 stundir og sumstaðar lengri, eins og t. d. á pósthúsinu og í Landsbankanum, en hjá þessum stofnunum eru launakjörin líka betri, en annars enginn aukaþóknun greidd fyrir þann tíma, sem menn vinna umfram venjulegan starfstíma. Þetta fyrirkomulag telur nefndin miklu eðlilegra og heppilegra, að greiða mönnunum sæmilega fyrir sinn starfa, en hafa þá starfsmannafjöldann ekki meiri en þarf til þess að komist verði yfir störfin. Um flestar aðrar stofnanir ríkisins má víst segja hið sama. Hinsvegar hefir nefndin rekið sig á það, að hjá einstaka stofnun sjeu launin of há í samanburði við laun embættis- og sýslunarmanna landsins. Svo er t. d. um áfengisverslunina og landsverslunina. Þar hafa víst sumir starfsmennimir fullkomin ráðherralaun eða meira. Og þó auðvitað sje ekki nema gott um það að segja, að geta launað starfsmönnum sínum vel, þá verður þó að taka tillit til þess, hverjum launakjörum starfsmenn ríkisins yfirleitt sæta, og er það ekki nema sanngjörn krafa, að strangar gætur sjeu hafðar á því, að þar á sje fult samræmi. Og þar sem sumir starfsmenn við þessar stofnanir hafa hærri laun en hæstlaunuðu embættismenn ríkisins, þá má teljast ókleift að láta slík launakjör ná til starfsmanna ríkisins yfir höfuð. Því vill nefndin leggja mikla áherslu á það, að framvegis verði komið á meiri jöfnuði um laun þessara starfsmanna og annara starfsmanna í þjónustu ríkisins. Ennfremur teldi nefndin mjög æskilegt, að hæstv. stjórn vildi rannsaka, hvort ekki væri unt að breyta fyrirkomulaginu á bókfærslunni í sumum þessum stofnunum og gera hana einfaldari og umsvifaminni. Það er enginn vafi á því, að þing síðari ára hafa með lagasetningum gert það að verkum, að skrifstofukostnaðurinn á sumum stofnunum ríkisins, og þá ekki hvað síst skrifstofukostnaður lögreglustjórans í Reykjavík, hefir aukist um skör fram á síðari tímum. Nefndin álítur nú, að alt þetta skrifstofuhald megi gera einfaldara og óbrotnara, án þess að skert sje tryggingin fyrir góðri og áreiðanlegri bókfærslu. Því eru það tilmæli nefndarinnar, að stjórnin taki þetta til gaumgæfilegrar athugunar, og væntir þess fastlega, að með því móti megi spara talsvert á mannahaldi á þessum skrifstofum.

Að öllu þessu athuguðu komst nefndin að þeirri niðurstöðu, að ekki væri rjett að leggja til, að frv. nái fram að ganga, en leyfir sjer að bera fram rökstudda dagskrá, sem birt er á þskj. 312 og — með leyfi hæstv. forseta — hljóðar svo:

„ Í trausti þess, að ríkisstjórnin hafi aðgæslu með starfsemi í skrifstofum þess opinbera, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Jeg skal í þessu sambandi geta þess, að sæi hæstv. stjórn sjer ekki fært að gera nauðsynlegar breytingar til þess að færa niður skrifstofukostnaðinn, og ef breyta þyrfti lögum til þess, að það yrði hægt, þá væntir nefndin þess, að hún láti undirbúa það mál fyrir næsta þing.

Jeg finn svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta meir. Heldur sje jeg ekki ástæðu til að færa fram einstök dæmi, tilvitnanir í lög o. s. frv. Hv. þm. er sjálfum kunnugt um launakjörin, og vildu einhverjir fræðast frekar um þá hluti, þá eru hjer fyrirliggjandi skjöl, sem gefa upplýsingar um þessi atriði.

Vil jeg svo að lokum leggja til, að hv. deild samþ. hina rökstuddu dagskrá, sem nefndin ber fram og jeg hefi nýlega lesið upp.