11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í C-deild Alþingistíðinda. (2328)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Þórarinn Jónsson:

Það fyrsta, sem maður rekur augun í, þegar athugað er nál., er það, að þar eru hv. þm. Reykv. loksins ekki einir sjer. En þeir hafa annars venjulega verið í minnihluta og stundum þurft að auglýsa það. Hvað hv. 2. þm. Reykv. (JBald) snertir, þá kemur mjer hans aðstaða ekki undarlega fyrir sjónir, því það er vitanlegt, að hann fyllir flokk þeirra manna, sem vilja láta greiða sem hæst laun fyrir sem minst starf. Og hvað viðvíkur hv. 4. þm. Reykv. (MJ), þá er það líka kunnugt, að hann vill halda starfsmenn ríkisins ríkmannlega. En jeg er hissa á því, að hinir skuli hafa látið sannfærast.

Hv. nefnd lætur þess getið, að hún hafi skrifað öllum skrifstofum ríkisins hjer í bæ og fengið hjá þeim skýrslur um launakjör og starfshætti á þeim. Þetta er náttúrlega handhæg aðferð, en í sjálfu sjer sannar það ekkert, því þó setið sje svo og svo lengi á skrifstofunum, þá er ekki þar með sagt, hvað lengi sje unnið þar. Og um það efni vantar auðvitað allar upplýsingar. Suma rekur máske minni til þess, að þegar vínverslunin var fyrst sett á stofn, þá voru við hana 20 menn, og þegar beðið var um skýrslu um mannahaldið, þá var talið, að ekki væri hægt að komast af með færri. Síðan hefir það þó sýnt sig, að þetta mikla mannahald var algerlega óþarft. Eitthvað svipað má víst segja um þær skýrslur, sem hv. nefnd hefir nú fengið, að hæpið er að taka þær allar trúanlegar í strangasta skilningi.

Það er annars einkennilegt, hvernig farið er að, þegar skrifstofur eru settar á stofn fyrir ríkið. Fyrst er þá að útvega mikið og rúmgott húsnæði. Áfengisverslunin greiddi 84 þús. krónur fyrir húsnæði sitt í fyrra. — Næst er svo að útvega forstöðumanninum gott pláss, því þó hann hafi annars ekkert að gera, þá þarf hann að gæta þess, að bætt verði við mönnum, ef að hætta er á, að annars verði að vinna fimm mínútur fram yfir tímann. Nú er jeg viss um, að ef rannsökuð væri starfsemin á skrifstofu vínverslunarinnar, þá yrði niðurstaðan sú, að fækka mætti starfsmönnunum um helming, því jeg fullyrði, að sumir þeirra hafi ekkert að gera. En alt þetta getur nú fyrst talist fullkomlega rannsakað, þegar stjórnin hefir gengið þangað t. d. í 10–20 daga, og tekið náið eftir starfi hvers manns. Því menn verða að láta sjer skiljast, að það er alt annað að sitja á skrifstofum 5–7 tíma á dag en að vinna á skrifstofum 5–7 tíma á dag.

Þá var mjer áður kunnugt um, að sumstaðar, t. d. í pósthúsinu, er vinnutíminn lengri. En þar eru þó ekki að sama skapi hærri laun. Annars væri fróðlegt að bera saman starfsmannahaldið við vínverslunina og stórar vöruskiftaverslanir, sem jeg hafði áður kynni af. Þær verslanir höfðu sumar um 800–1000 viðskiftamenn, en samt unnu ekki aðrir við þær en verslunarstjórinn, einn bókhaldari og afhendingamaður og pakkhúsmaður. Jeg hika ekki við að telja, að starfið við þessa verslun hafi verið eins mikið og við vínverslunina. En þar hjálpuðust menn við störfin. Nú eru hópar manna fengnir til að annast hvað eina af þessu. Þetta er enginn sparnaður. Og svo er verið að segja, að ekki megi lögfesta vinnutímann, því víðast sje nógu lengi unnið hvort sem er. En hversvegna má ekki gera það? Og myndi stjórnin ekki standa ólíkt betur að vígi með eftirlitið með starfseminni á skrifstofunum, ef hún hefði lagastafinn að styðjast við? Jeg veit, að loftslagið og tískan hjer í bæ er ákaflega rík, og því veit jeg ekki, hvort stjórnin án slíks stuðnings treysti sjer að gera þá byltingu, sem þarf á þessu sviði. Það er orðið daglegt brauð, að menn sjeu teknir til sáralítilla starfa frá öðrum meiri og gagnlegri störfum. Það þarf ekki annað en að koma inn í tóbakseinkasöluna til að ganga úr skugga um, hvað miklir starfskraftar fara hjer oft til lítils. Því hefðu kaupfjelög og kaupmenn þessa verslun, þyrfti engum manni við að bæta. Aftur hefi jeg aldrei haldið því fram, að jeg vildi láta starfsmenn ríkisins vera varlaunaða. Jeg hefi einmitt tekið það fram, að sjálfsagt væri að hækka launin, þar sem þess væri þörf, en þá er líka um leið til þess ætlast, að menn hafi sitt aðalstarf þar, sem þeir vinna. En eins og því er nú háttað, vinna þeir oft annað eins úti í bæ.

Hv. frsm. (JörB) mintist á, að sumstaðar myndu menn vera fullhátt launaðir á hinum nýju skrifstofum. Það er því ekki einungis, að þar sjeu menn, sem ekkert hafa að gera, heldur eru þeir launaðir svo, að það er hið fylsta ranglæti gagnvart öðrum starfsmönnum ríkisins.

Jeg vil líka minnast á annað atriði í þessu sambandi. Mjer hefir komið það svo fyrir sjónir, að þegar starfsmaður hafi forfallast, þá hefir ekki altaf verið þörf á að setja annan í hans stað. Eins er það, að þegar þessir menn veikjast, þá eru þeir stundum teknir strax af launum, en annarsstaðar ekki fyrri en seint og síðarmeir. — Annars eru það fulltrúarnir, sem jeg skil minst í. Líklega er til þess ætlast, að hægt sje að grípa til þeirra, ef skrifstofustjóri forfallast. En trúað gæti jeg því, að eitthvað af þeirra starfi færi í að rannsaka, hvenær skrifstofustjórinn væri ekki við.

Vel má vera, að sumum þyki jeg hafa verið full fastorður í ræðu minni, og máske hefi jeg gefið mönnum höggstað á mjer. En jeg hefi aðeins verið að láta skoðun mína í ljósi. Jeg álit þetta mál vera nauðsynlegt vegna fjárhagsins, og nauðsynlegt einnig til þess að koma á föstu og ákveðnu vinnufyrirkomulagi. Og þó jeg vantreysti stjórninni á engan hátt að rannsaka þetta mál og hefjast handa í því, þá vil jeg gera henni það starf auðveldara með lögum um þessi efni. Því mun jeg líka greiða atkvæði móti þeirri rökstuddu dagskrá, sem fram er komin, og vænti þess, að hv. deild geri það einnig.