16.04.1924
Efri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

1. mál, fjárlög 1925

Eggert Pálsson:

Klukkan er nú þegar orðin 12, komin helgi, og hátíðisdagur byrjaður. Ætti því ekki að halda umr. lengur, ef hægt væri að komast hjá því, en allra síst er það viðeigandi að fara að deila eða kastast hjer á hnútum.

Jeg þarf ekki að vera langorður. Þessar tvær till., sem jeg hefi borið fram, hafa ekki. mætt neinum andmælum. Það er aðeins till. frá hv. fjvn., sem snertir mikillega mitt kjördæmi, sem sje 9. töluliður, um hækkun fjárveitingarinnar til viðhalds flutningabrauta úr 75 þús. kr. upp í 100 þús. Hún hefir mætt mótmælum nokkrum úr hörðustu átt, — frá manni úr sjálfri fjvn. hv. þm. A.-Húnv. (GÓ). Háttv. þm. virtist ekki kannast við neina örðugleika við flutningabraut þessa frekar öðrum. Hann hefir farið einu sinni yfir Holtin að sumarlagi, og er vitaskuld, að hægt er að komast það klaklaust þegar þurt er um. En ef hann ætti leið um Holtin í rigningatíð á vordegi eða að hausti til, efast jeg um, að alt gengi slysalaust fyrir honum í fólksflutningabíl, hvað þá ef hann færi með vörubíl. Það hefir margsinnis komið fyrir, að vegur þessi hefir orðið með öllu ófær. Verður þá að beita ýmsum brögðum til að ná vögnunum upp úr hvörfunum, bæði með því að bera alt af þeim og enda fá hesta til að draga þá upp.

Jeg hefi heyrt hæstv. fjrh. lýsa því yfir í báðum deildum þingsins, að brýn þörf væri á að endurbæta þennan veg, og það sem allra fyrst og algerlega á ríkisins kostnað. Tók hann það skýrt fram, að vegur þessi liggur á ákaflega vondum stað. Auk þess var hann illa gerður í upphafi, enda var þekking manna til þeirra hluta komin þá skamt á leið. Skömmu eftir að vegurinn hafði verið lagður sýndi hann sig sem hrein og bein vegleysa. Þingið hefir viðurkent þörfina á verulegum endurbótum og þegar hafist handa til að gera hann að virkilegum vegi. En til þess þarf vitanlega mikið fje, og altaf verið gert ráð fyrir því. Hefði jeg búist við, að hv. þm. A.-Húnv. hefði kynt sjer kostnaðaráætlun yfir verkið, og það því fremur, sem hann á sæti í fjárveitinganefndinni. Veit jeg ekki betur en að verkfræðingur hafi áætlað endurbyggingu vegarins um 200 þús. kr. En af þessu er búið að leggja fram um 90 þús. kr. í þá 4 km., sem búnir eru. Ef hætt væri við framhaldsviðgerð á veginum, yrði hann engum manni til gagns og þessum 90 þús. kr. sem á glæ kastað. Það er alveg óhugsanlegt að gera nokkuð við gamla veginn á þeim næsta 4 km. kafla með eintómum ofaníburði. Það er reynsla fyrir því. Ekkert er þar til að bera ofan í nema foksandur, er fýkur mjög, er um þornar. Vegagerðinni verður því að halda áfram með sömu aðferð og byrjað hefir verið á, þangað til komið er yfir verstu torfærurnar. Ef jeg vissi, að nú ætti að hætta við alt, þegar búið er að leggja 60 þús. kr. úr ríkissjóði móti 30 þús. kr. frá sýslunni, lægi mjer við að segja, að þing og stjórn skyldi hafa skömm fyrir. En jeg vil firra þing og stjórn þessari skömm. En það verður ekki gert með öðru móti en að endurbyggingunni sje haldið áfram sleitulaust. Ef ekkert er aðgert meira en nú er búið, má segja, að hlutaðeigandi sveitir sjeu útilokaðar úr mannfjelaginu. Það gagnar ekki austursveitunum, þó gerður sje vegur austur að Þjórsá og afbragðsgóður 4 km. kafli í miðjum Holtum, ef kviksyndi er svo þar á milli.

Það er misskilningur hjá háttv. þm., að aðeins þessar 25 þús. ættu að fara í Holtin og ekki meira. Tilætlunin var, að eitthvað talsvert — jeg hugsa megnið — af þeim 75 þús., sem standa í frv., gengi til þess. En það hefði reynst svo lítið fje, að verkinu hefði ekkert gengið áfram með því móti. Þess vegna væri það hrein og bein ráðleysa að hækka ekki styrkinn. Verkfæri eru til austur frá til vinnunnar, og mundu þau aðeins grotna niður, ef þau eru ekki notuð. En með því að hækka styrkinn koma þau að notum, og þessi ófæra, sem Holtin eru, verður því fyr bætt, hlutaðeigendum til gagns og landinu til sóma.

Jeg þykist ekki þurfa að fjölyrða frekar um þetta, en geng að því vísu, að menn sjái, við alvarlega íhugun, að hjer er um bráða nauðsyn að ræða, og hiki ekki við að greiða þessari brtt. atkvæði sitt, þrátt fyrir ummæli hv. þm. A.-Húnv.