11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í C-deild Alþingistíðinda. (2331)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Jón Kjartansson:

Jeg held satt að segja, að hv. flm. (ÞórJ) og okkur, sem berum fram dagskrána, greini ekki eins mikið á og hann heldur. Það, sem dagskráin á við, er aðallega fólk á opinberum skrifstofum, en alls ekki starfsmenn við áfengisverslunina nje landsverslun. Við erum hv. flm. algerlega sammála um það, að launakjör og fjöldi þeirra manna nær ekki nokkuri átt. En þegar við sömdum þessa dagskrá, þá tókum við tillit til þess, að á sumum skrifstofum, einkum í stjórnarráðinu, þar sem vinnutíminn er stystur, þá eru launin ákaflega lág, og okkur fanst, að ómögulegt væri að fyrirskipa lengri vinnutíma nema með því að breyta um leið launalögunum.

Fulltrúar í stjórnarráðinu hafa sem sje 3500 kr. byrjunarlaun, aðstoðarmenn 2000 kr. byrjunarlaun og skrifarar 1600 kr. Ef þessi laun eru borin saman við önnur, t. d. laun starfsmanna á lögreglustjóra- og bæjarfógetaskrifstofunni, þá eru þau miklu lægri en þar gerist. En þess ber þá líka að gæta, að á þeim skrifstofum er miklu lengri vinnutími, jafnvel lengri en ákveðið er í frv. Því þar hefir hver maður sitt ákveðna starf, sem hann verður oft að rækja fram á kvöld, svo vinnutími hans getur orðið alt að 10 klst. Við sáum því ekki, að hægt væri að lengja vinnutímann í stjórnarráðinu, nema hækka launin, svo að lífvænleg yrðu. Einnig eru launin mjög lág á pósthúsinu, og þeir verða að vinna, þegar þörf þykir, hvenær sem er. Starfsfólkið við símann er einnig illa launað. En það var alls ekki ætlun okkar, að dagskráin næði til áfengis- og landsverslunarinnar. Það er föst skoðun mín, að þar verði að breyta sem fyrst um, og því fyr, þess betra. Því það nær ekki nokkurri átt, að afgreiðslumaður þar hafi eins há eða hærri laun en skrifstofustjóri í stjórnarráðinu, og sendisveinn hærri laun en skrifari í stjórnarráðinu. Jeg býst líka við, að það mál verði hjer síðar til umræðu, og þá fast tekið í taumana og samræmi á komið.

En þar sem dagskráin miðar aðeins að því, að stjórnin athugi, hvort ekki væri heppilegt, að vinnutíminn væri lengdur á stjórnarskrifstofunum og jafnvel einhver launauppbót veitt, vona jeg, að hv. flm. geti sætt sig við hana. Því eins og jeg hefi tekið fram, sáum við okkur ekki fært að breyta launalögunum nú, svo að hægt væri að ákveða lengri vinnutíma. Við álítum, að það mætti bíða, þar til öll launalögin verða endurskoðuð, sem væntanlega verður á næsta ári.

En laun starfsmanna við áfengis- og landsverslun koma aftur á móti því máli ekkert við. Þeim er hægt að breyta án nokkurra laga. Er að sjá svo sem forstjórar þeirra stofnana ráði þar öllu um, og má þingið ekki lengur láta svo búið standa. heldur taka fast í taumana og koma samræmi á við aðrar stofnanir. Enda hefir ósamræmið, sem nú er, valdið mikilli gremju, því ýmsir opinberir starfsmenn aðrir hafa vitnað til þeirra stofnana, t. d. nú í vetur símamennirnir, þegar þeir kröfðust launauppbótar. En þeir hafa ekki hálf laun á við starfsmenn þessara stofnana.