11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í C-deild Alþingistíðinda. (2338)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Þórarinn Jónsson:

Jeg hefi ekki miklu að svara hjer. Flestir hv. þm., er til máls hafa tekið, hafa þóst vera mjer sammála. Þó vildi jeg víkja nokkrum orðum að frsm. (JörB). Hann talaði um, að venjulegur vinnutími á skrifstofum væri 7–8 stundir. Eftir því sem jeg best veit er 6 stunda vinnutíminn algengari, og sumstaðar þar fyrir neðan. Hann drap og á, með rjettu, að athugavert væri, þegar ekki þyrfti að koma maður í manns stað á þessum skrifstofum, og alt gengi sinn vanagang fyrir því. Jeg veit dæmi til þess, að svo hefir verið, enda er það ekkert undarlegt. Hann gat þess, að bæta þyrfti launakjör manna á skrifstofum í stjórnarráðinu, en nefndin hefði ekki viljað hagga við launalögunum. Jeg tók það fram, að þar sem svo stæði á, gætu menn unnið í vinnustundum sínum þau störf, er þeir fá nú aukalaun fyrir, og þannig mætti jafna hin lágu laun, án þess að breyta launalögunum á þessu þingi.

Jeg vildi minnast lítillega á hagstofuna. Jeg veit ekki, hvort menn hafa gert sjer ljóst, hvað hagskýrslurnar kosta, en víst er um það, að þær eru þær langdýrustu bækur, er koma út með þjóðinni, þar sem til hagstofunnar er varið um 40 þús. árlega og hvert hefti skiftir því líklega þús. kr. að dýrleika. Þó væri það sök sjer, ef þær væru ekki ætið 1–2 árum á eftir tímanum, eins og þær eru. Á þessari skrifstofu er hætt vinnu kl. 1 á laugardögum. Aðra daga veit jeg ekki hve lengi er unnið þar. Mjer finst einnig fullkornin ástæða til að athuga, hvort hinir ýmsu skrifstofustjórar eru í rauninni færir um að stjórna þessum skrifstofum. Að minsta kosti má ekki annað eins og þetta vera óátalið.

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) sagði, í sambandi við ummæli mín um hann, að þetta væri nú mannlegt og algengt, að menn vildu fá sem mest fyrir sem minsta fyrirhöfn. Hann gat um bændur í því sambandi og kjötsölu. Þeir verða nú oft og tíðum að sætta sig við þann gróða, að verða að kosta meira til framleiðslunnar en hún gefur af sjer. Þeir eru því alls ekki sambærilegir í þessu sambandi.

Líklegt tel jeg, eins og jeg hefi áður minst á, að sum störf mætti með öllu leggja niður. Og illa kunni jeg við það, sem hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) gerði, að hafa starf þetta, er hann gat um, við áfengisverslunina, í skopi, af því að þar er um sorglega misbeitingu drengskaparheita að ræða, sem ætti strax að uppræta. Það, sem gera þarf, er að samþ. frv., svo að stjórnin fái eitthvað til þess að byggja á í viðreisnarstarfsemi þeirri, er hún þarf að hefja í þessu efni.

Það er ekki rjett að halda því fram, að það fari eftir laununum, hve vel starfið er stundað. Þannig munu vera einna lægst laun á pósthúsinu. Þó er það á allra vitorði, að starfsemi öll og stjórn er þar í besta lagi.