11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í C-deild Alþingistíðinda. (2339)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Það er útlit fyrir, að umræður ætli að lengjast, og er ef til vill við því að búast, vegna þess, hve þm. álíta, að málið sje mikilvægt. Jeg held, að það sje nú mikilvægara í orði en það þarf að vera á borði, svo framarlega sem stjórnin gerir skyldu sína. Ef landsstjórn og forstjórum ríkisstofnananna er ekki til þess trúandi, án sjerstakra lagafyrirmæla, að hafa eftirlit með þessu, þá hafa lög um það lítið að segja.

Mjer er það ekkert kappsmál, hvort frv. eða dagskráin verður samþykt. Eins og jeg hefi sagt, legg jeg ekki mikið upp úr lagafyrirmælum um þetta efni, en því meira upp úr trúmensku stjórnar og forstjóra. Skyldurækin stjórn þarf einskis lagabókstafs. Óhæf stjórn metur hann einskis.

Háttv. flm. (ÞórJ) vill hafa starfstímann minst 8 stundir. Jeg hygg, að mjög sje í hóf stilt að ákveða þar 8 stunda vinnu að jafnaði. En eigi það að vera lágmarkið, og svo eigi oft og tíðum að vinna þar fram yfir þann stundafjölda, þá finst mjer of langt gengið. Jeg hefi ekki verið á skrifstofu, enda þótt jeg sje kunnugur þeim störfum. Jeg er líka mjög kunnugur allri útivinnu, og jeg ber ekki saman 8 stunda skrifstofuvinnu og 12 stunda útivinnu. Svo miklu eru skrifstofustörfin áreynslufrekari og óhollari. Mjer stendur á sama, hvað kjósendur segja um þetta; þetta er satt engu að síður.

Hv. flm. má gera eins mikið úr ágreiningi okkar og hann vill. Jeg skal ekki fara frekar út í málið að sinni, enda tók jeg öll höfuðatriði þess fram í framsöguræðu minni. Þó láðist mjer að geta um eina stofnun, þar sem starfsmannahald er alt of mikið. En af því að að því verður vikið einhvern næstu daga, mun jeg ekki fara út í þá sálma hjer.

Hv. flm. kvað ekki mundi vera unnið eins lengi í ýmsum skrifstofum og stofnunum og nefndin gæfi í skyn. Jeg hygg þó, að rjett sje frá sagt um allflestar stofnanirnar, þegar sú stofnun er talin frá, sem við erum sammála um að hafi of marga starfsmenn. Jeg hefi fyrir mjer upplýsingar frá forstöðumönnum þessara stofnana; jeg hefi ekki haft tækifæri til að njósna um starfshætti á þessum skrifstofum, en jeg tel, að fyrirfram beri að treysta forstöðumönnum stofnananna til þess að sjá um, að mennirnir sitji ekki aðeins á skrifstofunum, heldur vinni. Ef ekki má taka trúanleg orð forstöðumannanna, þá er það stjórnarinnar að rannsaka þetta, því að þingmenn hafa ekki tíma til að gera það. Jeg hefi að minsta kosti ekki haft neinn tíma til að vera á hnotskóg um þetta, síðan þing kom saman, og hefi jeg því orðið að byggja á upplýsingum annara. Og til frekari fullvissu þykir mjer rjett, að þessi dagskrá verði samþykt, í þeim tilgangi, að hæstv. stjórn fullvissi sig um, að allir starfshættir sjeu í röð og reglu og starfsmenn sjeu ekki óþarflega margir.

Að frv. hafi meiri áhrif, ef það verður að lögum, heldur en dagskráin, fæ jeg ekki skilið, ef hæstv. stjórn gætir skyldu sinnar. Það má einu gilda, hvort heldur verður samþykt, það skiftir engu fyrir málið.

Þar sem hv. flm. bar brigður á, að upplýsingar nefndarinnar um vinnutímann á opinberum skrifstofum væru rjettar, þá veit jeg ekki, hvaðan hann hefir þær upplýsingar, og get jeg því ekki dæmt um, hve rjettar þær eru. En hann getur ekki ásakað mig, þó að jeg hafi farið eftir umsögn þeirra manna, sem eru þessu kunnugastir.

Hv. þm. mintist á hagstofuna, að þar væri vinnu hætt kl. 1 á laugardögum. En þó að svo stuttan tíma sje unnið þennan eina dag, þá getur verið unnið þar vel og sæmilega alla aðra daga vikunnar. Rit hagstofunnar eru að vísu dýr, en á það verður þá að líta, að sú vinna, sem liggur í þeim, er þess eðlis, að hún hlýtur að vera ákaflega seinleg og dýr. Hvort þessi stofnun geri annars skyldu sína, get jeg ekki dæmt um. En jeg þekki forstöðumanninn nokkuð og veit, að hann er mjög starfsamur og samviskusamur. Vænti jeg þess, að hann sje jafnframt svo skyldurækinn húsbóndi, að hann vinni ekki aðeins sjálfur, heldur sjái um, að starfsmenn hans liggi ekki á liði sínu.

Þá verð jeg að víkja nokkrum orðum að hv. þm. Str. (TrÞ). Það var að heyra á orðum hans sem hann mundi þykjast hafa himin höndum tekið, ef frv. væri samþykt. Það má vera, að honum verði að von sinni. En þá skal jeg hugsa til hans síðar, ef við eigum þá báðir sæti í Alþingi, og minna hann á reynsluna, ef framkvæmdirnar verða svipaðar eins og hingað til. Það má auðvitað reyna að kippa þessu í lag með lögum, en ef einhver árangur verður af því, þá er það blátt áfram af því einu, að betra eftirlit er komið á heldur en hingað til hefir verið.

Þar sem hv. þm. býst við, að skriffinska mundi verða minni, ef frv. yrði samþykt, og kostnaður því minka að sama skapi, þá mun það ekki vera eins sjálfsagt og hann hyggur. Jeg vil í því sambandi leyfa mjer að minna hv. þm. á hans eigin verk á þingi. Það hefir verið samþykt að gera ekkert í vegamálum, nema nauðsynlegasta viðhald. Hver er svo kostnaðurinn við stjórn og undirbúning vegamálanna eftir frv. því, sem hann hefir fjallað um í nefnd og afgreitt til deildarinnar? Hann er rúmar 23 þús. kr., og þó á ekkert að gera. Það er ekki einu sinni skriffinska, sem þetta fje er greitt fyrir, heldur ekki neitt. (ÁF: Það er eintómur undirbúningur). Undirbúningur undir ekki neitt. Svo er greitt fyrir stjórn vitamála 18950 kr. Engan vita á að byggja. Þetta er því aðeins kostnaðurinn við stjórn og undirbúning. Stjórn á hverju, og undirbúning undir hvað? Jeg þykist vita, að hv. þm. muni segja, að ekki sje auðið að kippa í burtu þessum kostnaði vegna gildandi laga, og mun það rjett, en mundi þá ekki mega færa svipaðar ástæður um það málefni, sem liggur nú fyrir.

Hinsvegar er jeg á því, að úr þessum kostnaði megi draga og eigi að draga. Jeg drap á það í upphafi, að þar sem lagabreytinga mundi þurfa til þess, þá óskaði nefndin þess, að hæstv. stjórn undirbyggi það undir næsta þing. Að þetta sje undanhald, eins og hv. þm. Str. (TrÞ) komst að orði, undanhald undan áhrifum hjer í Reykjavík og skriffinskunni, er slegið fram út í bláinn.

Jeg hygg, að hv. þm. Str. hafi haft þá aðstöðu, að hann hefði getað vítt það stranglega, ef óþarft mannahald hefir verið á skrifstofum ríkisins, en það hefir hann ekki gert. Jeg veit til þess, að vínverslunin hafði um 20 starfsmenn, þegar hún var sett á stofn, og nú munu þar vera um 15 fastamenn. (TrÞ: Það var vítt af þm. Str.). Ekki hefir borið ýkjamikið á því í blöðum landsins, að þarna væri óþarft mannahald. (TrÞ: Margvítt!) Veit jeg ekki, hvort þeir, er slá slíku fram um undanhald, muni vera fastari fyrir á svellinu um að draga úr óþörfu mannahaldi heldur en við nefndarmenn.

Að lokum skal jeg geta þess, út af ummælum háttv. samnefndarmanns míns, þm. V.-Sk. (JK), að mjer komu þau mjög á óvart. Það var vitanlega ætlun nefndarinnar, að tillagan tæki til allra stofnana, sem heyra undir stjórnina, en ekki til þeirra einna, sem beint heyra undir stjórnarráðið. Jeg hygg, að flestir nefndarmenn telji, að þetta eigi engu síður við um hinar aðrar stofnanirnar, en hv. deild mun nú bráðlega gefast kostur á að sýna vilja sinn um sparnað í áfengisversluninni.