11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í C-deild Alþingistíðinda. (2340)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Pjetur Ottesen:

Það eru aðeins nokkur orð í tilefni af ummælum hv. 1. þm. G.-K. (ÁF). Hann stóð upp til þess að gerast málsvari vínverslunarinnar, og þá helst aðalskrifstofunnar, og skýrði frá með dæmum, hvað væri sjerstaklega verkefni skrifstofunnar. Hv. þm. bar svo ótt á, honum þótti svo gaman að útmála þessi störf, að jeg náði ekki alveg þræðinum. Kvað hann það verkefni eins mannsins að gæta þess, hve mikið menn drykkju og hvort undirskriftirnar væru egta; jeg hygg, að jeg hafi tekið rjett eftir þessu „egta“. Kvað hann þetta verk ekki ætlandi einum manni, það væri fullkomið 4 manna verk, og mætti því ætla, að svo væri litið á sem þessi maður væri 4 manna maki. Þó sagði hv. þm., að þess væri ekki krafist, að þessi maður nje aðrir þar á skrifstofunni ynni nema 5–6 stundir á dag. Nú er það kunnugt, að sá maður, er hjer um ræðir, fær 600 kr. á mánuði, eða 7200 kr. árskaup fyrir þessa 5–6 stunda vinnu á dag. Auk þess er það mjög dregið í efa, hvort þetta stundahámark er altaf uppfylt. Það er að minsta kosti talið af mörgum kunnugum mönnum, að allmikið hafi brostið á í þessu efni, og þegar talað er um „humbug“ í sambandi við það starf, sem þessi maður á að vinna, þá getur það legið í því, að þetta verk hafi ekki verið unnið, og þannig í framkvæmdinni gert að „humbugi“. Það ætla jeg nú, að sje það rjetta og sanna í málinu. En sje verkið vanrækt, stingur það enn meir í augu, að 7200 kr. skuli vera greiddar fyrir það. Það er og vitanlegt, að þessi maður hefir einnig verið í stjórnarráðinu og hefir þar virðulegan titil og viðbót við hin launin, svo að hann mun ekki hafa minna en 9000 kr. í árslaun. Hjer er verkefni fyrir hina nýju stjórn, að hún rannsaki og athugi alt þetta skrifstofuhald.

Mjer þykir vænt um að heyra frá öllum, sem tekið hafa til máls, að þeir bera óskorað traust til núverandi stjórnar að kippa þessum málum í lag og halda þeim í góðri reglu, og skal jeg síst mótmæla því. Jeg þykist og vita, að hæstv. stjórn muni ekki bregðast vonum og trausti deildarmanna í þessu eða öðru. En þó að jeg taki undir með hv. þdm. og sje þeim fyllilega sammála um það, að núverandi stjórn kippi því ólagi, sem nú kann að vera á skrifstofum ríkisins, til rjetts horfs og haldi þar góðri reglu á, þá tel jeg þó lagastafinn tryggilegri til frambúðar. Því vil jeg samþ. frv., en tel samþykt dagskrárinnar undanhald í þessu efni. Jeg varð hissa, þegar jeg heyrði hv. flm. tala um, að hann mundi ef til vill standa einn í þessu máli. Það er auðvitað þvert ofan í þann anda og stefnu, sem hefir verið ríkjandi í hv. deild nú á þessu þingi, að gæta hins mesta sparnaðar á öllum sviðum. Væri því nær að ætla, að þeir, er bera dagskrána fram, mundu standa einir, en allir aðrir á móti.