11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í C-deild Alþingistíðinda. (2343)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Klemens Jónsson:

Þó að umræðurnar sjeu orðnar æði langar, miklu lengri en búist var við, hefir mjer fundist ýmis þau orð falla, sem gefa mjer fult tilefni að taka til máls. Jeg skal þá fyrst geta þess, að jeg mun fylgja frv., en þó ekki óbreyttu. Verði það samþykt nú, mun jeg flytja brtt. við 3. umr., þess efnis, að vinnutíminn skuli vera 7 stundir, en 8 stundir finst mjer of langt. Að jeg kýs fremur að fylgja frv. en dagskránni, stafar af því, að jeg hygg, að stjórnin geti beitt sjer betur, ef hún hefir lög um þetta. Það er ekkert áhlaupaverk fyrir hæstv. stjórn að kippa öllu þessu í lag, fækka mönnum og reka frá störfum sínum, og mun henni veitast erfiðara að gera það, ef hún hefir ekki lagaheimild.

Það hefir nokkuð verið minst á stjórnarráðið. Af því að jeg þykist vera þar eins kunnugur og hver annar, þá skal jeg geta þess, að það er ekki rjett, sem haldið hefir verið fram, að ekki sje unnið þar nema 5 stundir. Það er þvert á móti unnið oft og tíðum seinni hluta dags, að minsta kosti 1–2 tíma, einkum á dómsmála- og atvinnumálaskrifstofunum. Á fjármálaskrifstofunni er minna um eftirvinnu, enda er starfið þar að mestu leyti endurskoðun, sem liggur ekki sjerstaklega á. En á hinum skrifstofunum verður oft að afgreiða mál í skyndingu, sem tími hefir ekki unnist til að skera úr á skrifstofutímanum, og verða því skrifstofustjórarnir og starfsmennirnir að vinna eftir skrifstofutíma að þeim. Það kemur og fyrir, eða hefir þó komið fyrir, að starfsmenn verða að taka heim með sjer verkefni, sem þarf skjótrar úrlausnar. Það er því ekki rjett, að vinnutíminn sje eins stuttur og sagt hefir verið. Heldur ekki verður það með sanni sagt, að of mikið mannahald sje í stjórnarráðinu að öllu verulegu athuguðu, því það hefir raunar ekki verið aukið mikið við mönnum á skrifstofurnar síðan þær voru settar á stofn. Helst er það á fjármálaskrifstofunni, en þar hafa skrifstofustörfin aukist stórlega síðustu árin, vörutollsendurskoðun bæst við, auk sívaxandi síma- og póstreikninga.

Það má annars að ýmsu leyti benda á það, að sparnaðar hefir verið gætt í rekstri þessarar stofnunar. Ef skrifstofustjóri hefir verið veikur, þá hafa hinir skrifstofumennirnir bætt störfum hans á sig. Man jeg, að eitt sinn var einn skrifstofustjórinn veikur í næstum því eitt ár, og var þó ekki bætt við manni á skrifstofuna. Þá mun hv. dm. kunnugt um, að í fyrra var einn skrifstofustjórinn settur bankastjóri í Íslandsbanka og hefir verið þar til þessa, og hefir fulltrúinn á þeirri skrifstofu gegnt störfum hans þann tíma. Verð jeg yfirleitt að halda því fram, að ýms ummæli, sem hjer hafa fallið um stjórnarráðið, hafi við mjög lítil rök og enn minni þekkingu að styðjast.

Að því er snertir deilu hæstv. forsrh. (JM) og hv. þm. Str. (TrÞ) um það, hvenær upp hafi verið teknar aukaborganir, þá skal jeg taka það fram, að þegar jeg var landritari, þá hafði jeg á hendi alla þá sjóði, sem stiftsyfirvöldin og landshöfðingi höfðu haft áður, og gætti jeg þeirra í 13 ár með öllu borgunarlaust. — Er nú þessum störfum skift milli tveggja skrifstofustjóra í stjórnarráðinu og fá borgun fyrir þessa starfa. Hitt er annað mál, að stjórnin verður oft að leita aðstoðar utan stjórnarráðsins til sjerstakra starfa, aðstoðar við lagasamningu o. s. frv., og auðvitað verður að borga það starf.

Þá vildi jeg víkja nokkrum orðum að áfengisversluninni, þótt hún hafi ekki heyrt undir mig, þar sem sá maður, sem þar á hlut að máli, á ekki sæti í þessari deild. Það hefir verið talað mikið um hið mikla mannahald, sem væri við þá verslun. Þetta var gert þegar í byrjun, enda kvaddi þáverandi stjórn forstöðumann verslunarinnar þegar á sinn fund, og að athuguðu máli skipaði hún honum að segja upp fjórum af starfsmönnunum. Lengra treysti stjórnin sjer ekki til að fara, enda myndi það vart hafa verið forsvaranlegt. Annars liggur nú listi yfir þessa starfsmenn fyrir þinginu, og geta hv. þm. sjálfir lesið hann til þess að komast að niðurstöðu í málinu. Er jeg þess fullviss, að þeir munu vera mjer samdóma um það, að ekki sje unt að fækka þar meira, nema þá um einn mann, en til þess þyrfti fyrst að breyta reglugerðinni.

Að því er snertir landsverslunina, þá heyrði hún undir mig. Og jeg átti oftar en einu sinni tal um það við forstjóra hennar, að mjer þætti laun starfsmannanna of há. Hann gat samt ekki sannfærst um, að það væri rjett, og bar það fyrir, að þar myndi yfirleitt vera lengri vinnutími en á öðrum skrifstofum. Kvað hann algenga vinnutímann vera 7–8 tíma, og stundum kæmist hann jafnvel upp í 10–12 tíma; auk þess væru launin ekki sambærileg við aðrar stofnanir ríkisins. Stjórninni þótti því ekki rjett að fara lengra út í þetta, enda mun svo fara, að ef vinnutíminn á öðrum skrifstofum ríkisins verður lengdur og borgun aukavinnu afnumin, þá verði laun starfsmanna líka jafnframt hækkuð.

Að lokum vil jeg taka það fram, að jeg tel það hyggilegra, að öllu athuguðu, að samþ. frv. en ekki rökstuddu dagskrána. Lít jeg svo á, að þá sje nær því takmarki, sem þorri hv. þm. óskar að ná í þessu efni.