11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í C-deild Alþingistíðinda. (2347)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Jón Kjartansson:

Jeg er flm. að öðru máli, sem snertir laun starfsmanna í áfengisversluninni og landsversluninni, og vildi því taka það fram, að jeg hefi óbundnar hendur í því máli, þótt þessi dagskrá verði samþ.

Mjer finst það annars ekkert óeðlilegt, þótt ýmsir hv. þm. hrópi hátt um skriffinskuna hjer í Reykjavík, því á þann hátt hefir einmitt verið ritað af þeim, sem ætla skyldi, að hefði manna best vit á því máli. Jeg hefi hjer fyrir framan mig ritgerð, sem hv. 2. þm. Rang. (KlÞ) hefir skrifað um þetta máí. Vildi jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp nokkrar setningar. Þar segir:

„Æðsta stjórn landsins kostaði 1915 58 þús. kr., nú 201 þús. kr., þar mætti líka spara mannahald.“

En nú stendur hv. þm. (KlÞ) upp og fullyrðir, að ekki sje hægt að fækka mönnum í stjórnarráðinu. Veit jeg ekki, hverjum jeg á hjer frekar að trúa, höfundi greinarinnar, sem jeg vitnaði í, eða hv. 2. þm. Rang. (KlJ). Þó má vera, að minna sje að marka greinina, þar eð hún var skrifuð handa kjósendum út um land til lestrar, en hin skoðunin er fram borin af manni, sem hefir nú ábyrgð þingmenskunnar á herðum sjer. Í fyrnefndri grein stendur hjer enn, með leyfi hæstv. forseta:

„Dómgæslan hefir vaxið úr 87 þús. kr. upp í liðuga hálfa miljón (506 þús. kr.). Það er skifting bæjarfógetaembættisins í Reykjavík, sem þar ræður mestu um. Það er alveg ótrúlegt mannahald, sem þessi embætti þurfa. Það er því ekki eins mikil fjarstæða og sýnast kann í fyrstu, sem einn fyndinn náungi sagði við mig um daginn, að nú hefðu 60 menn það starf á hendi í Reykjavík, sem 6 menn hefðu unnið fyrir 10–12 árum.“

Nú hefir greinarhöfundur verið ráðherra undanfarin ár, og hefir hann þó þolað þetta og ekki hafst að. Hann hefir ekki hreyft við þessum „sextíu“ mönnum; af þeim hefir hann þó álitið, að 54 væru óþarfir. Til þess að háttv. dm. sjái enn betur, hvernig moldin getur stundum rokið upp í slíkum málum, þá vil jeg enn, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp ummæli sama greinarhöfundar í öðru máli. Þau hljóða svo:

„Þá var borgað fyrir prentun þingtíðindanna árið 1920, 96 þús. kr., þriðjungi hærra en Ölfusárbrúin kostaði á sínum tíma, og talsvert meira en Þjórsárbrúin kostaði. Og það væri þó sök sjer, ef Alþingistíðindin væru sannur spegill af þinginu, en því fer fjarri, að svo sje, því þingmenn breyta ræðum sínum alveg eftir geðþótta eftir á. Og hve margir lesa svo þessa dýru bók?“

Nú hefir nýlega komið fram frv. um að fresta prentun Alþingistíðindanna, en það var umræðulaust drepið af hv. 2. þm. Rang. (KlJ) og flokksmönnum hans. Sjest best af þessu, hver alvara fylgir þessum háu hrópum til kjósendanna. Það er undarlegt, að hv. þm. Str. (TrÞ) skuli tala svo fullum hálsi um skriffinsku, þar sem henni hefir aldrei vegnað betur en undir stjórn hans eigin ráðherra. Annars veit jeg, að hv. 2. þm. Rang. hefir ekki verið full alvara, er hann skrifaði þá grein, sem jeg hefi vitnað í, enda vona jeg, að hv. þm. (KlJ) finni meir til ábyrgðar sinnar nú en hann gerði þá.

Eina lausnin á þessu máli er að vísa því til stjórnarinnar, því þær breytingar, sem hjer er um að ræða, er ekki hægt að gera nema með því að breyta um leið launalögunum. Býst jeg við, að við, stuðningsmenn hæstv. stjórnar, treystum henni til þess að taka öll þessi launamál til alvarlegrar athugunar.