11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í C-deild Alþingistíðinda. (2348)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Þórarinn Jónsson:

Hv. 2. þm. Árn. (JörB) sagði, að sama væri sjer, hvort samþykt yrði, frv. eða dagskráin. Það er nú svo. En annars er þessi hv. þm. að hóta því, ef frv. yrði samþ., þá skyldi hann minna mig á árangurinn síðar. Mjer þykir þetta hálfkynlegt hjá háttv. þm. (JörB), og kem því illa saman.

Hvað snertir ummæli hv. 2. þm. Rang. (KlJ) um það, að tíminn sje of hátt ákveðinn í frv., þá hefi jeg margtekið það fram, að því má breyta, ef nauðsynlegt þykir. Annars er það hreinn misskilningur, að jeg sje með þessu frv. að færa niður launin á skrifstofunum. Tilgangur frv. er sá, að færa saman vinnuna, gera hana hagkvæmari og lengri, svo mennirnir geti tekið sín laun í einu lagi. Og eins og jeg áður tók fram, þá má hæglega gera þetta án þess að breyta launalögunum. En hvenær sem þetta verður gert, og jafnvel hvernig sem það verður gert, er jeg sannfærður um, að það verður til mikils sparnaðar.

Hvað það snertir, sem háttv. 2. þm. Rang. sagði, að menn hefðu farið úr stjórnarráðinu, án þess aðrir hefðu verið teknir í staðinn, þá sannar það einmitt til fulls mitt mál, að þar hafi verið ofaukið starfsmönnum.

Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði, að þetta frv. væri vantraust á hæstv. stjórn. En það er síður en svo. Aftur get jeg trúað því, að dagskráin sje fram borin í þeim tilgangi að geta síðar fengið höggfæri á stjórninni. En eins og jeg hefi flutt þetta mál, þá er það hvorki vantraust á fyrverandi og því síður núverandi stjórn, sem jeg styð.

Þá sagði sami hv. þm. (JakM), að þetta frv. mundi leiða til þess, að ekki fengist nema úrkast af mönnum til þess að vinna á stjórnarskrifstofunum. Jeg hygg, að þessu fari fjarri, því vinnutíminn á einkaskrifstofum mun hvergi minni en 7–8 tímar og sumstaðar lengri, og jeg býst ekki við, að fram úr því verði farið. Hitt er annað mál, að launin eru ef til vill ekki í öllum tilfellum eins há og einstakir menn geta boðið. Slíkt getur einlægt komið fyrir. En jeg hefi hvergi haldið því fram, að launin ættu að lækka, heldur vil jeg hafa launin forsvaranleg og verkið fullkomið, sem afkastað er fyrir launin.