11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í C-deild Alþingistíðinda. (2349)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Klemens Jónsson:

Hæstv. forsrh. (JM) játaði það, að það væri rjett, að landritari hefði áður haft ýmsa sjóði til umsjónar án sjerstaks endurgjalds, sem nú væri greidd sjerstök þóknun fyrir. En hann tók það jafnframt fram, að þessir sjóðir hefðu vaxið síðan, og reikningshaldið því miklu erfiðara. Jeg held nú, að þessir sjóðir, svo sem Jóns Sigurðssonar sjóður, Hannesar Árnasonar og Herdísar sjóður o. fl. sjóðir, sem ekki vaxa nema sem svarar rentunum árlega, eins og altaf að undanförnu, geti ekki hafa stækkað svo, að það hafi gefið tilefni til þess, að nú er borgað sjerstaklega fyrir umsjón þeirra, og það fulteins mikið og aukalaun þess manns nema, er hæstv. forsrh. mintist á, og jeg hafði veitt. Hann vinnur vissulega fyrir þeim.

En hæstv. forsrh. nefndi líka kirkjujarðasjóð. Það er rjett, að hann hefir vaxið mikið. En sá sjóður heyrði aldrei undir mig, heldur skrifstofusjórann á 1. skrifstofu, og hafði hann frá upphafi einhverja sjerstaka þóknun fyrir. Ræktunarsjóður lá aftur undir atvinnumálaskrifstofustjórann, og hafði hann líka þóknun fyrir. Jeg sje heldur ekkert athugavert við það, þó greitt væri aukalega fyrir þessa sjóði, því við þá er mikið verk. En hinir sjóðirnir eru allir svo litlir, að ekki er mikið verk að stjórna þeim.

Hæstv. forsrh. (JM) vildi bera sannleikanum vitni um það, að einn maður í stjórnarráðinu hefði fengið launaviðbót nýlega, sem valdið hefði talsverðri óánægju. Jeg skal nú kannast við það, að hafa veitt einum manni launaviðbót, eða sjerstök laun. Þetta er mjög duglegur og fær maður, sem ráðinn var í fyrri stjórnartíð hæstv. forsrh. (JM), og tel jeg, að það hafi verið mjög heppilegt. En nú kom þessi maður til mín og kvaðst ekki geta haldið áfram sínu starfi í stjórnarráðinu nema hann fengi launaviðbót. Þessi maður er sjerstaklega fær í útlendum málum, einkum ensku, og var honum því veitt uppbótin, og það sjerstaklega tilskilið, að hann skuli annast allar þýðingar af og á ensku ókeypis, en eigi löggiltur túlkur að annast slíkt, er það mjög dýrt. Jeg veit ekki til þess, að sú ráðstöfun hafi vakið óánægju nema hjá einum manni, sem líka var sæmilega að sjer í útlendum málum.

Þá sneri hv. þm. V.-Sk. (JK) sjer til mín og las upp kafla úr ræðu eftir mig. Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem jeg hefi þá ánægju að heyra kafla úr þessari ágætu ræðu hjer á þingi. Það hefir mjer veist tvisvar áður, og það gladdi mig að heyra hv. þm. V.-Sk. lesa nú upp í þriðja sinn úr henni. Jeg vona, að hann geri það oftar, því hann hefir vissulega gott af því að kynna sjer hana nákvæmlega. Þessi hv. þm. (JK) sagði, að það væri sitthvað að tala við kjósendur og tala á Alþingi. Já, það sannast á honum og fleirum, en ekki á mjer, í þetta sinn að minsta kosti, því á þeim tíma, sem jeg flutti þessa ræðu, datt mjer ekki í hug að bjóða mig fram til þings, enda þá engar kosningar í nánd. Jeg var því ekki að tala fyrir neinum kjósendum, heldur sagði jeg á fjölmennum fundi skoðun mína afdráttarlaust. Hún var haldin til að hvetja til sparnaðar og var því með „agitations“-blæ. Jeg taldi í ræðunni, að spara mætti mannahald í stjórnarráðinu, og jeg hefi líka sýnt það í verki, að þetta er rjett, svo hjer er ekki um neina mótsögn að ræða. Þannig var skrifstofustjóri burtu fult ár, og gegndi fulltrúi störfum hans, án þess að bætt væri við manni, nema aukaskrifara, og það með köflum aðeins, í viðlögum. Jeg lít líka svo á, að fækka mætti um mann á 1. og 2. skrifstofu. Að jeg hafi liðið það sem ráðherra, að lögreglustjóri og bæjarfógeti hefðu svo og svo mikið af starfsmönnum, er alveg tilhæfulaust. Til þess hafði jeg engan myndugleik. Sá hv. þm. (JK) veit líklega ekki, að hver ráðherra hefir sinn verkahring, og blanda sjer ógjarnan hver í annars málefni. (HK: Ekki er nú samvinnan góð!) Ójú, hún getur verið það fyrir því, og var það. — Annars gekk ræða mín eindregið í sparnaðaráttina. Og jeg held, að jeg hafi sýnt það á þessu þingi, að jeg er enn sömu meiningar. Jeg hygg, að það sjeu velflest sparnaðarmál á þessu þingi, sem jeg hefi fylgt. Það kann að vera, að jeg hafi ekki fylgt hverju einasta slíku máli, en vissulega hefi jeg hjer gengið miklu lengra en hv. þm. V.-Sk. (JK), þó hann telji sig til Íhaldsflokksins. Það er þó reyndar ekki fyllilega að marka, með því að honum virðist ekki ætíð fullkomlega ljóst, hvernig hann á að greiða atkvæði. Þannig greiddi hann atkvæði bæði með og móti einu og sama máli nýlega.

Jeg játa, að það er fallegt hjá hv. þm. V.-Sk., þar sem hann hjelt því fram, að menn ættu að bera jafna ábyrgð á orðum sínum hjer í þingi og annarsstaðar. Jeg vona því, að hann fylgi þessum orðum sínum um ábyrgðina sem þingmaður og blaðstjóri. En sýnilega er það í byrjun fyrir honum enn, og skamt á veg komið. Það er auðsjeð á hinni stuttu blaðastjórn hans.