14.04.1924
Neðri deild: 50. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í C-deild Alþingistíðinda. (2356)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Magnús Jónsson:

Jeg er alveg sammála hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) um það, að í raun og veru hafi nú flm. náð tilgangi sínum með flutningi frv. En jeg tel afar óheppilegt að ákveða þennan fasta vinnutíma, hvort sem hann er 7 eða 8 stundir daglega. Störfum á ýmsum ríkisskrifstofum, t. d. pósthúsinu, er þannig háttað, að stundum berast störfin svo ótt að, að vinnutíminn verður að vera lengri en hægt er að ætlast til að menn hafi dag eftir dag og viku eftir viku. Aðra stundina er aftur á móti minna að gera. Væri nú ákveðinn viss tími daglega, mundu starfsmennirnir þegar í stað segja: Við eigum ekki að vinna nema okkar vissa tíma og gerum það ekki. Væri þá hætt við, að alt lenti í stífni, þar sem áður var gott samkomulag. Í svona málum þarf staka lempni, og ekki þarf að búast við, að stjórnin geti haft eftirlit með daglegri vinnu á skrifstofum ríkisins. Sjeu skrifstofustjórarnir ekki færir um það, getur stjórnin ekkert þar við ráðið.

Mjer er þetta ekkert persónulegt áhugamál. En jeg vildi óska þess, að þetta frv. verði felt, þar sem jeg veit, að það verður frekar til tjóns og óþæginda en til gagns.