14.04.1924
Neðri deild: 50. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í C-deild Alþingistíðinda. (2361)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Björn Líndal:

Jeg ætla í fáum orðum að gera grein fyrir því, hversvegna jeg er á móti þessu frv. Það er þá fyrst, að jeg álít, að það, sem frv. fjallar um, eigi að vera frjálst samningsatriði milli hlutaðeigenda, og í öðru lagi á jeg erfitt með að skilja, við hvað er átt með frv. í heild. Er það tilgangur frv., að opinberar skrifstofur skuli vera opnar til afgreiðslu í átta tíma á dag, eða vill flm. aðeins tryggja það, að þar sje unnið í 8 klukkutíma? Alt þetta er óljóst í þessu frv. En ef það á sjerstaklega að skilja svo, að enginn megi vinna þar skemur en 8 klst. á dag, er jeg á móti frv., einnig af þeirri ástæðu. Jeg álít það nauðsynlegt, að ungir lögfræðingar fái tækifæri til að afla sjer þar undirbúnings og æfingar í ýmsum „praktiskum“ viðfangsefnum, áður en þeir takast önnur embættisstörf á hendur, og þeir geta óvíða fengið betri æfingu undir umboðsstörf sín en á stjórnarskrifstofum, þar sem vel er unnið og góð regla er á öllu. (HK: Jú, þeir hafa líka verið svo framúrskarandi vel að sjer, sem þaðan hafa komið!) En jeg vil benda á, að þetta hefir mörgum ungum lögfræðingi að góðu haldi komið, þó ekki hafi þeir unnið þar nema fáar stundir á dag. En kaup það, er þeir fá, er mjög lágt, og ef á að binda þá 7–8 stundir á dag, er tekið frá þeim tækifærið til að afla sjer nægilegrar tekna, svo þeir geti komist af. Það er oft allerfitt fyrir unga lögfræðinga að takast á hendur flókin viðfangsefni strax eftir að þeir eru komnir frá prófborðinu, þótt þeir kunni sín „theoretisku“ fræði, en „praktiska“ æfingu fá þeir, eins og jeg tók fram, óvíða betri en í stjórnarráðsskrifstofum, sem vel er stjórnað.