14.04.1924
Neðri deild: 50. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í C-deild Alþingistíðinda. (2363)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Þórarinn Jónsson:

Háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) var að bera eitthvað af sjer og burðaðist við að unga út nýju eggi, sem hann var að verja fyrir sjálfum sjer. Helst skildist mjer, að hann vildi losna við að hafa sagt eitthvað, sem hann hefir sagt. Hann hefir nú endurtekið þá staðhæfingu sína, að stjórnin geti ekkert gert í þessu máli, og hefir með því sýnt, að dagskrá allshn. hafði enga þýðingu; en hann hefir ávalt verið móti þessu frv., og hefði því átt að meðganga það strax og reyna að fella frv. þegar í upphafi. Hann fór að draga pósthúsið inn í þetta mál, en það er öllum vitanlegt, að þar er ávalt unnið miklu lengur en annarsstaðar, líklega að jafnaði meir en 8 st. daglega, en þó eru launin ekki meiri þar en á öðrum stöðum, nema síður sje.

Þá kvartaði hv. þm. Ak. (BL) yfir því, að honum hefði ekki skilist, hvort skrifstofur ríkisins ættu að vera opnar í 8 stundir á dag til afgreiðslu, eða ekki. Um það er ekkert tekið fram í frv., enda þarf þess ekki, því það má vinna þar, þó að þær sjeu ekki opnar, og hlýtur stjórnin ávalt að ráða öllu þar um, eftir því sem hentast þykir. Hann ruglar og saman föstum mönnum með fastákveðnum launum og lausamönnum, sem aðeins fá þar aðgang stuttan tíma. (BL: Hvernig sjest þetta á frv.?) Frv. á aðeins við fasta menn, og sjest það glögt á tímalengdinni, og mátti hv. þm. Ak. vel finna það út, að manni, sem ekki þyrfti að halda á nema 2 stundir, væri óþarft að ákveða 8 stunda vinnu! Og það er alveg áreiðanlegt, að þessir ungu lögfræðingar, sem hann ber svo mjög fyrir brjósti, geta komist þar að samt til ígripa. Það, sem fyrir mjer vakti með þessu frv., var að koma á samræmi í vinnutíma á ákveðnum skrifstofum.