10.03.1924
Neðri deild: 19. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í C-deild Alþingistíðinda. (2380)

68. mál, aðflutningsbann á ýmsum vörum

Jakob Möller: Það mætti halda, eftir umræðunum um þetta mál að dæma, að talsverð breyting hefði orðið á þinginu frá því 1921, enda hafa kosningar farið fram síðan. Það er nefnilega ekkert efamál, að þingið 1921 var mótfallið innflutningshöftum. Það var að vísu gert fyrir þáv. stjórn að lofa lögunum frá 1920 að vera í gildi, en aðeins í því skyni að gera henni ljúfara að hverfa frá innflutningshöftum. Og hvernig sú stjórn leit á þau lög, má ljósast sjá af því, hvernig hún framkvæmdi þau. Hún gaf raunar út reglugerð um innflutningshömlur á nokkrum vörutegundum, sem álitið var, að alveg mætti banna innflutning á, en hún framkvæmdi þessa reglugerð svo, að innflutningurinn mun hafa verið svipaður eftir sem áður. Þetta var eðlileg afleiðing af því, hvernig álit menn höfðu á innflutningshöftunum þá á Alþingi. Kom það og skýrt fram í því, hvernig fór um frv. frá mjer, um að fella lögin frá 8. mars 1920 úr gildi. Jeg hafði þá ekki upphaflega ætlað mjer að gera það að ágreiningsatriði, hvort lög þau yrðu áfram í gildi eða ekki, en orð þáverandi atvrh. gáfu mjer átyllu til að halda, að stjórnin myndi teygja orð þeirra, svo að þau næðu lengra en ætlast var til, og vildi jeg með frv. um að fella þau úr gildi koma í veg fyrir, að innflutningshöft yrðu ef til vill látin ná til nauðsynjavara. Þetta frv. var samþ. við 1. umr. með 14:12 atkv. Þar með hafði hæstv. stjórn fengið yfirlýstan vilja þingsins um það, að ekki væri ætlunin, að orðalag laganna næði til fleiri vörutegunda en þeirra, sem beinum orðum voru heimiluð innflutningshöft á. Enda varð sú raunin á, að stjórnin teygði það orðalag ekki lengra. Síðan hefir innflutningshöftunum stórum aukist fylgi, en jeg hefi ekki breytt um mína skoðun á þeim. Mjer hefir jafnan skilist svo, að þegar um þessi mál sje rætt, þá fari menn utan við þær aðalorsakir, sem til þess liggja, að fyrir meira verðmæti er flutt inn í landið en út. Það er eins og flestir haldi, að kaupmennirnir sjálfir ráði þessu, og því sje eina örugga ráðið að grípa fram fyrir hendurnar á þeim. En í raun rjettri er það landslýðurinn sjálfur, sem ræður þessu. Undirrótin er þá það, að kaupgeta einstaklingsins er hlutfallslega meiri en kaupgeta þjóðarbúsins í heild. En því verður ekki ráðin bót á með innflutningshöftum. Hið óheppilega hlutfall breytist ekki við það, og er auðvelt að skýra þetta. Mismunurinn stafar af því, að verð á útfluttri vöru lækkar meira en verð á innfluttri vöru, en launakröfur og kaupþörf fer auðvitað aðallega eftir verðlagi innfluttra nauðsynja. Menn hafa líka vaðið reyk í því, hvað mikill sje munurinn á aðfluttri og útfluttri vöru. Skýrslur um þau efni koma seint og gefa heldur ekki nema óljósa hugmynd um það.

Það er sem sje altaf svo, að því er jeg veit best, að í þeim löndum, þar sem er einhver framfaraviðleitni og ráðist í stór atvinnufyrirtæki, þá er innflutningur altaf meiri en útflutningur. En það stafar af því, að mikið af framleiðslutækjum hefir verið keypt, sumt með útlendu lánsfje, sumt útborgað með innlendu fje út úr landinu. Jeg sje nú ekkert óheilbrigt í því, þó slík tæki sjeu keypt, enda þó verslunarskýrslurnar sýni halla fyrir bragðið. En þær leiðir, sem stungið hefir verið upp á að fara í þessu efni, byggjast á því, að þessi halli sje altaf óheilbrigður. Það er vitanlegt, að framleiðslan hefir aukist stórkostlega hin síðari ár, þótt verðið hafi fallið á erlendum markaði. Og í trausti þess, að verslunarhallinn sje ekki óheilbrigður, þá hefir verið stungið upp á því að stöðva gengi íslensku krónunnar með lántöku erlendis, sem flm. (HStef) taldi ranga leið. Hann sagðist ekki sjá, að það bætti úr, að auka skuld á skuldir; en það er algerður misskilningur; þetta er ekki til þess að auka skuldirnar, heldur til þess að festa skuldir, sem þarf að borga undir eins, og fá þannig frest. Það er misskilningur, að enska lánið hafi orðið til þess að fella gengi krónunnar. Einmitt upp úr því fóru bankarnir að yfirfæra peninga, og náðu þannig gjaldeyrisversluninni í sínar hendur. Að gengið fór að lækka aftur síðar, var alls ekki enska láninu að kenna, nema þá að því leyti, að það hafi verið of lítið. Því til staðfestingar, að það sje ekki svo fráleitt að taka lán til þess að stöðva gengi, þá skal jeg geta þess, að hingað er alveg nýkomið símskeyti um það, að Svíar sjeu að taka 20 milljón dollara lán í Ameríku til þess að stöðva gengi sinnar krónu. Nú er það alviðurkent, að Svíar sjeu ágætir fjármálamenn, enda hefir þeirra króna einlægt staðið í fullu gildi. En þetta bendir til þess, ef fregnin er rjett, að þeim sýnist lántaka alls ekki eins fráleitt úrræði og margir vilja telja.

Nú ef eyðsla eins lands er meiri en svari því, sem út er flutt, þá horfir það vitanlega til ills, ef lengi er haldið áfram á þeirri braut. En menn verða að athuga, þó það komi fyrir eitt til tvö ár, hvaða ástæður valdi í hvert skifti. Nú er öllum vitanlegt, að undanfarin ár hefir verð íslenskra afurða verið langt fyrir neðan það, sem vera ætti, samanborið við annað verðlag. Þannig hefir fiskur verið neðan við það verðlag, sem var fyrir stríð, en erlend vara hinsvegar langt þar fyrir ofan. Hinsvegar er verðlag útflutningsvara talsvert hærra nú, og því full ástæða til að vona, að þetta fari að lagast. Horfurnar eru nú þannig, að maður hefir leyfi til að byggja á þeirri von. Það er því varhugavert að grípa til örþrifaráða í þeim tilgangi að bæta verslunarjöfnuðinn. En það kalla jeg örþrifaráð, ef þannig á að taka fram fyrir hendur manna í viðskiftalífinu og trufla eðlilega lifnaðarhætti manna, svo sem frv. þetta bendir til. Það finst mjer vel megi kalla örþrifaráð. Auk þess mundi það gera truflun í atvinnurekstri manna, gera nokkra atvinnulausa og auka margvísleg vandræði. Menn verða að gæta þess, hver áhrif slík ráðstöfun hefir. Og auk þess er svo engin trygging fyrir því, að tilgangurinn náist, sem sje: að minka eyðsluna í landinu. Þó menn geti ekki eytt þessu, þá eyða menn hinu. Nú er því svo varið um allan almenning, að hann hefir ekki meira fje en svo, að hann verður að neita sjer um fjölda margt, og þó kaupir hann eitthvað af þeim vörum, sem hjer á að banna. Þó það tækist nú að hefta þennan innflutning, þá mundi það fje, sem annars fer fyrir þær vörur, alls ekki ganga í sparisjóð eða fyrirtæki, heldur til annarar eyðslu, fyrir aðrar erlendar vörur, þó þessar sjeu heftar. Hjer er ekki bannaður innflutningur á vínföngum, en aftur á ávöxtum. Ætli menn bættu sjer ekki upp ávextina með víninu? Í öðru lagi er fólki varnað að fá sjer ýmislegan fatnað. Aftur er mönnum ekki meinað að ferðast til útlanda. Mætti þá svo fara, að meiru yrði eytt til siglinga. Flm. tók það rjettilega fram, að það væri ekki lítið fje, sem gengi í ferðalög til annara landa. En ef mönnum er gert erfitt fyrir að nálgast þá hluti, sem þeir vilja eiga, og svo gott sem vísað til annara landa til þess að nálgast þá þannig, þá er hætt við að ekki minki kostnaðurinn af siglingum landsmanna. Það eru margir vegir til þess að peningar geti gengið til útlanda, þó ein leið sje hindruð. Jeg skal nefna einn enn. Það eru „spekulationir“. Jeg kom um daginn hjer á pósthúsið, og sá í kvittanabókinni, að kvittað hafði verið fyrir sendingar frá Stokkhólmi í óvenju stórum mæli, á mörgum síðum. Hvað var nú þetta? Jú, þetta var „lotterí“. Það fer sem sje töluvert fje fyrir erlendan gjaldeyri á þennan hátt, og mun örðugt að koma í veg fyrir það, enda er hjer engin trygging sett fyrir því, að menn leggi ekki stund á slíkar „spekulationir“, ef þeim leyfist fje til þess frá annari eyðslu. Það er kunnugt, að á krepputímum einmitt hneigjast menn mjög til „spekulationa“, í von um skjótan, auðtekinn gróða. Min niðurstaða er því sú, að ef farin er þessi leið, að banna innflutning, þá leiðir það til þess, í fyrsta lagi, að verð á þeim vörum, sem bannaðar eru, hækka, meðan birgðir endast — og þær munu endast lengur en eðlilegt er. Afleiðingin yrði ekki önnur en aukin dýrtíð á þessu sviði. En hefði þann ókost, að ríkissjóður fengi ekkert af því fje. Ef menn vilja ekki horfa í það að auka dýrtíð, þá er nær að leggja á háa tolla til þess að minka eyðslu. Á þann hátt mætti, eins og hæstv. fjrh. (KlJ) benti á, komast langt að sama marki. Jeg vil því, sem fyr, ráða frá því, að þessi braut sje farin. Að vísu tel jeg lítilsvert, hvort bann er lagt á einstaka óþarfavöru, sem stjórnin hefir heimild til að banna með reglugerð samkv. lögunum frá 1920. Það breytir lítið þjóðarbúskapnum, enda engin trygging fyrir því, að ekki yrði öðru eytt í þeirra stað. En að fara inn á þá braut, að banna innflutning á nauðsynlegum vörum, það tel jeg hættulegt. En hitt, sem rætt var um í sambandi við það, hversu hækka skyldi gengið, þá má vitanlega eins ná þeim tilgangi — verslunarjöfnuði — með því að hækka tolla á þessum vörum og draga úr innflutningi á þann hátt, en bæta um leið hag ríkissjóðs, svo illur hagur hans þurfi ekki að fella krónuna.

Annars er það vitanlegt, hvað snertir gengið, hvort það fellur eða ekki, að þar koma margvíslegar ástæður til greina. Þannig leiðir gengislækkunina síðustu eingöngu af því, að bankarnir treystust ekki til að halda krónunni uppi, þegar danska krónan fjell. Þetta er óvefengt. Hið sama hefir átt sjer stað með norsku krónuna. Hún hefir sætt sömu forlögum. Að vísu eru þar ekki nákvæmlega sömu ástæður fyrir hendi, en þó líkar. Eins og öllum er kunnugt, höfum við lengstum átt mest okkar viðskifti við Dani, og þó nú sje nokkur breyting á þessu orðin, þá eigum við enn mest alt okkar lánstraust í Danmörku, og viðskiftaskuldir að mestu. Það er því eðlilegt, þegar minkar munur danskrar og íslenskrar krónu, þá er tækifæri til þess að borga þessar skuldir. En það eykur kaup á útlendum gjaldmiðli, sem hefir aftur lækkandi áhrif á ísl. krónu. Viðskiftasamband landanna hefir þannig áhrif á gengið, og meðan sakir standa eins og nú, þá er það hrein fjarstæða að ætla að miða gengi ísl. krónunnar við sterlingspund, þar sem það er vitanlegt, að allar skuldir landsins standa í dönskum krónum, en ekkert lánstraust til í sterlingspundi. Til þess að breyting verði á þessu, verður að afla landinu lánstrausts í Englandi, til þess að að geta borgað þessar skuldir í Danmörku, hvenær sem væri, þessar skuldir, sem nú valda verðfalli krónunnar. Hjer kemur líka til greina, að hingað til hefir verið miklu meiri trú á því hjer á landi, að danska krónan rjetti fyr við en hin íslenska, en þetta veldur því, að hún hlýtur að falla meira. Því meðal margs, sem veldur gengisbreytingum, er trú, mismunandi traust á gjaldeyri landanna. Viðvíkjandi sænsku krónunni, þá er sýnilegt, ef skeyti það er rjett, sem jeg gat um áðan, að eitthvað hefir komið fyrir, sem hefir gert það að verkum, að sænskir fjármálamenn hafa orðið hræddir um að gengið mundi raskast og vilja koma í veg fyrir það. En það skal játað, að þeir standa miklu betur að vígi en flestir aðrir, vegna þess, að trúin á stöðugleik sænsku krónunnar hefir verið óbifanleg, og því lítið að óttast. (MT: Hún getur fallið áður en varir.) Hún getur fallið, segir hv. þm. (MT), og er því ekki að neita, að heyrst hafa raddir í þá átt fyr.

Þetta hafa verið lauslegir skraddaraþankar mínir um gengismálið. Jeg er ekki undir það búinn að ræða það ítarlega við þessa umræðu, en hefi verið svo fjölorður vegna ummæla annara. Um innflutningshaftafrv. er það að lokum að segja, að þótt jeg sje yfirleitt á móti málinu, þá hefi jeg samt ekki á móti því, að það gangi til fjhn. og 2. umr.