11.03.1924
Neðri deild: 20. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í C-deild Alþingistíðinda. (2385)

68. mál, aðflutningsbann á ýmsum vörum

Sveinn Ólafsson:

Jeg get farið nokkuð fljótt yfir sögu, því að hæstv. atvrh. (KlJ) hefir tekið fram margt af því, sem jeg ætlaði mjer að drepa á. Upphaflega kvaddi jeg mjer hljóðs vegna þess, að mjer virðist frv. það, sem nú liggur fyrir, eigi vera nógu víðtækt og þurfa nokkurra breytingu. Annars skal jeg lýsa ánægju minni yfir því, að frv. er fram komið og í þeim búningi, sem það er. Jeg vona, að því byrji nú betur en 1922, þegar það var einnig hjer á ferðinni, þótt í nokkuð öðrum búningi væri.

Jeg þykist vita, að reynsla tveggja síðustu ára hafi fært mörgum manni heim sanninn um það, bæði utan þings og innan, að slíkar ráðstafanir sjeu harðla nauðsynlegar. Veit jeg að vísu, að margir telja, að tilganginum, gengishækkun og skuldajöfnuði verði ekki náð með þessu, aðflutningshöftum, en þeim mönnum er hætt við að einblína of mjög á annmarkana eða agnúana, sem eru við framkvæmd slíkra laga sem þessara, og gera þeir þá oft úlfalda úr mýflugunni. En jeg verð að líta svo á, að hugboð þeirra um mótþróa hjá fólkinu eigi ekki sjerstaklega mikinn rjett á sjer.

Að menn eru yfirleitt sannfærðir um, að slíkar ráðstafanir sem innflutningshöft hafi mikla þýðingu og stefni til bóta, sjest best á þeim undirtektum, sem þetta mál hefir fengið í vetur nær alstaðar, þar sem þingmálafundir hafa verið haldnir. Á því nær öllum þingmálafundum hefir verið skorað á Alþingi að gera víðtækar ráðstafanir til að takmarka eða hefta aðflutning á óþörfum og miður nauðsynlegum varningi.

Í slíkum kröfum fólksins liggur yfirlýsing um það, að það vilji sýna sjálfsafneitun og taka á móti erfiðleikunum. Fólkið skilur vel, að eyðslusemin er meinsemd sú, sem haft hefir í för með sjer lággengið og þá fjárhagsörðugleika, sem af því stafa, og fólkið veit líka, að slík meinsemd verður ekki numin burt sársaukalaust. En eins og jeg tók fram í upphafi ræðu minnar, þá var aðalástæðan til þess, að jeg stóð upp, sú, að mjer fanst vanta í frv. tvö öryggisákvæði, sem við þarf, ef frv. á að ná sínum fulla tilgangi. Í fyrsta lagi þarf að reisa einhverjar skorður við því, að tíminn, sem fer í það að afgreiða lög þessi, verði notaður til þess að flytja inn óhóflega mikið af þeim vörum, sem frv. leggur bann á, og í öðru lagi þarf að finna ráð til þess að bæta ríkissjóði að einhverju upp halla þann, sem hann bíður við minkun innflutnings. Þetta hvorttveggja ætti að geta tekist með litlum breytingum á frv., og skal jeg síðar gera grein fyrir því, hverjar leiðir jeg tel hagkvæmast að fara í þessu efni.

Mjer hefir verið skýrt svo frá af kunnugum manni, að úti í Kaupmannahöfn dveldi nú ýmsir kaupsýslumenn hjeðan og biði þess, hverju fram færi í þessu málum á þingi. Munu þeir hafa fullan hug á að birgja sig upp með bannvörur, áður bannaður verður innflutningur, og verði ekkert gert til að afstýra því, er það sýnilegt, að frv. myndi ekki ná tilgangi sínum. Jeg held því, að ef menn vilja ekki hamla þessum innflutningi á annan veg, t. d. með því að gefa út reglugerð til bráðabirgða samkvæmt lögum 8. mars 1920, og banna innflutninginn meðan máli þessu er ráðið til lykta í þinginu, þá megi þó setja inn í frv. ákvæði, sem komi að líkum notum. Það hefi jeg hugsað mjer á þá leið, að allar bannvörur sem til sjeu í landinu, þegar lögin öðlast gildi, skuli tollaðar, og þá leyfð sala á þeim í sex mánuði eða lengur, en þó undir settu hámarksverði, og síðan skuli tollurinn á þeim hækka á hverjum sex mánaða fresti, uns þær þrytu. Þetta myndi reynast sá hemill á innflutningnum, sem dygði.

Annars er það auðvitað mál, að ef hægt er og þingið vill gera ráðstafanir til að hefta innflutninginn meðan lögin eru í smíðum, eftir heimild þeirri, sem lög 8. mars 1920 veita, þá er á þann veg hægt að reisa skorður við þessu. En hiki stjórnin og þingið við að fara þá leið, get jeg ekki betur sjeð en það ráð, sem jeg hefi minst á, gæti vel komið að liði, og hefi jeg því ákveðið að bera fram brtt. þess efnis, sem fyrst. Hitt atriðið, að bæta ríkissjóði hallann af minkuðum innflutningi, álít jeg líka að nást megi með þessu fyrirkomulagi, sem jeg hefi lýst, og sjeu vörurnar þá aðeins seldar með leyfi stjórnarinnar eða verðlagsnefndar og með hámarksverði, sem á þær verði sett.

Það var þetta atriði, sem jeg áleit mestu máli skifta að benda á. En úr því jeg stóð upp á annað borð, þá vildi jeg grípa tækifærið til að minnast á nokkur atriði, sem fram hafa komið í umræðunum. Jeg get þó verið stuttorður, þar sem hæstv. atvrh. (KlJ) hefir þegar svarað flestu því, er varðar þá hlið málsins, sem mjer þykir nokkurs um vert.

Einu atriði hjó jeg sjerstaklega eftir úr ræðu háttv. 3. þm. Reykv. (JakM). Hann var að telja upp annmarkana, sem væru á framkvæmd laga sem þessara, og er það rjettilega tekið fram, að sumir þeirra eru slæmir viðfangs. En einn af þessum annmörkum, sem hann taldi upp, var þess eðlis, að mjer stóð ekki á sama um það, að hann skyldi vera nefndur í því sambandi. Hv. þm. (JakM) hjelt því nefnilega fram, að fyrirmæli sem þessi hlytu að hafa mjög alvarlega röskun á atvinnuháttum manna í för með sjer og svifta fjölda fólks atvinnu, það er að segja, kaupsýslu-atvinnu. En út af þessu vil jeg segja það, að jeg tel það einmitt mjög mikilsverðan kost á frv., ef það hefir þessa röskun í för með sjer, því að kaupsýslu-atvinnan, eins og hún hefir víðast verið rekin á undanförnum tímum, hefir verið okkar þjóðfjelagi alt annað en holl, og væri gott til þess að vita, ef von væri til, að frv. þetta hefði þá rjettarbót í för með sjer, að eitthvað af hinum fjölmenna mangara- og braskaralýð hyrfi að öðrum nytsamari atvinnurekstri. Þykist jeg því ekki þurfa að svara þessu atriði með fleiri orðum.

Þá vildi jeg lítillega drepa á örfá atriði í ræðum hv. 1. þm. Skagf. (MG) í dag, og enda frá í gær. Hann ljet á sjer skilja, að hann hefði verið fylgjandi innflutningshöftum árið 1922, eins og líka nú. Í öðru lagi gat hann þess, að ekki hefði verið leitað þingvilja um það, hvort nota ætti heimild laga 8. mars 1920, um innflutningshöft, síðan 1921. Að því er síðara atriðið snertir, þá er það ekki rjett, að þingvilja hafi ekki verið leitað frá 1921, um aðflutningshöft. 1922 var þessa þingvilja leitað með frv. um innflutningshöft og gjaldeyrisráðstafanir. Stuðningur hv. 1. þm. Skagf. við það var harla vafasamur. Hann taldi þá gengi íslensku krónunnar hækkandi og líklegt til að ná sjer. Þessvegna litla þörf á gjaldeyriseftirliti. En til að varpa dálitlu ljósi yfir stuðning hans þá við innflutningshöftin, skal jeg lesa upp nokkur orð úr ræðu hans í málinu þá, með leyfi hæstv. forseta. Hann kvað svo að: „.... Um innflutningshöftin er það að segja, að jeg get enga nauðsyn sjeð á því að samþykkja þessi ákvæði frumvarpsins.“

Hv. þm. (MG) taldi þá heimild laga 8. mars 1920 nothæfa og einhlíta. En nú hefir hann lýst yfir því í dag, að hann hafi ekki getað farið lengra en farið var í hefting innflutnings í hans stjórnartíð, vegna þingviljans, sem dró úr þeim 1921. Þetta kom ljóst fram í ræðu hans. Þingviljans um innflutningshöft var því ákveðið leitað á þinginu 1922 með frv. um innflutningshöft og gjaldeyrisráðstafanir, sem flutt var samkvæmt ósk stjórnarinnar af minnihl. viðskiftanefndar. En sú varð niðurstaðan, að því var ekki leyft að fara í gegnum þingið, því jafnvel sumir þeirra þm., sem töldust fylgjandi höftunum, snjerust á móti því af torskildum hvötum, eða sökum þess, að þeim fjell það ekki að formi til. En með þessu er þeirri spurningu svarað, hversvegna innflutningshöftunum hafi ekki verið stranglegar framfylgt 1922 og síðan. Það var ógerlegt, þegar jafnvel sumir þeir, sem höftunum sögðust vera fylgjandi, lögðust á móti þeim, formsins vegna. Jeg skal fúslega viðurkenna, að hv. 1. þm. Skagf. (MG) hefir nú tekið mjög liðlega undir þessa viðleitni, að stemma stigu fyrir óþörfum innflutningi.

En að ekki var leitað þingvilja í þessu máli 1923 var mjög eðlilegt, þar sem þá átti sæti sama þing sem 1922, og varla við því að búast, að þm. hefðu á milli þinga skift um skoðun.

Fleira álít jeg ekki þörf á að taka fram að sinni, því eins og jeg tók fram í upphafi ræðu minnar, þá hefir þegar mörgu af því verið svarað, sem jeg annars myndi hafa farið frekar út í.