11.03.1924
Neðri deild: 20. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í C-deild Alþingistíðinda. (2386)

68. mál, aðflutningsbann á ýmsum vörum

Flm. (Halldór Stefánsson):

Umræðurnar um þetta mál eru nú þegar orðnar langar, en megnið af þeim hefir snúist um hina sögulegu hlið málsins, sem, úr því sem komið er, liggur algerlega fyrir utan málefnið, enda mun það reynast tímafrekt, ef menn hugsa sjer að gera þær sakir allar upp við þessa umræðu.

Hinsvegar get jeg ekki annað en verið ánægður með þær undirtektir, sem frv. hafa hlotnast hjer í hv. þingdeild. Raunar hafa ýmsar athugasemdir verið gerðar við það, líka af fylgjendum þess, en þær hafa flestar verið almenns efnis, og er ekki nema eðlilegt, að slíkt hafi komið fram. Almennasta ástæðan, sem borin hefir verið fram gegn frv., hefir verið sú, að það hafi í för með sjer tekjurýrnun fyrir ríkissjóð, og er það rjett athugað. En í fyrsta lagi er svo, að tekjurýrnun þessi mun alls ekki eins stórfeld og menn ef til vill hafa gert sjer í hugarlund, og í öðru lagi býst jeg við, að auðvelt muni að ná þeim tekjum á annan hátt. Það var aðallega 3. þm. Reykv. (JakM) sem hafði verulega að athuga við frv. Hann tjáði sig mótfallinn stefnu frv., og færði þar ýmislegt til. En flestum þeim mótbárum hefir nú þegar verið svarað af öðrum hv. þm., og er óþarfi að fara að endurtaka það, enda get jeg að mestu látið mjer nægja að vísa til þeirra andmæla. — En mótbárur hv. 3. þm. Reykv. (JakM) skildist mjer, að aðallega bygðust á því, í fyrsta lagi, að tilgangur frv. næðist ekki, þó það yrði samþykt, í öðru lagi, að ýms mikilvæg vandkvæði væru á framkvæmd laga sem þessara; í þriðja lagi, að ástand landsins væri ekki ennþá orðið svo bágborið, að grípa þyrfti til slíkra örþrifaráða sem hann taldi innflutningshöft vera, og í fjórða lagi bygði hann mótbárur sínar á því, að höftin, þó hægt væri að framfylgja þeim, myndi alls ekki duga eða verka eins og til væri ætlast.

Að mestu leyti hefir þessu þegar verið svarað. Þó vil jeg leyfa mjer að fara ofurlítið nánar út í einstök atriði. Hv. 1. þm. Reykv. (JÞorl) er samþm. sínum (JakM) sammála um það, að það sje kaupgeta manna, sem ráði innflutningnum, og því verði honum ekki reistar skorður með innflutningshöftum svo nokkur árangur verði. Þessi skoðun er auðvitað andstæð þeirri hugsun, sem til frv. liggur. Sem betur fer mun kaupgeta manna ekki vera ennþá alveg þrotin. En hún mun vera komin í tiltölulega fárra hendur, og þá annaðhvort í þeirra, sem svo eru efnum búnir, eða búa við slík kjör, að þeir eru enn óneyddir af fjárhagsörðugleikunum, eða í þeirra hendur, sem ekki hafa viljað eyða sinni kaupgetu heldur hafa sparað saman og vilja spara, og þarf þá varla að óttast, að þeir myndu kasta henni á glæ. En það er mikill munur á því, hvernig kaupgetunni er beitt, hvort hún fer í óþarfa eða til nauðsynja, og hvort hún rennur út úr landinu eða henni er beitt innanlands. Og það, sem liggur að baki frv., er einmitt það, að vernda kaupgetuna og veita henni í aðrar áttir og koma í veg fyrir, að skuldir vorar við útlönd aukist. Lánstraust er líka kaupgeta, því er jafnan hollast að beita var lega. Það má ekki nota það yfir viss takmörk. Ef þessvegna ekkert er hægt að gera — samkv. skoðunum hv. 1. og 3. þm. Reykv. — til að hindra það, að kaupgetan tæmist, þar með talið lánstraustið, — ja — hvað liggur þá fyrir annað en gjaldþrot?

Hæstv. atvrh. (KlJ), hefir lýst því yfir, að stjórnin muni ekki treysta sjer til að hindra innflutninginn á þeim vörum, sem frv. tekur til, á meðan það bíður afgreiðslu, nema henni komi áður hvöt til þess frá þinginu. En þar sem jeg hygg, að flestum hv. þm. muni koma saman um það, að nauðsyn beri til að stemma stigu fyrir óhóflega miklum innflutningi á óþörfum varningi meðan málið er í höndum þingsins, þá vona jeg að hv. deild sjái sjer fært að gefa hæstv. stjórn þann stuðning og þá hvöt í þessu efni, sem þörf er á, til þess hún sjái sjer fært að hefjast handa í því.

Loks væri það mjög æskilegt, fái málið að ganga lengra, að hv. þm. takmörkuðu mál sitt svo, að 1. umr. gæti orðið lokið á þessum fundi.