12.03.1924
Neðri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í C-deild Alþingistíðinda. (2394)

68. mál, aðflutningsbann á ýmsum vörum

Pjetur Þórðarson:

Jeg mun ekki þreyta menn með langri ræðu. Jeg hefi verið að reyna og mun enn reyna að telja mjer trú um, að þessar miklu umræður um málið, sem nú hafa staðið yfir í 3 daga, og sem að mestu leyti hafa snúist um skoðanir manna í þessu efni á undanförnum árum, verði að einhverju leyti til góðs fyrir málið, þó jeg hinsvegar sjái ekki enn, hvernig svo má verða. En ein afleiðing má þó segja að orðið hafi af umræðunum fyr og síðar, sú, að allir spádómarnir um, og öll rökin, sem færð hafa verið á móti málinu, af þeim ástæðum, að svona frv. væri óþarft, því ástandið lagaðist af sjálfu sjer, það hefir reynst rangt. Ástandið hefir ekki undanfarið, og getur ekki enn, lagast af sjálfu sjer. En aftur á móti má segja, að þeir, sem mælt hafa með málinu og sagt, að ástandið færi versnandi, ef ekki yrði gripið til innflutningshafta eða banns, hafi fengið stuðning máli sínu hjá reynslunni sjálfri, því ástandið hefir altaf farið versnandi. Þessi reynsla, hverjar afleiðingar hafa orðið af því, að ekki var framfylgt því, sem jeg og sumir aðrir vildu að reynt væri með aðflutningshöftum, hefir meðal annars orðið til þess, að jeg hefi lánað því stuðning minn, að málið væri tekið enn á ný til athugunar.

Undir þessum síðustu umræðum hefir ekkert nýtt komið fram móti málinu, heldur aðeins það, sem áður hefir verið borið fram gegn því, enda þótt reynslan hafi sýnt og sannað, að þær ástæður hafi látið sje til skammar verða að undanförnu.

Til þess að þurfa ekki að endurtaka neitt af því, sem sagt hefir verið um málið, eins og það horfir nú við, vil jeg taka það fram, að hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) hefir getið um flest það, sem jeg vildi sagt hafa. Fáum atriðum vil jeg við það bæta.

Hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) hjelt því fram, og eins hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að vörukaup frá útlöndum myndu ekki takmarkast neitt, þó innflutningsbanni væri á komið, að þau sköpuðust aðeins af kaupgetu manna, Má vel vera, að svo sje, en mikill munur er á því, jafnvel þó jafnmikið sje keypt, hvort keypt er svo og svo mikið af óþarfa og miður nauðsynlegum vörum, eða tómur nauðsynjavarningur. Það er svo mikill munur, að mjer virðist, að sú ástæða væri nóg til að banna innflutning á óþarfa. Auk þess mælir þessi mótbára sjálf á móti sjer í eðli sínu. Því varla munu verslanir kaupa eða flytja inn mikið meira af nauðsynjavarningi en brúka þarf og þær geta selt jafnótt og inn er flutt; og mjer vitanlega hefir enginn skortur verið á nauðsynjavörum undanfarið, svo innflutningur þeirra ætti nú að aukast við það, að óþarfinn væri bannaður. Fellur því ástæða þessi um sjálfa sig.

Það var víst 1. þm. G.-K. (ÁF), sem hjelt því fram, að banna bæri aðeins innflutning á alóþörfum vörum, en andvirði þeirra væri svo lítið, aðeins örfá hundruð þús., að ekki tæki því að vera að leggja bann á innflutning þeirra. En þetta, hvað óþarft sje, fer mikið eftir því sem hver lítur á málið. Nefnd sú, sem væntanlega fær málið til athugunar, hefir nú fengið mikið af ýmiskonar hugvekjum sjer til leiðbeiningar. Ætla jeg ekki að fara að leggja henni frekari lífsreglur, en aðeins leggja áherslu á, og vona, að hún sjái sjer fært, að fella ekki mikið niður af þeim takmörkunum innflutnings, sem frv. fer fram á, bæði hvað snertir óþarfar vörur og eins þær, sem framleiða má í landinu sjálfu. Öllum ber saman um, að ekki er nú of mikil atvinna í landinu, en ef höft þessi næðu fram að ganga, gætu sjálfsagt einhverjir þeir verslunarmenn, sem atvinnu kynnu að missa, og aðrir sem atvinnulausir eru, fengið vinnu við að framleiða þær vörutegundir, sem nú eru aðfluttar að meira eða minna leyti. Hv. sami þm. (ÁF) var mikið að tala um, að höftin væru skerðing á persónufrelsi manna, og verður ekki þar um sagt annað en það, sem áður hefir þegar sagt verið, að öll löggjöf, sem að einhverju leyti setur þjóðfjelaginu skorður, er haft á persónufrelsi einstaklinganna.

Sami hv. þm. (ÁF) mintist á, að vel gæti verið, að menn kæmust af án einhverra varanna, sem frv. fer fram á að hefta, í 2–3 ár. En það er ekkert annað, sem ætlað er með frv., en að takmarka þennan innflutning í skemri eða lengri tíma; fyrir hinu er alls ekki gert ráð, að hætt sje að flytja inn vörurnar um aldur og æfi, og ber frv. það sjálft með sjer.

Jeg vil aftur minnast á það, að ástandið lagast ekki af sjálfu sjer. Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) lagði áherslu á það, að undirrót þessarar ráðstafanar og annara, sem samhliða eru og á eftir kunna að koma, væri gengisfallið. Hann hjelt því fram, að það væri mest áríðandi að hafa sterka trú á því, að það lagaðist af sjálfu sjer. Það færi betur, að svo væri, og að allir gætu tekið þessa trú, en án þess að líkur sjeu færðar fyrir því, að hún komi að gagni, held jeg, að margir öðlist hana ekki. Jeg er hræddur um, að til þess að menn taki hana, þurfi að færa sterkari líkur en þær, að sjálfsagt sje að lofa öllum einstaklingum að þjóna lund sinni í verslun og viðskiftum, þá fari alt vel, þó þeir aðeins notfæri það sjálfstæði til þess að kaupa með hinni raunverulegu og fölsku kaupgetu sinni jafnt óþarfa sem þarfa, þangað til í öngþveiti er komið. Reynsla annara þjóða hefir sýnt, hve hættulegt það er; má t. d. benda á Þýskaland og Austurríki.

Við, sem borið höfum fram málið, eða að minsta kosti jeg fyrir mitt leyti, höfum nú að nokkru leyti náð tilganginum með því að vekja umræður þessar. Jeg býst við, að nú sjeu öll sterk rök móti málinu fram komin, þó hin, sem styðja það, sjeu ekki tæmd. Og tilganginum er að sumu leyti náð. Því ekki veldur sá er varir, þó ver fari, og höfum við þannig gert skyldu okkar, þó hv. þd. beri ef til vill ekki gæfu til að ráða bót á því, sem mest er áríðandi af því, sem við höfum til meðferðar hjer á þingi, en það er gengisfallið.

Hv. nefnd, sem nú tekur við málinu, ræður því, hvað hún tekur til greina af þeim athugasemdum, sem fram hafa komið í umræðunum. En jeg vænti þess, að hún, við nána athugun, komist að þeirri niðurstöðu, að ekki megi mikið fella niður af því, sem frv. fer fram á.