15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í C-deild Alþingistíðinda. (2398)

68. mál, aðflutningsbann á ýmsum vörum

Frsm. meirihl. (Jón Auðunn Jónsson):

Það mun óhætt að fullyrða, að gengismálið sje það mál, sem nú á tímum veldur öllum hugsandi mönnum áhyggjum.

Menn greinir, eins og kunnugt er, mjög á um það, hverjar sjeu orsakir lággengisins. Í flestum löndum hafa sjerfræðingar á fjármálasviðinu og lærðir hagfræðingar um árabil leitast við að leysa gátu þess og finna meðulin við því, og miklu fje og miklum starfskröftum hefir verið varið til þessara rannsókna, en niðurstöðurnar orðið næsta misjafnar. Það, sem þó má telja að hafi unnist á við allar þessar athuganir, er það, að menn hafa sannfærst um, að orsakir lággengisins sjeu margar og mismunandi í hinum ýmsu löndum, og að þar af leiðandi sje ekkert eitt ráð einhlítt við þessu meini.

Það er þó talið nokkurnveginn sannað, að í flestum löndum sjeu þrjár höfuðorsakir lággengisins, og sem ráða þurfi bót á, ýmist hverri út af fyrir sig eða í sambandi hverja við aðra:

1. Ógætileg seðlaútgáfa. Að ofmikil seðlaútgáfa, einkum lítt gulltrygðra seðla, leiði til lággengis, mun nú alstaðar viðurkent, og í flestum löndum hafa einhver ráð verið fundin til þess að koma í veg fyrir ótakmarkaða seðlaútgáfu.

2. Halli á ríkisbúskapnum og þar með aukning á skuldum bæjar- og sveitarfjelaga.

3. Óhagstæður greiðslujöfnuður við útlönd eða að útfluttar vörur og verðmæti nægi ekki til borgunar á innfluttum vörum ásamt afborgunum og vöxtum af erlendum skuldum.

Tvær fyrstu orsakimar, sem jeg hefi bent á, þurfa að leysast í sambandi hvor við aðra. Skal þetta skýrt í fám orðum. Til þess að seðlaútgáfan geti færst niður, verður að viðhafa nauðsynlegan sparnað í ríkisbúskapnum yfirleitt, fyrst að því er ríkissjóðinn snertir og einnig að því er við kemur bæjar- og sveitarsjóðum, og ástæðan er sú, að ef ríkisbúskapurinn er rekinn í stærri stíl og með meira fje en nauðsynlegt er í þrengstu merkingu, þá hlýtur hann annaðhvort að taka rekstrarfje frá atvinnuvegum landsmanna eða að leiða til meiri seðlaútgáfu en nauðsynlegt og holt er.

Á árunum 1918–21 er sannanlegt, að leyfð hafi verið of mikil seðlaútgáfa, af því að ríkissjóður var ávalt í fjárþröng og stjórnin þessvegna samþykt seðlaaukningu, til þess að fá lán hjá bönkunum. Nú síðustu tvö árin hefir ríkissjóður tekið 3½ miljón króna lán, og bæjarfjelögin líklega um 1½ milj. kr. lán í bönkunum hjer, mest í Landsbankanum. Þessar stóru lántökur hins opinbera hafa dregið svo úr getu bankanna til að veita lán til atvinnuveganna, að mjög víða hafa stöðvast nauðsynlegar framkvæmdir á því sviði. Af þessum dæmum vona jeg, að hv. þdm. verði ljósar þær afleiðingar, sem ógætileg stjórn á fje ríkissjóðs og bæjarfjelaganna hafi beint á gengi íslensku krónunnar, auk þeirra óbeinu afleiðinga, sem það einnig hefir á þjóðarhaginn yfirleitt, svo sem t. d. í hækkandi sköttum til ríkis og bæjarsjóðs.

Þá er það greiðslujöfnuðurinn við útlönd. Hjá okkur þýðir þetta út- og innflutningur, en hjá öðrum þjóðum getur verslunarjöfnuðurinn verið hagstæður, þrátt fyrir það, þó útflutningurinn sje minni en innflutningurinn. Ýmsar þjóðir hafa sem sje aðrar tekjur, t. d. af skipastól sínum og eignum erlendis, sem jafnað geta verslunarmismuninn. Afkoma ríkissjóðsins og bæjarsjóðanna getur haft áhrif á verslunarjöfnuðinn, ýmist með því að stofna beint til skulda erlendis, eða með því að stofna til skulda við innlenda banka og þar með knýja þá til lántöku erlendis. Þær eru margar og örlagaþrungnar afleiðingarnar af skuldasöfnun ríkis- og bæjarsjóðanna.

Eins og komið er hjá okkur, þá er það ekki nægilegt, að við höfum eins mikið verðmæti í útfluttum vörum og innfluttum. Útfluttar vörur þurfa, að mínu áliti, að vera minst 6 milj. kr. meiri árlega nú í nokkur ár. Jeg geri ráð fyrir, að til vaxta og samningsbundinna afborgana af erlendum skuldum þurfi 3½ miljón árlega, og að útlendingar selji eða verki hjer afla, umfram það, sem þeir greiða í vinnulaun, um 2½ miljón árlega, en þær útflutningsvörur eru taldar með okkar útflutningsvörum í verslunarskýrslunum.

Náist ekki þessi nauðsynlegi greiðslujöfnuður við útlönd, er óhugsandi að gengið lagist. Nú sem stendur er fult útlit fyrir, að þetta náist, en þó er sjálfsagt að gera þær ráðstafanir, sem hægt er, til þess að hjálpa og styðja gengið á íslensku krónunni.

Það er enginn minsti vafi á því, að öll ofeyðsla, eða eyðsla umfram þarfir, og framkvæmdir, sem ekki gefa af sjer beinan arð, hjálpa til að halda við lággenginu, ekki síst, ef þessi eyðsla er framkvæmd af hinu opinbera. En hitt verður líka að játa, að eyðsla einstaklinganna, þó hún sje í smærri stíl, styður líka að lággenginu. Af þessum ástæðum er það, að sjálfsagt virðist, fyrst og fremst, að reyna að takmarka útgjöld ríkissjóðs, þar næst eyðslu bæja-, sýslu- og sveitarfjelaga, og þá eyðslu einstaklinganna, eftir því sem hægt er að koma því við. Mjer þótti leitt að heyra það, er einn háttv. þm., 2. þm. Rang., hjelt því fram hjer í deildinni fyrir nokkru, að bæja-, sýslu- og sveitarfjelögin ættu að vera ein um sínar athafnir, og ríkisvaldið ætti ekki að skifta sjer af framkvæmdum þeirra á neinu sviði. Það er nauðsynlegt, að ríkisvaldið hafi líka auga með, hverju fram vindur í fjármálum, einkum hinna stærri bæjarfjelaga. Því að ef þau geta ekki staðið straum af skuldum sínum, þá er flúið til ríkissjóðs. Og við vitum líka, að öll stærri lán eru vanalega fengin með ábyrgð ríkissjóðs. Jeg skal minna á, að ríkið hefir nú þegar ábyrgst lán fyrir Reykjavík og aðra kaupstaði, sem nema um 6 milj. kr., og geti þessi bæjarfjelög ekki staðið í skilum, verður ríkissjóður að hlaupa undir baggann, og hann mun mjög nýlega hafa neyðst til að greiða um 30 þús. danskar kr. fyrir eitt bæjarfjelagið, Hafnarfjörð. Af þessum ástæðum, og að gefnu tilefni, vil jeg hjer með lýsa því yfir, að sú er mín skoðun, að jeg teldi það óverjandi, að bæja-, sýslu- og sveitarfjelög væru látin algerlega einráð um fjármál sín. Auðvitað ætlast jeg ekki til, að ríkisvaldið grípi inn í bráðnauðsynlegar framkvæmdir í smærri stíl og dagleg störf þessara stofnana — síður en svo.

Þá er það eyðsla einstaklinganna. Það er altaf viðkvæmt mál, þegar taka á fram fyrir hendur manna um það, hvers þeir neyti eða ekki, hvað þeir nota til daglegra þarfa eða ekki. En á tímum eins og þessum, þegar ekki virðist vera hægt að komast af án þess að taka eitthvað í taumana, hvað snertir eyðslu einstaklinganna, þá verður að gera það. Af þeim þrem ástæðum, sem jeg held að sjeu fyrir lággenginu, þá höfum við að miklu leyti ráðið bót á einni, þ. e. seðlaútgáfunni. Nú er verið að leggja grundvöllinn að því að ráða bót á annari, þ. e. stöðva tekjuhalla ríkissjóðs, og þá er sú þriðja, eða verslunarjöfnuðurinn, eða öllu heldur greiðslujöfnuðurinn við útlönd, og við viljum líka ráða bót á honum. Það mun nú hafa vakað fyrir flestum hv. þm., þegar þeir komu til þings í vetur, að þeir yrðu að takk til allalvarlega ráðstafana í því efni. En af því að orsakirnar og meðulin við þeim verða að haldast í hendur, verður að gjalda varhuga við því að rífa ekki niður á öðrum stað það, sem bygt er upp á hinum.

Eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, þá eru megintekjur ríkissjóðs bygðar á aðflutningsgjaldi eða tollum, beint eða óbeint. Um helmingur tekna ríkissjóðs byggist beint á aðflutningsgjaldi. En óbeint fær ríkissjóður meir en hálfar tekjur sínar á þann hátt. Því bæði eru tekjur af ríkiseinkasölunni runnar af innfluttum vörum, og eins er mikill hluti tekjuskattsins tilkominn af verslunararði, og þar með innfluttum vörum. Af þessari ástæðu hygg jeg, að ekki sje hægt að ganga eins langt í því efni að hefta innflutning á erlendum vörum eins og jeg og ýmsir fleiri óskuðu í upphafi. Því ríkissjóður mundi við það missa tryggustu og mestu tekjurnar. Sjerstaklega líka, þegar svo stendur á, að nauðsynjavörur eru lágt tollaðar og jeg held, að fæstir myndu vilja ganga lengra inn á þá braut að tolla þær til muna hærra. Jeg tel víst, og er þess fullviss, að flestir hv. þdm. gengu nauðugir að verðtollsfrv., sem samþ. var hjer fyrir nokkru, þó það tæki ekki mikið til nauðsynlegustu hluta, sem almenningur notar. En menn sáu þörf ríkissjóðs til að losna við tekjuhallann og koma jöfnuði á, og þar sem hagur ríkissjóðs stendur í nánu sambandi við gengið, verður að hafa fulla hliðsjón af ástæðum hans, og athafnir þingsins í haftamálinu hljóta því að miðast talsvert mikið við þessa stórmiklu þörf ríkissjóðs.

Þá er önnur hlið á haftamálinu, sú, sem snýr að almenningi. Menn verða aldrei á einni skoðun um það, hver áhrif innflutningshöft hafa fyrst og fremst á verslunarjöfnuðinn, og eins á hag almennings. Jeg hygg, að þó minna sje gert að innflutningshöftunum en hugsað var í þingbyrjun, þá bæti það þó verslunarjöfnuðinn, en engum getum þarf að leiða að því, að höftin eru altaf til óþæginda fyrir almenning, en þó mest í svip, því menn finna ýmsar leiðir til að bæta út óþægindunum, þegar frá líður. En hitt er víst, að þeir, sem versta afkomu eiga á þessu landi, kaupstaðabúar og þeir, sem eiga heima í sjávarþorpum, verða harðast úti af innflutningshöftunum, og jeg hygg, að því verði ekki neitað, að þeir verði verst úti, sem erfiðast eiga. Þetta á við, ef innflutningshöftin eru mjög yfirgripsmikil, en ef þau ná aðeins til óþarfavarnings eða þess, sem að mestu leyti má án vera, þá snerta þau mest þá, sem besta getu hafa og geta veitt sjer meira en þeim er nauðsynlegt.

Upp á móti þessum óþægindum vegur það, að með innflutningshöftunum er að minsta kosti stigið eitt spor í þá átt að bæta úr lággenginu. En jeg hygg, að innflutningshöftin verði altaf að meira eða minna leyti, ef þau eiga að vera ráð til viðreisnar genginu, að miðast við tekjuþörf ríkisins og ástand ríkissjóðs. Frv. það, sem hjer liggur fyrir hv. deild, um að banna innflutning á erlendum varningi, er að miklu leyti miðað við ónauðsynlegan varning. Það af nauðsynjavörum, sem í frv. er lagt til að bannað verði, vilja flm. veita undanþágur fyrir. Þó eru auðvitað nokkrar vörutegundir þar taldar, sem ágreiningur yrði um, hvort banna ætti eða ekki.

Jeg veit, að öllum kemur saman um að banna innflutning á vörum, sem ekki eru nauðsynlegar; jeg hefi ekki heyrt neina rödd á hinu háa Alþingi á móti því. En menn greinir á um það, hvað langt skuli farið í því að hefta innflutning á vörum, sem taldar eru nauðsynlegar, og um það, hverjar þær sjeu, eru skoðanirnar víst jafnmargar og mennirnir. Þarfirnar eru líka misjafnar á ýmsum stöðum. Í landssveitunum mun hægt að komast af, án þess að brúka neitt til muna af erlendum varningi annað en kornvöru, sykur og ýmiskonar áhöld. En í sjávarþorpunum víkur þessu alt öðru vísi við. Þar er nauðsynlegt að brúka margfalt fleiri erlendar vörur, sjerstaklega fatnaðarvöru. Aðalágreiningurinn er um formið á framkvæmd haftanna.

Við, sem höfum ritað undir álit meirihl., teljum best, að stjórnin hafi algerlega framkvæmdina á hendi. En hv. minnihl. vill aftur á móti setja lög, sem skilgreina og tiltaka, hverjar vörutegundir eru bannað. Jeg, og við í meirihl., erum nú hræddir um, að erfitt sje að ákveða með lögum allar vörutegundir, sem nauðsyn er á, eða verður að flytja inn, og þá ekki síður, hvað banna þarf, þegar framkvæmd laganna sýnir sig.

Fyrst er það, að maður getur búist við, að bannvörurnar komi inn í landið í breyttri mynd, þ. e., að það sjeu sömu vörurnar að efni til, en með öðrum nöfnum og öðruvísi tilbúnar. Þessu er miklu auðveldara að afstýra, ef framkvæmdin er í höndum stjórnarinnar og hún getur gefið út reglugerð og breytt henni eftir þörfum. Auðvitað álít jeg, að tíðar breytingar sjeu ekki æskilegar. Eins er það okkar álit, að stjórnin verði að hafa til hliðsjónar tekjuþörf ríkissjóðs og fleiri ástæður, sem geta komið til greina, og er hægra fyrir stjórnina að mæta þeim með reglugerð en lögum, sem ekki er hægt að breyta á milli þinga.

Hv. minnihl. vill komast hjá þessu, með því að láta landsverslunina versla með þær vörur, sem nauðsynlegt væri að undanþiggja banni, og að hún sjái um úthlutun þeirra til landshlutanna. Við teljum þetta fyrirkomulag alveg ótækt, því bæði þyrfti að auka starfskrafta við landsverslunina og setja þangað menn með sjerþekking á vefnaðarvöru, og ef til vill fleiru, og þó það yrði gert, þá er fyrirsjáanlegt frá upphafi, að um mikil mistök yrði að ræða og megna óánægju. Og það er ekki hugsanlegt, að þó um 1 eða 2 sjerfræðinga væri að ræða, að þeir gætu ráðið svo úr þessu sem þörfin krefði. Því sama vörutegundin þyrfti að vera breytt eftir staðháttum. Það væri ekki til neins að flytja eins dýr efni til fátækra verstaða og hingað til höfuðstaðarins, jafnvel þó um algengar vörur, t. d. tvistau og ullartau væri að ræða. Svo teljum við ekki rjett að binda meira fje í versluninni en nú er.

Jeg vona, að ekki verði lengur um það deilt, að lögin frá 8. mars 1920 gefi stjórninni næga heimild til að hefta innflutning á vörum, eftir því sem nauðsynlegt er. Menn hafa deilt um það á fyrverandi þingum og eins nú, en jeg hygg, að deilunni sje lokið með reglugerð þeirri, sem fyrv. stjórn gaf út í síðastliðnum mánuði, og ekki hefir verið átalin af hinu háa Alþingi.

Jeg skal ekki fara út í einstök atriði frv. fyrri en hv. frsm. minnihl (HStef) hefir mælt fyrir frv. Meirihl. fjárhagsnefndar, að undanskildum einum nefndarmanna (JakM), leggur til, af öllum þeim ástæðum, sem jeg nú hefi fært fram, að frv. verði afgreitt með þeirri rökstuddu dagskrá, sem við berum fram á þskj. 304.