15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í C-deild Alþingistíðinda. (2402)

68. mál, aðflutningsbann á ýmsum vörum

Jakob Möller:

Jeg hefði getað fallist á það, sem hv. 2. þm. Rang. (KlJ) stakk upp á, að láta vera að segja nokkuð um málið, ef umr. gæti orðið sem fyrst lokið. Hvað margar ræður sem haldnar verða í dag, hefi jeg ekki trú á, að þær breyti neinu. Þó jeg hafi staðið upp, af því jeg hefi sjerstöðu í nefndinni, býst jeg ekki við að fá miklu áorkað um atkvæðagreiðsluna. Sjerstaða mín kemur fram í nál. meirihl. fjhn., sem sje, að jeg tel öll innflutningshöft ótímabær og tilgangslítil. þessa skoðun hefi jeg ávalt haft. Fyrst, þegar fór að brydda á haftastefnunni hjer, var sú alda uppi í heiminum. Nú er sú breyting á orðin, að aldan er alstaðar að falla. Menn eru alstaðar að hverfa frá innflutningshöftum, enda hefir hvergi orðið neinn árangur af þeim. Í Danmörku hefir innflutningshöftum að vísu verið haldið fram nú fram á síðustu tíma. En þó fór svo, að í nýafstaðinni kosningabaráttu þar í landi, þá veit jeg ekki til, að það mál hafi verið haft á oddinum að nokkrum mun.

Meiningin með innflutningshöftum er auðvitað sú, að lagfæra gengið. Þegar gengishrunið kemur yfir menn, finst þeim það vera eitthvað óskiljanlegt fyrirbæri, og grípa til þeirra ráða, sem eru hendi næst, eins og innflutningshöftin virðast vera. En þó eru þau ekkert ráð. Ef hægt væri að takmarka innflutning á öllum vörum, mætti vænta einhvers árangurs. En það er nokkuð, sem er ómögulegt. Til þess yrði að koma á allsherjarskömtun undir ströngu eftirliti um land alt, og þó yrði ekki hægt að hindra, að peningar færu á annan hátt út úr landinu.

Þótt ein vörutegund sje bönnuð, kemur eyðslan fram á annari, og menn eru engu nær. Um þetta eru mýmörg vitni á þingskjölunum. Þannig vill minnihl. nefndarinnar láta banna innflutning á cigarettum. Hið eina, sem af því leiddi, yrði aukinn innflutningur á smávindlum. Þannig vill sami hv. minnihl. láta banna innflutning á sætu kexi og kökum. Auðvitað yrði það til þess, að meira yrði flutt inn af ósætu. Sumum þykir það meira að segja betra. Og alstaðar mun bera að þeim brunninum, að eyðslan verður hin sama og áður, þótt eyðsluvörurnar verði aðrar.

Auk þessa má líta á öll þau óþægindi, sem þetta mundi valda einstökum mönnum. Minnihl. vill veita undanþágur. Það er ómótmælanlegt, að slíkar undanþágur hljóta að kippa fótum undan tilgangi frv. Alt er því á eina bókina lært: tóm vonbrigði og hjegómi. — En enda þótt jeg hafi ekki trú á, að innflutningshöft geri neitt gagn í því efni að bæta gengið, hefi jeg þó viljað ganga svo langt, til samkomulags, að fallast á, að innflutningshaftalögin frá 1920 haldist, en þó með þeirri breytingu, að aðeins megi banna innflutning á ónauðsynlegum vörum. Að vísu má lengi deila um, hvað sje ónauðsynlegt og hvað ekki. Það hefir t. d. verið orðað hjer, að samkvæmt heimildinni í lögum frá 1920 mætti hefta innflutning á salti, þegar nægar birgðir væru til í landinu. Jeg vil því láta vísa þessu máli til stjórnarinnar, með alveg ákveðnum forsendum um það, hvaða vörum megi hefta innflutning á, þannig, að aðeins alónauðsynlegar vörutegundir komi þar til greina. Og má þó gera ráð fyrir því, að bagi geti orðið að því. Hjer hefir t. d. verið rætt um það, hvílík fjarstæða það sje að flytja inn marmara. Mjer er kunnugt um, að maður nokkur, sem bygði hús hjer fyrir skömmu, hafði stigann marmaralagðan eldhúsmegin, og þótti mörgum hin mesta furða. Þegar hann var spurður, hverju þetta sætti, svaraði hann, að það væri ódýrara en að dúkleggja. (ÁF: Þetta er alveg rjett!) Þannig er af misskilningi hægt að stofna til aukinna útgjalda með því að hefta innflutning á því, sem ef til vill virðist óþarft fljótt á litið. En það er til alveg ákveðinn skilningur á því, hvað telja megi óþarfan varning í þessu sambandi. Þingið 1921 feldi úr gildi hin almennu innflutningshöft, sem framkvæmd höfðu verið þá um ársskeið, en heimilaði þó stjórninni að beita lögunum frá 8. mars 1920 gegn „ónauðsynlegum vörutegundum“. Samkvæmt þeim yfirlýsta vilja þingsins, að ekki yrði gengið lengra, gaf stjórnin síðan út reglugerð, þar sem upp voru taldar ónauðsynlegar vörur, sem innflutningur skyldi bannaður á, og tel jeg, að una megi við þá skilgreining, og með því fororði legg jeg til, að máli þessu verði vísað til stjórnarinnar, sbr. till. mín aftan við nál. meirihl. fjárhagsnefndar.