15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í C-deild Alþingistíðinda. (2404)

68. mál, aðflutningsbann á ýmsum vörum

Sveinn Ólafsson:

Jeg stend upp vegna þess, að jeg á hjer brtt. við frv. Háttv. frsm. minnihl. gat um brtt. mína á þskj. 212, og gaf í skyn, að 1. liður þeirra gæti ekki samrýmst aðaltill. minnihl. Jeg sje, að þetta muni vera rjett athugað, og lýsi því yfir, að jeg tek aftur 1. lið tillagnanna.

Hinsvegar legg jeg mikla áherslu á, að 2. og 3. brtt. mín verði samþykt, því að mjer skilst, að vafasamur árangur muni verða af lögfestingu þessa frv., ef ekki verða sett í það svipuð ákvæði sem þau, er jeg legg til með þessum tillögum mínum, að sett verði. Í þeim eru einmitt öryggisráðstafanir, sem vantar í frv., gegn misferli í viðskiftum, og ákvæði um nauðsynlegt eftirlit, sem setja verður, þegar slíkt aðflutningsbann er lögleitt sem hjer er ráðgert.

Sumt í till. hv. minnihl. kemur dálítið óþægilega við brtt. mínar, einkum brtt. við 4. gr. Sú tillaga virðist óþörf, ef mín brtt. verður samþykt, enda er hún fyllri. Báðar geta að vísu staðist, en þá mundi þurfa að víkja orðalaginu eitthvað til og hefla frv. við 3. umr. Svipað er um síðustu brtt. hv. minnihl. að segja, en slíkar misfellur má laga við 3. umr., og er það lítilfjörlegt formsatriði.

Jeg skal þá leyfa mjer að víkja örfáum orðum að meðferð málsins, eins og það birtist hjer í hv. deild. Eftir undirtektum hv. meirihl. nefndarinnar má ætla, að hann sje í raun og veru hlyntur aðflutningshöftum. Virðist ekki vera mikill ágreiningur um annað en aðferðina, hvort styðjast skuli við lögin frá 8. mars 1920, eða lögfesta frv. það, sem fyrir liggur, eða annað svipað. Vitaskuld er sú skoðun enn uppi meðal nokkurra manna, að innflutningshöft sjeu tilgangslítil eða tilgangslaus, en jeg hygg, að þessi skoðun eigi ekki ýkjamarga formælendur hjer á þingi, auk hv. 3. þm. Reykv. (JakM).

Að bann á aðflutningi ýmiskonar varnings muni verða tilgangslaust til þess að lagfæra gengi íslensku krónunnar, hygg jeg, að fáir geti skilið, ef menn íhuga það, að lággengið er ekki annað en fátækt þjóðarinnar, eða getuskortur til að greiða útlendar skuldir og útlendan varning, sem inn er fluttur. Af því leiðir hugsunarrjett, að til þess að efnahagurinn batni og fátæktin minki, þarf þjóðin að spara við sig. Þótt jeg reki þetta ekki nánar, virðist mjer ekki geta verið róttækur skoðanamunur um það, að þegar öllu er á botninn hvolft, er lággengið afleiðing ofmikillar eyðslu, sem ætíð leiðir til fátæktar. Það er að vísu rjett, að lággengi getur einnig verið vottur um lamað traust á þjóðinni út á við og ennfremur um vantraust hennar á sjálfri sjer, en þó verður það ekki hrakið, að í insta eðli sínu er það fátækt, afleiðing af kröggum, ekki aðeins ríkisins, heldur og einstaklinganna, því að vantraustið á gjaldgetu vorri er afleiðing fátæktarinnar, en ekki orsök hennar.

En svo ber á milli um aðferðina, hver heppilegust sje. Hæstv. stjórn telur einfaldast að beita heimildarlögunum frá 1920, en miða þó ætíð við, hvað er haganlegast ríkissjóði og rýri minst tekjur hans. Gæti þá svo farið, ef alt ætti að miða við tekjur ríkissjóðs, að stjórnin sæi sjer ekki fært að banna neitt. Það er augljóst, að hve lítið sem bannað er, snertir það hag ríkissjóðs og rýrir tekjur hans. En þegar verið er að reyna að komast úr fátæktinni, verður spurningin um það, hvort rjett sje fyrir 1 milj. kr. tekjur að leyfa innflutning á óþörfum eða þá miður þörfum vörum fyrir 5 milj. kr.

Ef svo væri á litið, að mótspyrnan gegn því að beita lögunum frá 1920 væri á því bygð, að þeir, sem kjósa heldur haftafrv., treystu hæstv. stjórn ekki til að fara með lögin frá 1920, þá er það ekki rjett á litið. Fremur væri ástæða til að líta svo á, að menn styðji þetta frv. af umhyggju fyrir hæstv. stjórn, því að þá, eftir lögfestingu þess, verður vandinn margfalt minni fyrir hana, heldur en ef beita á lögunum frá 1920. Það er vafalaust, að umvöndunin kemur á eftir, ef stjórninni tekst ekki að beita heimildarlögunum svo, að árangur sjáist af, og er hún þá vissulega miklum mun ver sett en hún mundi vera, ef þingið setti slík lög sem þetta frv. Það er auðvitað, að frestur er á illu bestur, og þá líka fyrir hæstv. stjórn að taka við aðfinslunum, en hún stendur áreiðanlega meira berskjölduð fyrir, þegar að því kemur, ef hún á að beita lögunum frá 1920 og svara til gerða sinna eftir þeim.

Það er mjög eðlilegt, að hæstv. fjrh. (JÞ) leggi mikla áherslu á tekjurýrnun þá, sem mundi leiða af höftunum. Kemur það í ljós í hverju máli, sem varðar á einhvern hátt tekjur ríkissjóðs, að hann er þar mjög árvakur. Þetta er ekki ámælisvert, en þó má gera of mikið að því. Það má ekki líta einhliða á ríkissjóðinn, og ef um tvent er að velja, hag ríkissjóðs eða þjóðarinnar, þá er vafalaust miklu meira vert um hag og afkomu þjóðarinnar en ríkissjóðs, sem er ekki nema brot af eignum alþjóðar.

Jeg skal svo ekki fara lengra út í þetta mál, því að margt hefir verið tekið fram af öðrum hv. þm., sem jeg vildi sagt hafa, og hefir hv. 2. þm. Rang. (KlJ) einkanlega svarað og andmælt ýmsum athugasemdum, sem gerðar hafa verið við frv. Þó skal jeg leyfa mjer að benda á, í tilefni af orðum hæstv. atvrh. (MG) og samanburði hans á þeim vörutegundum, sem bannaðar væru í frv., og öðrum, sem mætti banna, en væru ekki teknar í frv., að það tekst aldrei að skera algerlega fyrir rætur alls óþarfs varnings, hvort sem farið er eftir þessu frv. eða lögunum frá 1920. En takast mætti að fara svo langt, að það skifti ekki máli, hvort einstaka óþarfar vörutegundir komist undan. Sýnilega tekst aldrei að ná öllu, fyr en þá seint og síðarmeir, þegar reynslan hefir kent mönnum, en það mundi ekki verða fyr en í lok þess tímabils, sem þessu banni er ætlað að gilda, og mundi það þá litlu máli skifta.