23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

1. mál, fjárlög 1925

Jónas Jónsson:

Jeg vildi leyfa mjer að segja nokkur orð um brtt. þær, sem jeg er riðinn við, og auk þess aðrar till. á þskj. 417.

Jeg vildi þá fyrst taka það fram, að jeg hefi ekki sannfærst af rökum hv. frsm. fjvn. (JóhJóh) um verðtollinn. Tel jeg það ekki ná nokkurri átt að áætla hann svo lágt. Hv. þingdeildarmenn vita það allir, að það hefir eiginlega verið felt í hv. Nd. að hafa nokkur innflutningshöft á óþarfa varningi. Um það mál hefir verið samþykt till. frá einum hv. þm., sem er lengst frá því að vilja hafa nokkur höft. Því hefir verið haldið fram, að hægt sje engu að síður fyrir hæstv. stjórn að banna mikið af innflutningi slíkra vara, þrátt fyrir yfirlýsingu hv. Nd. Jeg verð að halda því fram, að það verði erfitt, þó að sá hæstv. ráðherra, sem hlut á að máli, vildi gera það, þar sem yfirlýstur vilji Nd. liggur fyrir um það atriði í neikvæða átt og stuðningsmenn hæstv. ráðherra hafa komist að þeirri niðurstöðu, að beina því til hæstv. stjórnar að banna ekki innflutning á öðru en bláberasta óþarfa. Jeg fæ ekki betur sjeð en að hæstv. stjórn verði að taka tillit til þessa vilja. Auk þess hefir þessi vilji komið skýlaust fram í blaði því, sem stjórnað er af stuðningsmönnum hæstv. ráðherra. Út frá þessum forsendum álít jeg það víst, að innflutningurinn verði mikill. Er það því spá mín eftir öllu útliti, að í stað 300 þús. kr. megi áætla um 800 þús. til miljón kr. Skal jeg benda á það, að því hefir verið haldið fram, að gjaldið af þeim örfáu vörutegundum, sem ályktað hefir verið að undantaka, mundi nema mörgum þúsundum króna. Ef það er rjett, hvernig í ósköpunum á þá alt hitt að vega svo lítið? Verðtollurinn hlýtur að komast upp í 800 þús. til eina miljón, og vil jeg leyfa mjer að gratulera hæstv. fjrh. (JÞ) með þeim tekjuauka.

Þá vildi jeg minnast á brtt. hv. þm. Snæf. (HSteins) um sjúkraskýli og læknabústaði. Vil jeg endurtaka það, sem jeg sagði um það mál við 2. umr. fjárlagafrv., að jeg tel heppilegri þá leið hv. fjvn. að veita styrkinn á nafn og ljúka við skýlið í Borgarfirði, því að það verðskuldar þennan styrk. Enda má búast við, að á slíkum stöðum, þar sem hverir eru, sje hægt að koma upp skýlum og læknabústöðum, sem verði tiltölulega ódýrir í rekstri fyrir landið. Er jeg því á móti þessari till. Jeg álít einnig, að það sje heppilegast, að þingið sjálft ráði því, hvar sjúkraskýli eru reist, svo að stjórnin losni við það að klípa styrk þennan sundur milli stuðningsmanna sinna. Jeg veit það, að menn í Vestur-Skaftafellssýslu búast við því, að byrjað verði á sjúkraskýli þar, ef till. þessi verður samþykt.

Þá vildi jeg minnast á aðra brtt. sama hv. þm., um styrk til utanferða hjeraðslækna. Það er vitanlega mjög æskilegt, að læknar fari utan og fullnumi sig í grein sinni. En mjer þætti gaman að heyra skýringu hv. þm. á því, hvernig á því stendur, að einmitt læknarnir, sem eru best launaðir embættismenn landsins, skuli vera svo mjög styrksþurfar.

Í undanförnum fjárlögum hefir staðið styrkur til berklaveikrar konu, en var feldur í Nd. Jeg hefi leyft mjer að fara fram á, að konan fái að halda þessum 500 kr. Það er alkunna, hvernig ástand hefir skapast hjer í sambandi við berklavarnalögin. Þjóðfjelagið sjer fyrir sjúklingum, jafnvel þó að þeir sjeu ekki smitandi. Þessi kona er ekki fær um erfiðisvinnu, en getur þó hjálpað til við ljett störf. Smástyrkur myndi bjarga henni frá neyð. Jeg játa það, að það er ekki auðvelt fyrir landið að taka að sjer marga sjúklinga á þennan hátt. En þegar landið hefir tekið þá að sjer sem slíka, þá er ekki rjett að kasta þeim út á klakann, þegar eytt hefir verið vegna þeirra fje um svo langan tíma.

Jeg leyfi mjer að koma með brtt. við 14. gr. B. XVIII 1, um sundkenslu. Það eru þrír eða fjórir skólar fyrir fullorðið fólk hjer, sem styrktir eru af ríkisfje, sem full ástæða er að hvetja til að nota laugarnar. Kvennaskólinn, verslunarskólinn, samvinnuskólinn og jeg held vjelstjóraskólinn hafa hingað til verið útilokaðir, þ. e. a. s. námsfólkið hefir ekki haft ókeypis sundkenslu. Jeg sje enga ástæðu til að gera þennan mun á skólum og flokka þá eftir því, hvort þeir eru ríkisskólar eða styrktir af ríkisfje.

Það er ekki enn búið að tala fyrir till. um hækkun til samningar orðabókar. En jeg verð að lýsa því yfir, svo sem við fyrri umr., að jeg get ekki skoðað þennan styrk annað en eftirlaun handa öldruðum manni. Munu flestir líta þannig á, þeir er vel til þekkja. En hinsvegar eru 6 þús. kr. óeðlilega há eftirlaun. Hv. flm. vil jeg benda á það, að töluverðar líkur eru á því, að upphæðin verði lækkuð aftur í hv. Nd. enn meir en við 2. umr., ef farið verður að hækka hana hjet upp í 6 þús. kr.

Um styrkinn, sem 15. gr. ræðir um til Hannesar Þorsteinssonar, get jeg sagt það, að jeg álít, að 1 þús. hefði átt að nægja. Þessi maður hefir tekið að sjer forstöðu skjalasafnsins og fær þar með launahækkun.

Þá hefi jeg fyrir tilmæli manna á Ísafirði flutt brtt. um styrk til hafskipabryggju. Mjer hefði aldrei komið til hugar að flytja þessa till., ef um bein peningaútlát fyrir ríkissjóð væri að ræða. Það væri ósamræmi í því að veita 55 þús. til mannvirkis í einum kaupstað á þessum niðurskurðartímum. Þannig stendur á fyrir Ísfirðingum, að bærinn ætlar að byggja hafskipabryggju. Hann getur það ef hann þarf ekki að endurborga gamalt hallærislán til ríkissjóðs. Á síðustu árum hefir það orðið torsótt fyrir ríkið að innkalla hallærislán, og það er álit mjög margra þingmanna, að eins muni fara um þetta lán. Jeg leyfi mjer að bera það undir hv. deild, hvort hún telji ekki rjett að leyfa að leggja endurborgun af þessu láni í hafskipabryggju. Því einhverntíma kemur til ríkisins kasta að uppfylla eldri lög um styrk til hafnarbóta á Ísafirði. Hygg jeg rjettast að verða við beiðni Ísfirðinga. Það er ekki ánægjulegt að hindra framkvæmdir, sem þurfa að gerast sjerstaklega nú í atvinnuleysinu. Þess vegna legg jeg eindregið með, að frv. verði samþykt.

Um fjárveitingu til Jóns Jacobson lands. bókavarðar vil jeg taka fram, að við í mentmn. höfum eftir atvikum mælt með, að eftirlaun yrðu honum veitt. Mjer er þó ekki óblandin ánægja að greiða atkv. með þessum lið. En jeg er sannfærður um, að hin eftiræsktu og mjög nauðsynlegu mannaskifti við landsbókasafnið mundu ekki verða framkvæmd að öðrum kosti. Jeg hefi áður minst á það í hv. deild, að þar sem sannanlegt er, að hið megnasta ólag á rekstri bókasafnsins hefir átt sjer stað um nokkur ár, er það í sjálfu sjer ekki viðkunnanlegt að setja á eftirlaun forstöðumann þess, sem reynst hefir óhæfur í stöðu sinni. Spurningin er þá : Hvað þá um hina góðu og trúu þjóna þjóðfjelagsins, þegar þeir eru orðnir gamlir? Hverju á að launa þeim? Jeg veit, að í till. felst ranglæti gagnvart öðrum starfsmönnum, sem verða sumir hverjir að búa við hörð kjör eftir langa og dygga þjónustu. En þar sem ekki má treysta aðhaldi stjórnarinnar, eru engin önnur ráð en annaðhvort að þola óhæfa starfrækslu eða þá að „kaupa út“ hina miður hæfu starfsmenn.

Brtt., sem jeg flyt við 18. gr. II,e 12, var feld við 2. umr. í þessari hv. deild. Jeg verð að skilja það á þann veg, að hún hafi þótt of lág. Það er ekki algengur siður að hækka till. eftir að þær hafa verið feldar einu sinni, en jeg þóttist hafa ástæðu til þess að þessu sinni. Jeg hefi aflað mjer upplýsinga um þennan mann, og vil jeg sjerstaklega benda þeim hv. þingmönnum, sem hafa haldið með Árna Th. Pjeturssyni — sem sannanlegt er, að ekki hefir staðið vel í stöðu sinni —, jeg vil benda þeim á það, að hjer er kennari, sem starfað hefir dyggilega í 35 ár undir erfiðum kringumstæðum; hefir verið farkennari og oft hjá þeim, er bágast áttu í sveitinni, þar sem verst fór um hann. Þegar maðurinn er orðinn gamall og heilsulaus, bíður hans ekkert nema sveitin. Með leyfi hæstv. forseta vil jeg lesa upp vottorð sóknarprestsins á Patreksfirði. Hann segir:

„Hjermeð votta jeg undirritaður, að Guðmundur Björnsson, fyr bóndi á Botni í Tálknafirði, leysti með stakri alúð og kostgæfni af hendi barnakenslustarf á þeim árum. Hepnaðist honum sjerstaklega oft afburðavel að kenna tornæmum börnum, sem aðrir voru oft uppgefnir við og jafnvel var álitið ókennandi.

Patreksfirði, 4. febr. 1924.

Magnús Þorsteinsson,

(sóknarprestur).“

Þeir, sem fengist hafa við kenslu, vita, að einmitt í því felast yfirburðir kennara, að honum takist sæmilega við tornæmu nemendurna, því það er vandalítið að kenna hinum gáfuðu. En aðeins þeir, sem eru fæddir kennarar, geta kent með góðum árangri þeim, sem lítið er gefið. Jeg tek vottorðið sem merki þess, að maðurinn sje verður þessara 200 kr.

Þá vil jeg þakka hv. fjvn. fyrir það að hafa bæði nú og við 2. umr. stutt að því að veita Ólafi Hvanndal greiðslufrest á afborgunum af viðlagasjóðsláni.

Þá kem jeg að c-lið í sömu till., sem ákveður sjerstaklega lága vexti af viðlagasjóðsláni sýslumannsins í Borgarnesi (Guðmundar Björnssonar). Jeg get ekki litið sömu augum á þennan lið sem hinn síðastnefnda. Sýslumanni gekk erfiðlega að herja út lánið í fyrstu. En nú hefir hann bygt sjer óþarflega stóra höll þarna í Borgarnesi. Jeg tel ekki vel ráðið fyrir landið að lána fje í einstaks manns bústað og fara síðan að gefa eftir vexti manni í ágætri stöðu. Þetta finst mjer sannarlega vera að bera í bakkafullan lækinn.

Skal jeg svo ekki að þessu sinni fjölyrða frekar um þennan lið.