21.02.1924
Neðri deild: 5. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í C-deild Alþingistíðinda. (2422)

13. mál, yfirstjórn og umsjón fræðslumála

Jörundur Brynjólfsson:

Þetta frv. kann að virðast fremur lítilsvert, og að ekki sje vert að leggja stein í götu þess þegar í byrjun, en jeg tel mjög óheppilegt, að þetta frv. nái að ganga fram og verða að lögum. Jeg sje ekki betur en með þessu sje verið að fjarlægja frá skólunum þekking þeirra manna, sem ráða skólamálunum til lykta. Þetta frv. hefir og nokkurn kostnað í för með sjer, og eins og tímarnir eru nú, álít jeg það ekki vert að auka á kostnað ríkissjóðs um skör fram, og ekki síst, ef skoðanir manna á þessu efni eru eins og mínar, að nýmæli þetta yrði til hins verra. Jeg get ekkert atriði sjeð í þessu frv., sem til bóta horfir, heldur þvert á móti. Jeg fjölyrði svo ekki um þetta, en læt mjer í ljettu rúmi liggja, hvort frv. nær að fara til 2. umr. og í nefnd, en er það kemur aftur fram, mun jeg greiða atkv. á móti því.