08.03.1924
Neðri deild: 18. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í C-deild Alþingistíðinda. (2433)

40. mál, útflutningur hrossa

Atvinnumálaráðherra (KlJ):

Jeg ætlaði mjer einmitt að segja hið sama um frumvarp þetta sem háttv. 1. þm. Skag. (MG), þó hann yrði fyrri til að taka til máls. Jeg hugði upprunalega, að nægilegt myndi vera að fá álit nefndarinnar og láta þar við sitja, en venja er fyrir því hjer að láta málið ganga til 3. umr., þegar svo stendur á sem hjer. Samkvæmt danskri venju er það álitið nægilegt að skýra aðeins frá slíkum lögum, sem þegar eru gengin úr gildi, er þing kemur saman, en vafamál er, hvort það samrýmist okkar stjórnarskrá. Því hefi jeg talið mjer skylt að leggja þau fyrir þingið, til að vita, hvort því þykir ástæða að láta stjórnina sæta vitum fyrir þau eða ekki.