03.03.1924
Efri deild: 10. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í C-deild Alþingistíðinda. (2438)

14. mál, blöndun ilmvatna

Frsm. (Eggert Pálsson):

Nefndarálitið við frv. það, sem hjer er til umr., er ekki langt, og jeg býst heldur ekki við að halda langa framsöguræðu.

Mál þetta er ekkert stórmál, en eins og sjest á nál., telur þó meirihl. allshn. rjettara, að það verði samþykt. Hvað felst í fyrirvara háttv. minnihl., veit jeg ekki, en býst þó við, að hann geri ekkert sjerstakt ágreiningsatriði eða beinist verulega á móti frv.

Eins og tekið er fram í athugas. við frv., er gert ráð fyrir, að það komi í veg fyrir, að menn drekki ilmvötn og þesskonar vökva, vegna vínandans, sem í þeim er. Hvort það sje alment, að menn drekki vökva þessa, veit jeg fyrir mitt leyti ekkert um, því að jeg hefi ekki þekt það. En sje svo í raun og veru, sem nefndin heldur þó frekar, eftir þeim upplýsingum, sem hún hefir fengið, verður að teljast rjett að samþykkja frv. og gera á þann hátt tilraun til að koma í veg fyrir slíkt, því að það getur síst talist hollusta eða menningarbragur að slíku. Og hinsvegar, þar sem talið er víst, að farið sje nú þegar að blanda vökva þessa erlendis með eitri þessu og það getur því átt sjer stað, að þeir þannig blandaðir flytjist hingað inn meira eða minna, þá verður að telja ákvæði 2. gr. frv. mjög nauðsynlegt, sem sje það ákvæði að hafa miða á glösunum til aðvörunar almenningi um að vökvinn sje hættulegur til drykkjar. Því að það er vitanlegt, að slík aðvörun þarf að vera á skýru, innlendu máli, sem almenningur skilur, ef hún á að koma að tilætluðum notum.

En eins og jeg hefi þegar tekið fram, gerir nefndin það að engu kappsmáli, hvernig fer um frv. þetta.