23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

1. mál, fjárlög 1925

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg á tvær brtt. á þskj. 422, sem jeg vildi segja um nokkur orð. Á fyrri tillögunni stendur þannig, að vegamálastjóri hefir bent á, að óhjákvæmilegt yrði að byggja brýr á árinu 1925, sem annars myndu falla. Vitanlega hefir stjórnin heimild til þessa samkvæmt brúalögum, en hún vill láta taka upp í fjárlögin upphæð í þessu skyni, því að hún vill komast hjá að þurfa að borga nema sem minst, sem ekki stendur í fjárlögum, þó að aðrar lagaheimildir sjeu til fyrir því.

Þó nú aldrei nema tillaga þessi verði ekki samþykt, kemur þetta fje til útborgunar eigi að síður, því að það liggur í augum uppi, að ekki getur komið til mála að láta brýrnar falla, því að þá verða vegirnir ófærir. Er því ekki nema til þess að svíkja sjálfan sig að neita tillögu þessari samþykkis.

Hið sama má segja um III. brtt. á þskj. 422. Er þar farið fram á fjárveitingu, sem óhjákvæmilega verður að borga og leiðir af lögunum um skipulag kauptúna og sjávarþorpa. Því máli er svo langt komið, að þegar er búið að mæla í nokkrum kauptúnum. En skipulagsuppdrættina vantar, og er mikils virði fyrir kauptúnin að fá þá, því að fyr en þeir koma verður verkið ekki að fullum notum. Er því mikill áhugi hjá stjórnum þeirra bæjarfjelaga, sem mælt hefir verið hjá, að fá uppdrætti þessa sem fyrst, því að það hefir ekki svo litla fjárhagslega þýðingu, að það skipulag, sem verða á, komist á sem fyrst, svo að húsin sjeu ekki bygð eins og skögultennur sitt í hverja áttina, og það jafnvel fyrir götur, sem leggja þarf um bæina. Vona jeg því, að tillaga þessi verði samþykt, þar sem erfitt verður að komast hjá að greiða fje í þessu skyni, þó að það verði ekki veitt í fjárlögum.

Út af þeim ummælum háttv. 5. landsk. þm. (JJ), að innflutningshöftin yrðu ekki framkvæmd öðruvísi en eftir þeim orðum, sem háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) hefði haft fyrir tillögu sinni, vil jeg taka það fram, að þau verða ekki framkvæmd öðruvísi en samkvæmt þeirri yfirlýsingu, sem stjórnin var búin að gefa áður. Geta því ummæli háttv. 3. þm. Reykv. engu breytt að því leyti.