03.03.1924
Efri deild: 10. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í C-deild Alþingistíðinda. (2441)

14. mál, blöndun ilmvatna

Jónas Jónsson:

Út af þeim orðum hæstv. forsrh. (SE), að jeg væri fús til að leggja árar í bát í áfengismálinu, vil jeg taka það fram, að mjer finst hæstv. ráðherra orðinn býsna minnislítill. Því jeg veit ekki betur en jeg flytti í fyrra tvö frv., sem gengu í þá átt að hindra innflutning sterkra vína í landið og halda í skefjum áfengisnautn. En hæstv. forsrh. (SE) og hans „partí“ í þessari háttv. deild sáu sjer þá ekki fært að fylgja þessu. Gekk annað frv. þetta í þá átt að verja gróðanum af vínsölunni til menningar í landinu, og jafnframt til að halda smyglurunum í skefjum. En hitt til þess að herða á eftirlitinu, svo að vín væru ekki höfð ólöglega um hönd, en þetta var felt, eins og jeg hefi tekið fram, af því, að hæstv. ráðh. og hans fylgifiskar gátu ekki skilið gagnsemi þess þá. En þessi tilraun hefir verið sú eina, sem gerð hefir verið á síðari tímum til þess að reyna að halda áfengisbölinu í skefjum.

Jeg játa fúslega, að hæstv. forsrh. (SE) hefir gert töluvert með reglugerðum þetta síðastliðna ár til þess að halda vínaustri læknanna í skefjum. Sömuleiðis hefir hann gert rjett í því, að fjölga ekki útsölustöðum hinna spönsku vína. En jeg hefi heyrt ýmsa vínmenn halda því fram, að þeir ættu að vera miklu fleiri. Fyrir þetta er jeg honum þakklátur. En að hafa þennan fjölda víntegunda í áfengisversluninni verður að teljast miður heppilegt, því að slíkt gerir ekkert annað en lokka menn til að drekka. Vil jeg því skjóta því til hæstv. ráðh. hvort ekki myndi hugsanlegt, að komast mætti af með t. d. 10–12 tegundir.

Annars hefi jeg hreyft þessum mótmælum fyrir þá sök, að jeg tel með frv. þessu stigið of lítið spor í vörnum móti áfengi.