23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

1. mál, fjárlög 1925

Sigurður Eggerz:

Jeg verð að lýsa því yfir, að jeg gleðst mjög yfir brtt. þeirri, sem hv. þm. Vestm. (JJós) hefir komið með um að veita 10 þús. kr. til markaðsleitar í Miðjarðarhafslöndunum. Eins og kunnugt er, þá fór svo síðastliðið ár, þegar fisksalan var komin í öngþveiti, að bankarnir sneru sjer til ríkisstjórnarinnar og fóru fram á, að erindreki væri sendur til Spánar, til þess að greiða fyrir fisksölunni. Bankarnir buðust til að greiða helminginn af kostnaði við þessa sendiför, en 14 skyldi Fiskifjelagið greiða, en ríkissjóður 14 kostnaðarins. Stjórnir bankanna stungu upp á Gunnari Egilson til þess að fara þessa för, því þær töldu hann færastan til þess að annast slíkan erindrekstur. Stjórnin fjelst á þessa uppástungu bankastjórnanna, og gerði því, ásamt bönkunum, bráðabirgðasamning við Gunnar Egilson um förina, er skyldi gilda þangað til þing kæmi saman. Það varð töluvert umtal um þessa sendiför. Einkum var hún gerð að umtalsefni í einu blaði hjer og talsvert fundið að því, að Gunnar Egilson skyldi sendur. Þeim árásum var að mestu beint að mjer, enda þótt þessi för væri ráðin af okkur báðum ráðherrunum í samráði við bankana, enda óhjákvæmilegt að verða við óskum bankanna í þessu, og mundi engin stjórn eftir þeim ástæðum, sem fyrir lágu, hafa neitað að taka þessar tillögur bankanna til greina.

Háttv. þm. kvartaði undan, að þær skýrslur, sem komu frá sendimanninum á Spáni, hafi ekki verið birtar svo fljótt og oft, sem skyldi. Jeg tók svo eftir, að hann ætti þar við fyrri sendiför Gunnars Egilsonar til Spánar. Jeg veit ekki, hvernig hefir verið farið með þær skýrslur, sem komu þá frá sendimanninum, en jeg hygg, að þær skýrslur, sem komu frá honum í síðari sendiförinni, hafi verið birtar jafnóðum, því þær voru altaf sendar verslunarráðinu jafnharðan og þær komu.

Jeg get fyllilega fallist á, að það er rjett, sem háttv. þm. hjelt fram, að slíkar skýrslur þyrfti að birta öllum almenningi. Háttv. þm. kvartaði undan því, að þessi sendimaður hefði ekki verið gerður opinber verslunarræðismaður. Jeg hygg, að háttv. þm. eigi þar aðallega við fyrri sendiför Gunnars Egilsonar. Þá stóð svo á, að það var laust konsúlsembætti í Genúa, og það var til þess ætlast, að Gunnar Egilson tæki við því, en þá kom upp ágreiningur milli dönsku stjórnarinnar og íslensku stjórnarinnar um það, hvort hann skyldi skipaður sem danskur eða íslenskur ræðismaður. En áður en gert yrði út um þennan ágreining, tók Alþingi til sinna ráða og feldi niður fjárveitingu til þessa sendimanns, og tel jeg, að það hafi verið mjög óráðlegt.

Jeg er háttv. þm. algerlega sammála um, að það sje alveg óhjákvæmilegt að hafa sendimann til þess að gæta hagsmuna okkar í Miðjarðarhafslöndunum. Það er líka í fullu samræmi við alt, sem jeg hefi haldið hjer fram á þingi, þegar um slíkt hefir verið að ræða. Enda er jeg þess fullviss, að hjer er ekki um sparnað að ræða, heldur hygg jeg, að það sje fullkomin vanræksla að hafa ekki erindreka í Miðjarðarhafslöndunum til þess að gæta hinna miklu hagsmuna þjóðarinnar þar.

Og það gladdi mig því sannarlega að sjá þessa brtt. frá háttv. þm. Vestm., því það virðist bera vott um, að um stefnubreytingu sje að ræða í þessum málum. Og jeg skal taka það fram, að mig furðar stórum á því, að slík tillaga sem þessi skyldi ekki koma frá hæstv. stjórn.

Jeg sje, að hæstv. fjrh. horfir hissa á mig, rjett eins og hann minti að jeg væri í stjórn ennþá. (Fjrh. JÞ: Núverandi stjórn lagði ekki fjárlagafrumvarpið fyrir þingið). Það veit jeg vel, en hefði jeg verið áfram við stjórn, þá hefði jeg borið fram slíka brtt. Hæstv. fjrh. er vel kunnugt um, að það leið ekki langur tími frá því þing kom saman og þangað til nýir menn vildu brjótast til valda, því hæstv. fjrh. tilkynti þegar í þingbyrjun, að hann sjálfur og hans menn væru reiðubúnir til að taka við stjórn. Jeg get því ekki skoðað það nokkra vanrækslu af fyrverandi stjórn, þó að hún, er hún fór frá völdum, væri ekki búin að bera þessa tillögu fram í þinginu. Það, sem jeg kvíði aðallega fyrir, er að þessi tillaga verði látin kafna undir fargi tekjuhallans.

Jeg lasta hæstv. fjrh. alls ekki neitt fyrir að hafa afhjúpað tekjuhalla fyrri ára. Þeir tekjuhallar voru oss að vísu kunnir áður, því þeir komu í ljós í vaxandi skuldum fyrri ára, enda sjest skuldahæðin tilfærð í hverjum landsreikningi, svo það er aðeins greinileg sundurliðun hallanna, sem mætti segja að væri ný, en ekki sjálf upphæð ríkisskuldanna, sem öllum hefir verið ljós. Sem sagt, jeg lasta engan fyrir það, þótt hann bendi fast á hallana, það hefi jeg gert sjálfur. En mjer finst hæstv. fjrh. hafa bygt sjer hásæti úr þessum tekjuhöllum, og úr þessu hásæti vill hann banda frá sjer sumum jafnvel allra nauðsynlegustu útgjaldaliðum þjóðarinnar. (Fjrh. JÞ: Jeg hefi alls ekki sagst mundu verða á móti þessari tillögu). Það stendur alveg eins á með þennan erindreka og sendiherraembættið í Kaupmannahöfn. Þar á að nota tekjuhalla fyrri ára til þess að brjóta dýrmætt vopn úr höndum þjóðarinnar, — vopn, sem þjóðin hefir eignast fyrir fjölda margra ára baráttu.

Annars gleður það mig, að hæstv. fjrh. greip fram í fyrir mjer og kvaðst ekki mundu verða á móti þessari brtt.

Úr því jeg fór að minnast á þetta, vona jeg, að hæstv. forseti áfellist mig ekki, þó að jeg í örfáum orðum minnist á nokkur atriði í fjárhagsmálum vorum.

Tekjuhallar á árunum 1917–1922 hefir hæstv. núverandi fjrh. (JÞ) gert að væri 12 milj. kr., þar með taldar afborganir af lánum frá þeim árum, en sem hæstv. fjrh. vill ekki draga frá; þær nema 2 milj. kr. Eftir eru þá 10 milj., því jeg tel að sjálfsögðu, að afborganirnar eigi að dragast frá.

Því hefir óspart verið haldið fram, að hallar liðnu áranna hafi orsakast af ljettúð þings og stjórnar. Verður það að vísu ekki af borið með öllu. En á hitt ber að líta engu síður, að á þessu tímabili hafa nærfelt allar þjóðir rekið búskap sinn með tekjuhalla. Hjá þeim öllum hefir ljettúðar gætt eins og hjá oss. Eitt atriði í málinu er órannsakað, í hverju ljettúðin var fólgin. Og þeir, sem hæst hrópa um ljettúðina, ættu auðvitað að færa rök í þessu máli. Vitanlega hefir á þessum árum — en þó sjerstaklega á stríðsárunum — verið miklu fje varið til dýrtíðaruppbótar o. s. frv. Þær ráðstafanir voru skoðaðar óhjákvæmileg afleiðing hinna vondu tíma. Og í raun og veru eru þeir fáir, sem neita því, að nauðsynlegt hafi verið að gera þessar ráðstafanir. Verklegar framkvæmdir hafa og verið eigi alllitlar á þessum árum, og má um þær segja, að rangt hafi verið að ráðast í ýmsar þeirra, þar sem tekjur ríkissjóðs hrukku eigi til fyrir þeim. En auðvitað verður því ekki neitað, að þessar framkvæmdir eru eign, sem til er í landinu, auk þess sem þær hafa veitt mikla vinnu. Leiti maður að ljettúðinni í ýmsum kostnaði við starfrækslu ríkissjóðsbúsins, — og þar mun ljettúðarinnar helst að leita, — þá kemst maður að einkennilegri niðurstöðu. Þetta þing hefir verið eitt hið sparsamasta þing þessarar þjóðar. Sama sem ekkert er veitt til verklegra framkvæmda, en þó eru gjöldin á næsta fjárhagsári áætluð um 8 milj. kr. Þetta sýnir, hve örðugt það hefir reynst að minka útgjöldin við rekstur ríkishúsins. Enda hafa þær tilraunir, sem gerðar hafa verið til þess að fækka embættum, ár eftir ár strandað á ótal skerjum. Utan af landi heyrist megnasta óánægja yfir því, hvað skrifstofur hjer sjeu dýrar, t. d. skrifstofur lögreglustjóra og bæjarfógeta. En eftir fengnar upplýsingar er bætt einum manni við í skrifstofu bæjarfógeta. Þegar sparnaðurinn er ekki meiri hjá hinu sparsama þingi, þá bendir það á, að ljettúð fyrverandi þinga og stjórna sje ekki alveg eins mikil og hefir verið látið klingja. Því til þess hefðu þó vítin átt að vera, að varast þau. En sannleikurinn mun nú vera sá, að aðalljettúð þinganna undanfarið hefir verið fólgin í því, að landinu hefir ekki verið sjeð fyrir nægum tekjuaukum.

Jeg hefi í ræðu, sem jeg hjelt í háttv. neðri deild, skýrt frá, hvaða tekjuaukar voru samþyktir á umræddu tímabili; sjerstaklega bendi jeg á það tímabil, þegar jeg var fjármálaráðherra, frá 1917 til 1920, en á því tímabili voru aðaltekjuaukarnir samþyktir. Jafnframt skýrði jeg frá því, hvað miklir örðugleikar voru á því að koma þessum tekjuaukum í gegnum þingið. Jeg benti enn á, að þegar jeg ljet af fjármálastjórn 1920, eða árið eftir, þá var skattalöggjöfin endurskoðuð, en sú endurskoðun leiddi til þeirrar niðurstöðu, að tekjurnar minkuðu um 400 þúsund krónur, í stað þess, að þörf var á að auka þær. Þetta mætti auðvitað kalla ljettúð, en erfitt er stundum að sjá slíka hluti fyrir.

Þá vil jeg lítið eitt minnast á afskifti fyrverandi stjórnar af fjármálunum.

Þegar Magnús Jónsson tók við fjármálastjórninni 1922, gat enginn búist við, að hann kæmi með skattafrv. á því ári. Sá fjármálaráðherra, Magnús Guðmundsson, sem verið hafði næstur á undan honum, lýsti því yfir í ræðu áður en hann fór frá, að gjaldþol þjóðarinnar væri orðið svo lítið, að ekki mætti bæta á hana meiri sköttum. Þetta sýnir meðal annars, hvernig þá var litið á aukningu skattanna. Þar sem nú bæði var nýbúið að endurskoða skattalöggjöfina og þar sem fyrverandi fjármálaráðherra hafði haldið því að þinginu, að ekki mætti auka skattana, þá var ekki við því að búast, að Magnús Jónsson kæmi með mikið af nýjum tekjuaukum. Það var ekki hljóð í þinginu fyrir þeim, enda komst verðtollsfrumvarp hans heldur ekki í gegnum þingið. Jeg vil nú á engan hátt neita því, að Magnús Jónsson leit of bjart á fjárhaginn á árinu 1923, en á því ári ljet hann af fjármálastjórninni, en Klemens Jónsson tók við henni, og benti hann þinginu þá þegar á, að örðugt væri orðið um fjárhaginn. Þegar leið á árið bar stöðugt meira og meira á þessum örðugleikum. En til þess að gera nánar grein fyrir þeim, verður að líta eitt augnablik aftur í tímann.

Þegar jeg fór frá fjármálastjórn árið 1920, átti ríkissjóður 6 milj. kr. inni í landsversluninni. Auk þess hafði jeg rjett áður en jeg fór frá sem fjármálaráðherra tekið 3 miljóna innanlandslán, sem var með öllu óeytt. Magnús Guðmundsson gat því meðan hann var fjármálaráðherra komist yfir hina miklu tekjuhalla á þeim árum með því að grípa til framantaldra 9 miljóna, þegar ríkissjóði var fjárvant. Auk þess fjekk ríkissjóður 1½ miljón af enska láninu, sem hann tók. Þess vegna var aldrei á þessum tímum, þrátt fyrir tekjuhallana, að ræða um neina fjárþröng fyrir ríkissjóð. Aftur á móti þegar kemur fram á árið 1923, þá eru miljónirnar farnar og þá verður þáverandi fjármálaráðherra, Klemens Jónsson, að halda sjer aðallega að árstekjunum, sem reyndust of litlar. Þegar hjer var komið málum, var alt gert, sem unt var, til að spara, bæði með því að draga úr nauðsynlegum framkvæmdum og á annan hátt. Hvað eftir annað ræddi stjórnin við bankana um hinar örðugu horfur, og það var sameiginlegt álit stjórnarinnar og þeirra, að það yrði algerlega að snúa inn á nýjar brautir í fjármálum vorum.

Þegar jeg var í útlöndum, meðal annars til þess að styðja að lántöku fyrir Landsbankann, skýrði jeg bæði enskum og dönskum fjármálamönnum frá því, að íslenska stjórnin væri ákveðin í því að fylgja hinni ýtrustu sparnaðarstefnu á öllum sviðum, og hún mundi ekki láta sjer nægja, að enginn tekjuhalli yrði á fjárlögunum, heldur mundi hún berjast fyrir því, að tekjuafgangur yrði á þeim. Þetta segi jeg aðeins til að sýna, að fyrv. stjórn leit sömu augum á fjárhagshorfurnar og nauðsynina á að rjetta fjárhaginn við og hæstv. núverandi stjórn. Till. hennar í síðasta fjárlagafrumvarpi eru einnig í samræmi við stefnu þessa þings.

Þegar rætt er um 10 miljóna króna hallann, þá verður auðvitað að skoða þann halla í sambandi við alla viðskiftaveltu þjóðarinnar. En það er auðsætt, að ein einasta sveifla upp á við í framleiðslu þjóðarinnar getur skapað meiri árlegan tekjuafgang á öllum ársbúskap þjóðarinnar heldur en framangreindir fjárlagahallar nema til samans, eins og líka ein sveifla niður á við getur skapað stærri skuld heldur en umrædd upphæð nemur. Þó að það sje mikilsvert að halda fjárhag ríkisins í horfinu, skiftir það samt margfalt meiru, að framleiðsla og viðskiftalíf þjóðarinnar sje í góðu lagi, því ef svo er, er enginn vandi að sjá ríkissjóði borgið.

Þó að til dæmis fjárlagafrumvarp þetta verði afgreitt hallalaust, jafnvel með tekjuafgangi, geta sveiflurnar í viðskiftalífinu haft þau áhrif, að mikill tekjuhalli yrði á fjárlögunum, þrátt fyrir alla varúðina. Ef krónan t. d. fjelli að mun, þá eru allar áætlanir einskis virði. Þótt mikils virði sje að hafa tekjuhallalaus fjárlög, þá er þó aðalatriðið, að viðskiftalíf þjóðarinnar og framleiðsla hennar sjeu í góðu lagi. Og í þeim dyrum stendur öll alvaran.

Báðir bankarnir hafa litið svo á og skýrt fyrverandi og núverandi stjórnum frá því, að þeir væru mjög hræddir um vaxandi örðugleika í viðskiftalífinu, og þeir hafa bent á, að eitthvað alvarlegt þyrfti að gera til þess að rjetta þjóðina úr þeirri kreppu. En á þessu sviði sje jeg ekki, að neitt hafi verið gert. Jeg skal játa, að jeg hefi verið ákaflega lítið fylgjandi höftum, en satt að segja, þegar jeg athuga ástandið, á jeg erfitt með að sjá, að aðrar leiðir sjeu til til þess að rjetta krónuna heldur en að draga úr innflutningnum. En þetta mætti gera með því að banna innflutning ákveðinna vara algerlega.

Jeg verð að segja nú eins og jeg sagði er jeg var fjármálaráðherra og var að reyna að koma hinum og þessum lögum gegnum þingið, sem barist var á móti vegna hinna og þessara „principa“: ríkissjóðinn vantar peninga, jeg verð að kasta „principunum“ fyrir borð.

Í sambandi við fjárhaginn er rjett að taka fram, að útlit er nú fyrir mjög góðan afla, og mun ekki veita af því, því fyrir viðskiftalífið alment hefir ekkert verið gert enn, en öllu varpað í forsjónarinnar hönd, enda er það sjálfsagt sterkasta höndin.

Mjer þótti rjett að gera í fáum atriðum grein fyrir afstöðu minni til fjárhagsmálanna. Jeg vil undirstrika það, að aðalstefnuskrá fyrv. stjórnar var að stöðva hallann. Hún reyndi að spara á fjárlögum eins og hún áleit mögulegt. Og jeg verð að líta svo á, að fjárlögin, sem nú eru að komast í gegnum þingið, sjeu ávöxtur af sparnaðarstefnu fyrverandi stjórnar. En jeg vil taka fram, að fyrverandi stjórn hefir einnig lagt tekjuaukafrumvarp fyrir þingið, sem nú er orðið að lögum og líkur eru fyrir, að gefi miklar tekjur. Sú fjármálapólitík, sem þingið fylgir í sparnaðaráttina, er fjármálapólitík fyrv. stjórnar, og er gott að vita, að hún hefir verið tekin til greina.

Um brtt. okkar hv. 2. þm. G.-K. (BK), um launauppbót til Jóhannesar L. L. Jóhannssonar, get jeg látið nægja að vísa til hinnar skýru greinargerðar háttv. 2. þm. G.-K. Jeg er ósammála hv. 5. landsk. (JJ) um, að fjárhæð þessa beri að skoða sem eftirlaun. Eins og kunnugt er, starfar sjera Jóhannes að samningu orðabókarinnar samkvæmt því, sem samið var við hann upprunalega. Hann var tekinn úr prestsembætti og fengið þetta starf, og býr nú hjer með stórri fjölskyldu sinni. Hvernig á hann að geta rækt starf sitt og sjeð fyrir fjölskyldu sinni fyrir þau smálaun, sem hjer er að ræða um! Jeg sje ekki ástæðu til að fara að mæla frekar með till., en vona, að háttv. deild fallist á, að hún er sjálfsögð sanngirniskrafa.

Þá er önnur brtt., sem háttv. mentmn. hefir flutt. Hún er um það, að próf. Sigurði Nordal verði veittar 2000 kr., og auk þess 1000 kr. í verðstuðulsuppbót, til ritstarfa. Skal jeg láta þess getið, sem jeg tók fram í hv. Nd., að meðan jeg var í stjórn þessa lands, þá komu til mín ýmsir mentamenn og aðrir og báru sig mjög illa yfir að eiga að missa þennan góða fræðimann úr landi, og kviðu því mjög, að hann tæki boði Norðmanna, og báðu um, að reynt væri að halda honum áfram við háskólann. Jeg skal játa það, — og vera sammála blaði hjer í bænum, sem telur mig lítinn lærdómsmann — og jeg skal fúslega játa það, að jeg er ekki bær um að meta lærdóm próf. Sigurðar Nordals. En annað get jeg metið, og það eru hinir framúrskarandi hæfileikar hans. Hann er einn með hinum ágætustu ræðumönnum hjer. Er jeg sannfærður um það, að fengi hann kennarastól í Kristjaníu, myndi hann vekja mikla eftirtekt með hinum ágætu hæfileikum sínum, og að þessu leyti geri jeg ráð fyrir, að honum mundi sjálfum hagur í að taka norska boðinu. En annað mál er það, hvað mikill hagur okkar andlega lífi er að því að missa hann úr landi. Áskoranir hafa komið frá háskólanum og stúdentaráðinu um að veita prófessornum styrk til ritstarfa, svo að hann sjái sjer fært að vera hjer áfram á landinu.

Mjer er sjerstök ánægja að mæla með fjárveitingu þeirri, sem hjer er um að ræða. Sjerstaka rækt ætti að leggja við fræðigrein þá, sem Sigurður prófessor Nordal kennir við háskólann, því yfir höfuð ættum við að geta vænst þess, að háskóli vor gæti sjerstaklega unnið sjer vísindaviðurkenningu í íslenskum fræðum yfir höfuð. Og skemtilegt væri það, að þessi hlið háskóla vors væri svo fullkomin, að hún vekti athygli hins mentaða heims á háskóla vorum.

Það er eftirtektarvert, að aðrir kennarar við háskólann, sem hafa lítil laun, óska eftir, að próf. Sigurði Nordal verði veitt uppbót. En kröfurnar um, að Sigurður Nordal verði hjer kyr heima fyrir, koma úr fleiri áttum. Ýmsir alþýðumenn hjer óska einnig að halda honum hjer heima. Og má heldur ekki gera of lítið úr þeim kröfum.

Þessa fjárveitingu má ekki skoða í sambandi við launakjör annara kennara háskólans, heldur verður að skoða hana í sjerstöku ljósi; því ljósi, sem jeg hefi nú verið að reyna að varpa yfir hana. Hjer er um þjóðarmetnað að ræða og þess vegna hefi jeg gerst meðflytjandi till.

Það er loks ein gr. fjárlaganna, sem jeg hefði gjarnan viljað koma með brtt. við; en mjer líst svo á, að það hefði ekki þýtt mikið. Jeg á þar við sendiherra landsins í Kaupmannahöfn. En jeg lít svo á, að ef sendiherralögin verða ekki afnumin, þá hafi stjórnin óbundnar hendur og geti sett mann í stöðuna með sömu launum og nú eru, þó að núverandi sendiherra segi af sjer, og þrátt fyrir ákvæði fjárlaganna.

Nú er áliðið þingtímans í þetta sinn, en jeg vildi óska, að hið síðasta, sem jeg legði til málanna á þessu þingi, mætti verða það, að leggja góð orð inn fyrir sendiherraembættinu, þó að svo virðist sem það sje ekki vinsælt nú orðið.

Til þess hefir þjóð vor barist árum saman og einarðlega fyrir sjálfstæði sínu, að hún færi sjer það í nyt, þegar hún loks hefir náð því. En ef fela á annari þjóð að fara með öll utanríkismál vor, án nokkurrar íhlutunar frá vorri hálfu, þá verður lítið úr því, sem barist var fyrir. En þó að þetta þing virðist ekki vilja skilja þetta mál, þá munu sannarlega koma ný þing, sem kunna að taka það rjettum tökum.