26.02.1924
Neðri deild: 8. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í C-deild Alþingistíðinda. (2464)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg bjóst satt að segja við miklu meira en jeg hefi fengið úr þessari átt. (BJ: Getur komið síðar.) Hv. þm. Dala. (BJ) hefir oft verið miklu lotulengri við 1. umr. en nú.

Jeg skal fyrst snúa mjer að ræðu hæstv. forsrh. (SE). Hann þóttist furða sig á því, að þetta frv. skyldi koma nú fram. Hæstv. forsrh. (SE) hlýtur þó að vita, að þetta flaut í gegn á þingi 1919 með jöfnum atkvæðum, og síðan hefir jafnan staðið gnýr um þetta mál. Hvernig getur hæstv. forsrh. (SE) þá haldið því fram, að honum komi þetta frv. alveg á óvart og að hann stórfurði sig á því, að það er fram komið. Rjett á eftir lýsti hann yfir, að jeg hefði barið mótspyrnuna gegn þessu embætti inn í hug þjóðarinnar í viðlesnu blaði. En er þá nokkur furða, þó að jeg haldi áfram þessum barningi hjer í þingsalnum? Það er mikil mótsögn í þessu tvennu hjá hæstv. forsrh.

Hæstv. forsrh. (SE) vildi sem sagt kenna mjer mótspyrnuna móti sendiherraembættinu, með skrifum mínum í víðlesnu blaði. Jeg verð að þakka honum þetta traust. Margir þeirra, sem mjög hafa aðrar skoðanir á landsmálum en jeg hefi, hafa látið þessa sömu skoðun í ljósi, svo sem hv. 1. þm. Reykv. (JÞ), hv. þm. Borgf. (PO) og hv. 2. þm. Skagf. (JS). Jeg tek það sem traustsyfirlýsingu frá hæstv. forsrh. (SE), ef hann ætlar, að jeg hafi barið þessa skoðun inn í höfuð þeirra manna, sem jeg nú nefndi.

Hæstv. forsrh. (SE) mintist á Jón Krabbe, skrifstofustjóra, sem hv. þm. Dala. (BJ) vildi þó ekki kalla þeim titli, og talaði margt um, hvílíkur afburðahæfileikamaður hann væri. Þessu er jeg algerlega samdóma, þótt jeg sje að vísu ekki jafnkunnugur og hæstv. forsrh. (SE) um starf þessa manns. En hvernig á þá að samrýma þetta við það, sem hæstv. forsrh. (SE) segir í sömu andránni, að hafi maðurinn ekki sendiherranafnbót, fái hann ekki að tala orð við aðra en undirtyllur undirtyllanna. (Forsrh., SE: Jón Krabbe er ekki sendiherra nú.) En þar sem hann er slíkur afburðamaður, má telja víst, að hann geti unnið oss hið fylsta gagn, og ennfremur má vænta þess, að hann fengi að tala við aðra en undirtyllur undirtyllanna. (Forsrh., SE: Jón Krabbe er engin undirtylla, heldur háttsettur embættismaður.) — Öll þessi orð, að sendimaður frá oss fái ekki að ná tali af neinum, nema hann hafi sendiherratitil, eru svo órökstudd, að þau eru ekki frambærileg. Jeg efast ekki um, að aðrar þjóðir muni sýna sendimönnum vorum fulla kurteisi, hvað svo sem þeir heita.

Þá mintist hæstv. forsrh. (SE) á ferðir sendiherrans til Spánar, Englands og Noregs. En hvernig var um sendiferðina til Spánar, og hvernig ætti sendiförin til Noregs að vera? Í Spánarförina voru sendir menn að heiman til aðstoðar sendiherra. Hv. þm. Dala. (BJ) talaði um, að það yrði mjög kostnaðarsamt að senda jafnan sendimann að heiman til þess að koma fram fyrir hönd landsins. En nú er það gert hvort sem er. (BJ: Það gera eyðslumennirnir, en ekki jeg.)

Jeg held því hiklaust fram, að einungis geti verið um tvennskonar sendiferðir að ræða. Annaðhvort þurfum við að senda sjerfróða menn með sendiherranum, eins og til Spánar og Noregs, og kemur þá í einn stað niður, hvort við höfum sendiherra eða ekki, eða starfsmaður okkar ytra getur leyst ferðirnar einn af hendi, hverju nafni sem hann nefnist.

Hæstv. forsrh. (SE) talaði um, hve mikið gagn Sveinn Björnsson, sendiherra, hefði gert oss hjá sambandsþjóð vorri, Dönum. Þessu er jeg algerlega sammála. En þar sem hæstv. forsrh. (SE) undirstrikar svo sterklega, hvílíkur ágætismaður Jón Krabbe hafi verið fyrir vora hönd, er jeg sannfærður um, að hann hefði getað gert oss sama gagn hjá sambandsþjóð vorri sem sendiherrann.

Jeg þarf ekki að víkja eins mörgum orðum að hv. þm. Dala. (BJ). Hann kom að því í upphafi máls síns, að kvarta yfir því, að jeg hafi talað um, að einskonar sjálfstæðisvíma hafi verið yfir mönnum árið 1919. Kvað hann ósjálfstæðisvímu vera yfir mjer og minni pólitísku starfsemi. Jeg vil svara þessu því, að úr einni átt stendur þessari þjóð hætta af ósjálfstæðisvímu. Ekki af því, að afnumið verði sendiherraembætti suður í Kaupmannahöfn, heldur af hinu, að þjóðin verði fjárhagslega ósjálfstæð. Það er til þess að reyna að firra þjóðina þeirri hættu, að jeg hefi flutt þetta frv. og önnur fleiri, sem öll stefna í þá átt að draga úr útgjöldum ríkissjóðs.

Hv. þm. Dala. (BJ) drap á eitt atriði, sem jeg leiddi hjá mjer í framsöguræðu minni. Hv. þm. hefir áður um það talað, en jeg hugði, að hann mundi sleppa því nú. Þetta var, að sendiherrann væri lifandi auglýsing sjálfstæðis vors. Það sje ekki nóg, að Danir hafi lýst yfir sjálfstæði voru 1918, heldur þyrftum vjer jafnan að hafa þessa auglýsingu. Jeg segi um þetta hið sama sem áður, að sje sjálfstæðið ekki annað en þetta, og þurfi jafnan að auglýsa það út um allar jarðir, þá gef jeg lítið fyrir það. Mjer liggur það í ljettu rúmi, hvort Hottentottar eða Búskmenn vita um það eða ekki. (BJ: Hafa þeir sendiherra í Kaupmannahöfn.) Hv. þm. Dala. (BJ) mun vera kunnugra um það en mjer er.

Þá fór hv. þm. Dala. (BJ) að skamma Danastjórn fyrir að hafa brugðið loforðum sínum við hann. Þetta eru mikil tíðindi, og stór synd, að danska stjórnin skyldi ganga á loforð sín við hv. þm. Dala. (BJ). Jeg er ekki mikill ríkisrjettarfræðingur, og veit því ekki, í hvers umboði hv. þm. hefir tekið loforð af Danastjórn. Mjer kom þetta því kynlega fyrir.

Enn kom hv. þm. með nýja ástæðu gegn því að afnema sendiherraembættið. Kvað hann það svívirðing við Dani, ef sendiherrann yrði nú kvaddur heim. Þetta er mjög leiðinlegt, en jeg leyfi mjer að efast um, að Danir mundu taka þetta svo nærri sjer og telja sjer svívirðingu í gerða. Jeg vildi mælast til, að hv. þm. fengi skriflega yfirlýsingu frá Dönum í þessu efni, áður en jeg legg trúnað á þetta.

Mig furðaði mjög, að hv. þm. Dala. (BJ) skyldi ekki víkja að einu atriði í sambandi við þetta, sem hann hefir talað um áður. Hv. þm. og fleiri voru eitt sinn að panta sendiherra frá Noregi og Svíþjóð, og heyrði jeg hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) eitt sinn átelja hv. þm. Dala. (BJ) fyrir það. Jeg er hissa á því, að hv. þm. skyldi ekki nefna þetta og geta þess, að vjer þyrftum að eiga sendiherra í þessum löndum. (BJ: Veit hv. þm. ekki, að vjer höfum þar umboðsmann?)

Hv. þm. hjelt því fram, að kostnaður við utanríkismálin mundi verða jafnmikill eftir sem áður. Þetta er alger misskilningur, svo sem jeg hefi sýnt. Hv. þm. hjelt því fram, að jeg hefði ekki reiknað kostnaðinn rjett. Jeg spáði engu um, hve mikill kostnaðurinn mundi verða, tók einungis tölurnar upp úr fjárlögunum. Þó var að einu leyti rangt reiknað hjá mjer, eins og hæstv. atvrh. (KlJ) skaut rjettilega fram. Upphæð sú, sem jeg taldi að sparast mundi, er í dönskum krónum, og verður sparnaðurinn þeim mun hærri í íslenskum krónum. Þetta er ekki alveg ljóst í landsreikningnum, því að þar er kostnaðurinn reiknaður í dönskum krónum, en gengismunurinn reiknaður á öðrum lið, og hafði jeg ekki aðgætt það.

Þar sem hæstv. forsrh. (SE) sagði, að við ættum að kosta meiru til utanríkismálanna, skal jeg geta þess, að nú kostum vjer um 58.000 kr. til þeirra mála. Danir eru 30 sinnum fleiri, og ættu því að rjettu hlutfalli að kosta til þeirra mála 1¾ milj. kr. Þetta er álitleg upphæð. Það er ekkert vit í því að líta á kostnaðinn öðruvísi en í sambandi við það, hve þjóðin er stór og fær um að bera mikið.

Jeg skal að endingu henda á lofti þau orð hv. þm. Dala. (BJ), að jeg væri pólitískur forngripur. Jeg hygg, að það hafi ekki verið heppilegt af hv. þm. að tala um pólitíska forngripi. Því að flestum mönnum hjer á landi mun koma saman um það, að í þessum sal sje einungis einn pólitískur forngripur, og það sje einmitt hv. þm. Dala. (BJ).