06.03.1924
Neðri deild: 16. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í C-deild Alþingistíðinda. (2470)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg get verið fáorður, en finn ástæðu til að þakka hv. allshn. fyrir, hve vel hún hefir tekið í mál þetta, einkanlega þar sem allir nefndarmenn hafa orðið sammála. Vona jeg, að það sje fyrirboði þess, að frv. gangi greiðlega gegn um þessa hv. deild og eins hv. Ed.

Nefndin hefir gert litlar brtt., og engar, sem jeg get ekki gengið fúslega inn á, því að þær snerta eingöngu formsatriði. Tilgangurinn næst jafnt með því, hvort frv. verður samþ. í upprunalegri mynd, eður eins og það kemur frá hv. nefnd. Því er jafnt af báðum skotið til þingsins, hvort það vill halda embættinu með því að veita fje til þess á fjárlögunum, eða að annast sje um mál þessi á annan hátt.

Hæstv. forsrh. (SE) þarf jeg engu að svara. Jeg ætla mjer ekki að ganga fram fyrir skjöld hv. frsm. (JÞ) honum til varnar; veit hann er fær um varnirnar sjálfur. Og hvað viðvíkur hv. Íhaldsflokkinum, þá kemur það ekki mál við mig.