06.03.1924
Neðri deild: 16. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í C-deild Alþingistíðinda. (2471)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Jakob Möller:

Það mun vera meining allra, er að máli þessu standa, að „frelsa með því samvisku sína“, eins og hæstv. forsrh. (SE) komst að orði. Það mun jafnt vera meining hv. flm. (TrÞ) með frv. sem hv. allshn. með brtt sínum, og nú vil jeg frelsa mína samvisku með því að mæla á móti frv., bæði í sinni upprunalegu og núverandi mynd. En jeg held, að við, sem erum annaðhvort með því að halda í embættið eða þá að leggja það beinlínis niður, eins og hv. flm. (TrÞ), sjeum hreinlyndari en hv. allshn. Því jeg sje ekki betur en að hún fari með brtt. sínum á bak við málið, látist ætla að leggja sendiherrann niður, en ætlist hinsvegar ekki til, að það verði gert.

Mjer er kunnugt um, að hv. flm. (TrÞ) hefir alla tíð verið á móti þessu máli, en svo er ekki um alla þá, er sitja í allshn., og liggur nærri, að draga megi þá ályktun af því, sem fram hefir komið, að málið muni standa fastar fyrir en í fyrstu var ætlað.

Reynslan hefir sýnt, að þetta embætti er afar nauðsynlegt og hefir komið að stórmiklu gagni. Leyfi jeg mjer því til sönnunar að vitna í ummæli fyrverandi stjórnar, sjerstaklega til háttv. 1. þm. Skagf. (MG). En eins og öllum er kunnugt, var það fyrir forgöngu þessarar stjórnar, að embættið var stofnað, og launin síðan hækkuð, til þess að halda manni þeim, er stöðuna skipar. Skýtur nú dálítið skökku við, er formaður Íhaldsflokksins, þess, er tveir aðalmenn fyrv. stjórnar eiga nú sæti í, hefir orð fyrir þeim mönnum, sem láta í veðri vaka, að leggja beri niður embætti þetta, sem flokksmenn hans komu á. Vildi jeg því gjarnan heyra meira úr því horni um afstöðu einstakra manna, og hverjar ástæður þeir telja helstar til að afnema embættið, þar sem nauðsyn þess er meiri nú en nokkru sinni áður. Annars verð jeg að líta svo á sem brtt. sjeu alt annað en það, sem þær eru gefnar út fyrir, sem sje það, að sparnaðarsamviska þessara manna sje með þeim að reyna að bjarga sjer í augum almennings með því að látið sje líta svo út sem fella eigi embættið niður, en að það verði ekki gert. Er það hálfljelegt, að mínum dómi, og myndi slíkt lítt friða mína samvisku.

Stjórninni er nefnilega heimilt að skipa sendiherra, ef fje er til hans veitt. En nú er það vitanlegt, að hæstv. fyrv. stjórn skipaði sendiherrann á eigið eindæmi, lofaði honum launahækkun og efndi það alt vel og drengilega. Og það má ganga út frá því, að svo fari altaf, að hver stjórn sjái sjer ekki annað fært en hafa sendiherra utanlands, og taki að sjer að sjá um það, að hann fái laun sín. Og ekki er jeg sammála hæstv. forsrh. (SE) um það, að enginn myndi vilja taka þetta starf að sjer, ef stjórnin hjet honum laununum. Það hefir hingað til reynst alveg hættulaust að reiða sig á orð íslenskra stjórna.

Jeg sje ekki, að mál þetta sje þýðingarmikill sparnaðarpóstur. Að vísu eru sendiherralaunin allhá, eða 20 þús. kr., en það er látið í veðri vaka, að ef frv. nái fram að ganga, eigi sendisveitarritarinn að annast störfin, og hlýtur hann að fá talsverð laun, aldrei minna en helming þessa fjár, og er þá lítill sparnaður, einar 10 þús. kr. Svo geri jeg heldur ekki ráð fyrir, að viðtakandi stjórn segi við núverandi sendiherra, að hann megi fara heim, heldur sitji hann, uns hann segir af sjer, og sje svo, er ekki víst, að sparnaðurinn verði neinn í bráðina. Er því dálítið hæpið að rjettlæta þennan sparnað eins og hv. frsm. (JÞ) gerði, með neyð þeirri, er nú ríkir, og hversu fjárhagurinn er þröngur.

Út af ummælum hv. frsm. (JÞ), að aðrar þjóðir spari nú mjög kostnað sinn í utanríkismálum, má geta þess, að svo er í sumum löndum; annarsstaðar er hann víða margfaldaður. Nú — þess ber líka að geta, hvað kostnaðinn snertir, að þá má ekki aðeins líta á bein útgjöld, heldur og á það, hver hagnaður það sje fyrir landslýð að hafa fulltrúa sinn úti í heimi. Tel jeg engan vafa á, að hagurinn af þessu embætti hafi orðið okkur margfaldur á við kostnað ríkissjóðs.