06.03.1924
Neðri deild: 16. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í C-deild Alþingistíðinda. (2476)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

2476Tryggvi Þórhallsson:

Mjer þykir rjett að geta þess og leggja áherslu á af minni hálfu, í tilefni af orðum hv. 3. þm. Reykv. (JakM) um að frelsa samvisku sína, að hann getur ekki að neinu leyti beint því til mín, að jeg hafi sjerstaka ástæðu til að frelsa samvisku mína í þessu efni. Jeg hefi altaf farið beint af augum og aldrei verið myrkur í máli í þessu efni, heldur haldið hinu sama fram látlaust, síðan þetta embætti var stofnað.

Jeg verð að láta í ljósi undrun mína yfir því, að hæstv. forsrh. (SE) og hv. 3. þm. Reykv. (JakM) skuli vera að víkja að atriðum, sem áður eru marghrakin. Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) var að vitna í gagnið af þessu embætti, og sló því fram, að þeir, sem vilja afnema það, viðurkenni þó gagnsemi þess. Þetta er rjett, en því hefir verið haldið fram, og ekki verið reynt að hrekja það, að alveg sama gagni má ná, þó að þessi embættistitill hverfi. Eins er um það, er hæstv. forsrh. (SE) gat um, að þá væru horfnir allir mögulegleikar til að hafa kynni af utanríkismálum. Það er eins og allir heimar sjeu lokaðir, nema þessi fulltrúi vor hafi sendiherranafnbót, en það nær vitanlega engri átt.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) gaf í skyn, að hv. allshn. væri að reyna að svíkjast frá málinu, og að brtt. hennar væru lævísleg aðferð til að losna úr öllu saman. Jeg hefi að vísu enga tilhneigingu til að verja meirihl. hv. allshn., en þó hefi jeg tilhneigingu til að halda því fram, að nefndin hafi ekki verið að gabba mig, þar sem hún fjekk mig til að fallast á brtt. sínar. Ef hv. þm. ber saman frv. mitt og brtt. nefndarinnar, hlýtur hann að sjá, að þar ber að sama brunni, að Alþingi skuli í hvert skifti ákveða í fjárlögum, hvort veita skuli fje til þessa embættis. Hvorki mjer nje nefndinni hefir auðvitað komið til hugar að taka fjárveitingarvaldið af Alþingi eða banna því að veita fje til sendiherra á fjárlögum. Jeg skil því ekki hugsunarferil hv. þm. í þessu.

Hæstv. forsrh. (SE) kvað þetta vera tilfinningamál fyrir sjer, og sá sýnir úr sæti sínu. Nú vita allir, sem eitthvað eru kunnugir fornbókmentum vorum, að fyrir stórtíðindum sáust jafnan sýnir um land alt. Að hæstv. forsrh. (SE) sjer nú sýnir úr sæti sínu er því ekki annað en góður og gamall íslenskur siður, og ofurskiljanlegt þetta sálarástand hans, eins og nú standa sakir.

Og svo örfá orð að síðustu út af ræðu hv. þm. Ak. (BL). Mjer komu orð hans á óvart. Eins og öllum er kunnugt, hefir nýlega verið myndaður hjer í þinginu stór og voldugur flokkur, sem nefnir sig Íhaldsflokk. Og stefnuskrá hans er sparnaður og fækkun embætta. Þessum þingflokki tilheyrir hv. þm. Ak. Jeg skal ekki fara að rekja ítarlega afskifti þessa flokks af sparnaðarmálum þingsins, þessa stuttu tíð, sem hann á að baki sjer, en vil aðeins taka örfá dæmi. í hv. Ed. var til umræðu fækkun embætta við hæstarjett. Þá kemur einn sparnaðarmaður úr Íhaldsflokknum og segir nei.

Í þessari hv. deild kemur svo fram frv. um fækkun kennara í guðfræði við háskólann, þar sem ráð er gert fyrir því, að biskupinn taki að sjer nokkuð af kenslunni. Þá stendur enn maður upp úr sama flokki og segir: nei, þetta megum við ekki gera! Og svo þegar rætt er um að takmarka þau útgjöld, sem leiðir af sendiherraembættinu, þá kemur sá þriðji til sögunnar og segir: nei, þetta megum við ekki gera! Og svona hefir farið í hverju málinu af öðru. Og merkilegt er þetta, ekki síst, þegar formaður flokksins hefir haldið ræðu með þessu frv. Máske er það rjett, að þetta sje ekki flokksmál, en hvað er þá um samheldnina, sem hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) talaði um að ríkti innan Íhaldsflokksins? Hann sagði okkur það um daginn, að þegar einn þm. úr flokknum kæmi með frv., þá væri það fyrirfram víst, að allur flokkurinn sameinaði sig um það. Jeg vil nú að minsta kosti skjóta því í allri vinsemd til formanns þessa flokks, hv. 1. þm. Reykv. (JÞ), hvort ekki væri heppilegt, að hann hjeldi meiri aga í flokknum.