06.03.1924
Neðri deild: 16. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í C-deild Alþingistíðinda. (2480)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Jakob Möller:

Í raun rjettri er háttv. samþm. minn (JÞ) búinn að taka af mjer ómakið við það að sýna fram á mismuninn, sem er á frv. og nál. Þarf ekki annað en minna á fyrirsagnirnar, sem ljósum orðum benda á, að annað fer fram á afnám sendiherraembættisins, en hitt fer aðeins fram á breytingu á lögum um sendiherra. Jeg verð því að álíta, að þegar hv. allshn. kom til hv. flm. frv. (TrÞ), þá hafi það verið með það fyrir augum að fara í kringum hann, og það hefir henni líka tekist. Aðaltilgangur hans hefir jafnan verið sá að fella niður titilinn, en nú er hann alt í einu horfinn frá þeirri áralöngu baráttu, og það er ekki aðeins, að ætlast sje til, að embættinu verði haldið áfram, heldur líka titlinum, sem honum hefir jafnan verið svo meinilla við.

Hvað viðvíkur því, sem hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) sagði um trúnaðarmann Íslands í utanríkismálaráðuneytinu, þá er svo langt frá, að það sje nokkurt vantraust á þeim manni, sem nú fer með það einbætti, þó sagt sje, að óheppilegt væri, að hann tæki að sjer sendiherrastörfin. Með því væri horfið til baka til þess ástands, sem var, og trúnaðarmennirnir yrðu ýmist íslenskir eða danskir, þó kanske oftar það fyrra. Og útlitið væri þá líkt og það var fyr, þ. e. að Ísland væri óaðskiljanlegur hluti Danaveldis. Og svo hjegómlegur er jeg, að mjer finst ekki lítið til koma þessa atriðis. Og það var þó þetta, sem hv. samþm. minn (JÞ) taldi eina helstu ástæðuna fyrir því að stofna embættið. Og þó sendiherraembættið hafi á undanförnum tíma verið sýnilegt tákn þess, að þjóðin er sjálfstæð, þá er jeg hræddur um, að það falli fljótt í gleymsku, þegar sendiherrann er kallaður heim.