06.03.1924
Neðri deild: 16. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í C-deild Alþingistíðinda. (2481)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Magnús Guðmundsson:

Mjer skildist svo, að hv. 3. þm. Reykv. (JakM) óskaði að fá vitneskju um það, hvernig jeg liti á mál það, sem hjer er til umræðu. Þetta er mjer ljúft að gera honum til geðs, og skal þá strax lýsa yfir því, að jeg get gengið inn á nál., því jeg skil þær till. á sama hátt og hann, þannig, að ekki sje til þess ætlast, að embættið sje lagt niður, heldur sje breytingin frá því, sem nú er, fólgin í því, að hjer eftir skuli Alþingi í hvert skifti ákveða, hvort fje verði veitt til þess eða ekki. Nú er það kunnugt orðið, að sendiherra vor vill fá lausn úr embætti sínu, og mjer er persónulega kunnugt um það, að hann langar að komast heim, enda mun honum þegar vera fyrirhugað embætti. Og þær upplýsingar get jeg gefið hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að ef ekki hefði verið völ á jafnágætum manni sem Sveini Björnssyni í sendiherraembættið, þá myndi stjórnin aldrei hafa skipað í það. Hvað því viðvíkur, hvort fært sje að fela hr. Jóni Krabbe störf sendiherrans, þá má minna á það, að hann er enganveginn algengur starfsmaður í utanríkisráðueytinu, heldur er hann þar sem trúnaðarmaður okkar, og ætti því síst að vera fyrir þær sakir ver fallinn til að gegna þeim öðrum málum vorum, sem undir sendiherrann heyra. Það væri þá helst óviðfeldið frá sjónarmiði utanríkismálaráðuneytisins danska, og trúi jeg þó varla, að það muni reka sig á, meðan vjer höfum til þessara starfa völ á slíkum manni sem Jóni Krabbe, sem að allra dómi er þeim eiginleikum gæddur, að allir, sem kynnast honum, bera traust til hans.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) mintist á það, að fyrverandi stjórn hefði hækkað fjárveitinguna til sendiherrans. Það er satt, að lagt var til í frv. til fjárlaga fyrir 1923 að hækka þá fjárveitingu, og var það gert eftir ósk sendiherrans sjálfs. En áður því yrði ráðið til lykta, fór þáverandi stjórn frá. En það var eitt af fyrstu verkum hæstv. forsrh., sem nú er (SE), að koma á fund fjvn. og biðja hana að hækka þessa fjárveitingu, og kvað hann það vera samkvæmt vilja allrar stjórnarinnar.

Hv. þm. Str. (TrÞ) var fjölorður um ósamlyndi innan Íhaldsflokksins. Það er ekki nema eðlilegt, að honum komi það kynlega fyrir, slíkum aga sem hann er víst vanur í sínum flokki. Annars væri mjer innanhandar að benda á nokkur dæmi um það, hvernig samlyndið hefir verið í Framsóknarflokknum, þó jeg hlífist við að gera það nú; má vel vera, að jeg fái tækifæri til þess síðar. Annars var það aldrei ætlun Íhaldsflokksins að gera hvert mál að flokksmáli, því það teljum vjer rjettast, að þó þm. skipi sjer í flokka eftir meginstefnu sinni, þá eigi þeir að hafa fullkomið skoðanafrelsi. Og eins er um það mál, sem hjer er á ferðinni, og vænti jeg, að það þurfi engan að hneyksla.