06.03.1924
Neðri deild: 16. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í C-deild Alþingistíðinda. (2482)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Pjetur Ottesen:

Jeg gæti í raun rjettri eins vel fallið frá orðinu, eftir að hv. 1. þm. Skagf. (MG) hefir talað, en þó eru það nokkur atriði, sem mig langar til að fara örfáum orðum um.

Jeg býst ekki við, að nokkrum komi á óvart afstaða mín í þessu máli. Jeg var þegar í upphafi á móti stofnun þessa embættis, og ekki síður þá, er það var sett í fastar skorður með sjerstökum lögum, því jeg leit svo á, að með því móti myndi reynast ennþá erfiðara að draga úr kostnaðinum, sem af embættinu leiddi. En eftir því sem málið horfir nú við, má ætla, að ekki verði svo torsótt að koma slíkum sparnaði fram.

Í áframhaldi af þessu vil jeg geta afstöðu þingsins 1922 til þessa máls. Hv. 1. þm. Skagf. (MG) hefir raunar drepið lítillega á það atriði, en jeg vil aðeins í fáum orðum rifja það upp fyrir hv. deild, hvernig málið kom þá fyrir. Svo var mál með vexti, að stjórn sú, sem sat að völdum í þingbyrjun 1922 og samdi fjárlagafrv. fyrir 1923, gerði tillögu um það, eftir ósk Sveins Björnssonar, að laun sendiherrans yrðu hækkuð. Þáverandi fjvn. gat ekki orðið sammála um þetta, og jeg og tveir þm. aðrir, sem kosnir höfðum verið í nefndina af sparnaðarbandalaginu, vorum mótfallnir þeirri hækkun og klufum nefndina. Oss var það nefnilega ljóst, eftir því meðal annars, sem Sveinn Björnsson hafði sjálfur gefið í skyn, að það, að koma í veg fyrir hækkun fjárveitingarinnar til embættisins, væri í raun og veru það sama og afnema það. Það tækifæri vildum við nú grípa, og var það í fullu samræmi við fyrri skoðun okkar á því máli. En um þetta sama leyti urðu hjer stjórnarskifti, og núverandi hæstv. forsrh. (SE) tók við. Man jeg það, að eitt af hans allra fyrstu verkum í ráðherraembættinu var að koma á fund nefndarinnar, og bað hana mjög fast og innilega um að stuðla að því, að laun sendiherrans yrðu hækkuð, og kvað hann það sameiginlegan vilja stjórnarinnar, að svo yrði gert.

Hæstv. atvrh. (KlJ) hafði þá nýlega í fyrirlestri talið þetta embætti ónauðsynlegt, kallað sendiherrann tildurherra. (Atvrh. KlJ: Jeg stend við það, sem jeg hefi sagt.) En hv. ráðherra (KlJ) var þó sammála forsætisráðherranum um nauðsynina á að hækka laun sendiherrans og halda embættinu, og hefir hann því viljað halda tildrinu áfram. Hann um það.

Jeg vil geta þess í þessu sambandi, að háttv. þm. Str. (TrÞ) hefir altaf, frá því fyrsta, verið á móti þessu embætti, og viljað, að það væri lagt niður. Nú læst hann hneykslast mjög á því, að einn eða svo af flokksmönnum íhaldsins skuli leggja á móti því að fella embættið niður. Jeg vil þá benda háttv. þm. á það, að jeg man ekki til þess, að einn einasti Framsóknarflokksmaður greiddi atkvæði með því að fella niður hækkun á fjárveiting til þessa embættis, er við, fulltrúar sparnaðarbandalagsins í fjárveitinganefnd, fluttum tillögu um það á þingi 1922, og man jeg þó ekki til þess, að þeir fengju neinar ákúrur fyrir það í blaði þm. Það hefir þá verið gert í laumi. En opinberlega hefir það ekki sjest frá hans hendi, að hann hafi neitt hneykslast á þessu háttalagi flokksbræðra sinna. Jeg skal þá líka benda á það í sambandi við dæmi þau, sem háttv. þm. Str. talaði um, um afstöðu eins Íhaldsflokksmanns úr þessari deild til þeirra frv., sem hjer liggja fyrir um niðurfellingu embætta við háskólann, að hjer er alveg um samskonar mál að ræða og það, sem Framsóknarflokksmenn fylgdust dyggilega að að drepa á þingi 1922. Nú er það flutt af þeim. Þetta sýnir, að mótstaðan, sem málið vakti þá af þeirra hálfu, hefir einungis stafað af því, að það voru menn úr sparnaðarbandalaginu, sem þá fluttu það. Það er engin önnur skiljanleg ástæða fyrir þessum hringsnúningi.