06.03.1924
Neðri deild: 16. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í C-deild Alþingistíðinda. (2489)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Forsætisráðherra (SE):

Það var alveg rjett, sem hv. þm. V.-Sk. (JK) tók fram, og jeg hefi margoft sagt, að Jón Krabbe er auðvitað mjög fær til að vera chargé d’affaires. En það kemur bara ekki til nokkurra mála að sameina chargé d’affaires og trúnaðarmannsstöðuna í utanríkisráðuneytinu danska, nema aðeins til bráðabirgða. Hjer er um svo ólík störf að ræða. Annars held jeg, úr því sem komið er, að besta lausn þessa máls sje sú, ef nú yrðu sendiherraskifti — að vísu liggur ekki fyrir nein yfirlýsing um það frá sendiherra enn þá, að hann ætli að segja af sjer — að sendiherralögin sjeu látin standa eins og þau eru, en nefndin dragi sitt frv. til baka. Og svo gæti nýja stjórnin þá haft chargé d’ affaires í bili, þangað til nýr maður væri fundinn til þess að gegna starfinu. Það eru því tilmæli mín til háttv. 1. þm. Reykv. (JÞ) og nefndarinnar, að málið sje látið bíða. Það fer áreiðanlega best á því, að lögin sjeu látin standa. Annars geri jeg fastlega ráð fyrir því, að þó þetta frv. nái að ganga gegnum hv. Nd., þá verði því alveg vafalaust slátrað í Ed. En svona er það! Hvað skyldi grískudósentinn vera búinn að kosta ríkið mörg þús. kr. á ári, á þennan hátt? Nú er einmitt nýbúið að fella frv. um hann í Ed. Jeg vil biðja þessa háttv. sparnaðarmenn að taka það til athugunar, hvað það kostar að lengja þingið með óþörfum umræðum, með því að taka upp aftur og aftur mál, sem altaf eru feld á hverju þinginu eftir annað, og sem frá byrjun er vitanlegt, að muni falla.