06.03.1924
Neðri deild: 16. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í C-deild Alþingistíðinda. (2490)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg vil benda hæstv. forsrh. (SE) á það, að það er ekki sem best samræmi í því að telja þetta eitt hið mikilsverðasta mál, en vera svo að kvarta yfir því, að umræður verða um það.

Hv. 3. þm. Reykv. lagði orð mín þannig út, að það væri aðalatriðið fyrir mjer að fá titlinum breytt. En hversvegna er aðalatriðið að fá titlinum breytt?: Það er vegna þess, að höfuðkostnaðurinn við þetta embætti stafar af titlinum. Með öðrum orðum: Það er sparnaðurinn, sem er aðalatriðið, og hann næst jafnvel, hvort sem frv. mitt eða till. allshn. ná fram að ganga. Þessvegna get jeg vel verið þeim samþykkur.

Út af ummælum háttv. 1. þm. Skagf. (MG) skal jeg benda á, að þar kom líkt fram. Hann vildi gera mun á frv. mínu og till. allshn. Þetta er misskilningur. Að vísu er staðan ekki afnumin eftir till. allshn. En eftir frv. báðum getur þingið ákveðið um sendiherrann.

Þá voru þeir, hv. 1. þm. Skagf. (MG) og hv. þm. V.-Sk. (JK) að tala um samkomulagið í þeim tveim höfuðflokkum, sem hjer skiftast skeytum á. Það er vitanlega ekki tiltökumál, þó smáágreiningur verði um einstöku mál í flokki, sem hefir mjög margbreytta stefnuskrá. En nú hefir Íhaldsflokkurinn aðeins eitt atriði á sinni stefnuskrá, sem sje það, að fækka embættismönnum og spara. (MG: Hvar stendur það?) í stefnuskrá flokksins eða yfirlýsingu. (MG: Nei!) Jú, það stendur þar. Og samt getur flokkurinn ekki komið sjer saman um þetta eina atriði.

Út af orðum hv. þm. V.-Sk. (JK), um ósamræmi í Framsóknarflokknum, út af afnámi embætta grískudósentsins og prófessorsins í hagnýtri sálarfræði, vil jeg taka fram, að þetta er hreinn misskilningur. Eins og jeg hefi áður sagt, var það alls ekki meiningin að ganga af þessum mönnum dauðum. Það er því alveg eðlilegt, þó skoðanir skiftist um það, hvað taka eigi við á eftir. Jeg benti líka á það, er jeg flutti frv. mitt um grískudósentinn, að ein leiðin til að sjá honum fyrir starfi væri sú, að flytja hann að mentaskólanum.

Þá kem jeg að ræðu hv. þm. Borgf. (PO), sem jeg get ekki látið ómótmælt, enda þótt mjer leiðist að eiga orðastað við þennan hv. þm., út af þessu máli. Við höfum altaf verið sammála um þetta efni frá því sendiherraembættið var stofnað. En jeg get ekki látið vera að mótmæla því, er hann gaf í skyn, að hver einasti maður í Framsóknarflokknum hefði skipað sjer á móti þessu máli á þingi 1922, aðeins af því, að frv. hefði komið frá „sparnaðarbandalaginu“, með öðrum orðum, að þeir hefðu beinst á móti því af því að það kom frá sjerstökum mönnum. Í þessu felst ákaflega hörð ákæra, og ef háttv. þm. vill halda við þetta, þá verður mjer að minnast hins forna spakmælis: Margur heldur mann af sjer — og að hann sje slíkur maður. En jeg vona, að þetta sje ekki meining hans, heldur hafi hann sagt þetta í fljótræði. En annars er það dálítið átakanlegt, að góðir bræður, sem hjálpuðust áður að því að stofna þetta embætti, skuli nú vera að sendast skeytum á. Er það alkunnugt, að þegar ríki leysist upp, þá berjast menn innbyrðis, og svo fer hjer.