06.03.1924
Neðri deild: 16. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í C-deild Alþingistíðinda. (2491)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Pjetur Ottesen:

Jeg hjelt, að hv. þm. Str. (TrÞ), mundi reyna að bera eitthvað í bætifláka fyrri framkomu flokksbræðra sinna í þessu sendiherramáli hjer á þingi 1922 og sjálfs sín, í því að vera þá ekki betur á verði í því máli.

Á þingi 1922 gafst tækifæri fyrir Framsóknarflokkinn til þess að styðja okkur, sparnaðarbandalagsmennina, í því að fá sendiherraembættið lagt niður. En afstaða flokksins til málsins, sú, sem jeg hefi áður lýst, var þá látin óátalin af hv. þm. Str. (TrÞ). Jeg get ekki sjeð annað en hann hafi dottað þá á verði.

En hvað snerti ummæli hv. þm. (TrÞ) um stefnuskrá Íhaldsflokksins, þá voru þau víst bygð á ummælum hans sjálfs um stefnuskrána í Tímanum, en ekki á sjálfri stefnuskránni.

Þá taldi hv. þm. (TrÞ) það harða ásökun á flokksbræður sína, Framsóknarflokksmennina, að þeir hefðu verið á móti embættafækkun við háskólann á þinginu 1922, af því að það mál hefði verið borið fram af sparnaðarbandalaginu. En það verður ekki annað sjeð, en að sú ásökun sje í alla staði rjettmæt. Nú bera þeir fram þessi stóru mál, og ef þeir renna skeiðið til enda og fylgja þeim í gegnum þingið, ætla jeg, að full sönnun sje fengin í því efni. Það er framkoma þeirra sjálfra, þeirra eigin verk, sem sanna það.

En út af því, sem hæstv. forsrh. (SE) sagði um grískudósentsembættið, að umræðurnar um þetta mál ætu upp allan sparnaðinn við niðurlagning þessa embættis, vil jeg spyrja hæstv. forsrh. (SE), hverjir það sjeu, sem standa fyrir þeirri eyðslu. Eru það ekki einmitt þeir, sem harðast ganga fram í því að sporna á móti niðurlagning þessa embættis og yfir höfuð öllum sparnaðarmálum? Jú, vissulega er það þeirra sök, og það verður ekki annað sagt en hæstv. forsrh. (SE) leggi fram krafta sína heila og óskifta til slíkrar eyðslusemi og óspilunar.