26.04.1924
Efri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í C-deild Alþingistíðinda. (2508)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Sigurður Eggerz:

Hv. 5. landsk. (JJ) kom inn á samningana frá 1918. Jeg hygg, að hann hafi gleymt hinu verulega atriði samningsins, uppsagnaratriðinu. En ef það atriði er ekki skýr vottur fullveldisins, þá veit jeg ekki, hvað háttv. þm. heimtar í því efni.

En hvernig hefði farið, ef að vjer með samningunum 1918 hefðum sjálfir strax tekið að oss öll utanríkismál vor? Ef hv. 5. landsk. (JJ) þolir ekki einusinni, að við höfum sendiherra í Kaupmannahöfn, þá er jeg hræddur um, að við hefðum sýnt nokkuð litla rækt þessum höfuðmálum vorum. (JJ: Í neðri deild voru aðeins 3 atkv. með sendiherranum.) Þau málslok eru hnignunarmerki, og spá ekki góðu um framtíð þings og þjóðar, og það er ekki víst, að þeir hv. þm., sem nú greiða atkv. á móti sendiherranum, komi allir aftur eftir næstu kosningar.

Þeir menn, sem stóðu að samningagerðinni 1918, hafa ekki vonda samvisku. Sá samningur er eitt af stærstu happaverkum þessarar þjóðar. En þeir menn, sem nú vilja á allan hátt gera lítið úr og sleppa úr höndum sjer því, sem unnið er, þeir mega vel athuga sína eigin samvisku.

Jeg vona nú, að hv. 5. landsk. (JJ) snúi frá villu sinni. Bendir nú margt í þá átt, að hann sje að snúast.

Hann vill nú láta veita ungum, efnilegum mönnum uppeldi og fræðslu til þess að fara með utanríkismálin. Hann ætlast til þess, að þeir taki við þeim í framtíðinni. Hjer er hann á rjettum vegi. Það er aldagömul reynsla fyrir því, að aðrar þjóðir geta ekki verið án sendiherra hjá erlendum ríkjum. En því skyldum vjer vera einasta þjóðin, sem væri undanskilin þessu lögmáli. Reynslan í einu máli, kjöttollsmálinu, hefir sýnt oss, hvort það hefir ekki þýðingu að hafa mann, sem reki erindi vor erlendis.