23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

1. mál, fjárlög 1925

Fjármálaráðherra (JÞ):

Háttvirtur húskross þessarar deildar, 5. landsk. þm. (JJ), hjelt rúmlega klukkustundar ræðu fyrir kvöldverð og beindi máli sínu allmjög til mín. Jeg ætlaði lengi fram eftir ræðunni ekki að taka til andsvara, og ritaði jeg því fátt af því, er hann sagði, hjá mjer, enda þótti mjer það svo lítt markvert, að jeg taldi það ekki þess virði. En í niðurlagi ræðu sinnar kom hann með nokkur atriði, er mjer þykir rjett að svara, og vil jeg því um leið víkja að einstöku atriðum, er jeg hefi fest mjer í minni af þeim langa lopa, sem fyrri hluti ræðu hans var.

Út af launabótinni til Sigurðar Nordals beindi hann því til mín og ýmsra annara, að við hefðum samþykt ýms hærri starfslaun en hjer er farið fram á. Hv. þm. mintist á laun gjaldkeranna við Landsbankans, en það hittir mig ekki, því að jeg greiddi atkv. gegn því frv. í fyrra, þar sem mjer var ljóst, að altof mikið ósamræmi var milli launakjaranna í því frv. og þeirra launa, sem allmörgum starfsmönnum ríkisins eru borguð. Þá mintist hv. þm. á stöðu eftirlitsmanns með bönkum og sparisjóðum, og taldi hann, að jeg hefði átt öðrum mönnum meiri þátt í því að koma því máli fram. Þetta er ekki rjett. Jeg hefi áður skýrt frá afskiftum mínum af þessu máli, en þau voru á þá leið, að jeg tók frv. til flutnings frá hæstv. þáverandi stjórn, til þess að spara fyrirhöfn og fje, sem það hefði kostað að koma frv. á framfæri sem stjórnarfrv., og var þessu yfirlýst þá þegar. (SE: Þetta er rjett).

Jeg skal nú geta þess, hver aðalorsökin er til framkomu þessa frv., því að hún er runnin frá háttv. 5. landsk. þm. Hann hafði sem sje bæði utan þings og innan verið um margra ára skeið með árásir á Íslandsbanka, til þess að gera hann tortryggilegan. Var þetta gert í þeim yfirlýsta tilgangi að eyðileggja þessa þjóðþrifastofnun og velta henni um koll. (JJ: Hvar er því lýst yfir?) Það er auðvelt að benda á það. Út af þessum árásum, sem altof margir meðal almennings lögðu trúnað á, kom fram tillaga á síðasta þingi um að framkvæma alveg óvenjulega rannsókn á bankanum. Af hinum skynsamari mönnum var lagst á móti þessari tillögu með miklum rökum, aðallega þeim, að mikil hætta gæti af því stafað fyrir þessa stofnun, viðskiftamenn hennar og landið í heild sinni, ef gripið væri til svo óvenjulegrar ráðstöfunar sem þeirrar, að fyrirskipa þingrannsókn á bankann. Tillagan var því feld. Hinsvegar vildu menn sýna það í verki, að tilgangurinn væri ekki sá, að hafa á móti eftirliti með peningastofnunum vorum, ef það væri framkvæmt á þann hátt, að ekki þyrfti að vakna ástæðulaus tortrygni við það. Þetta var aðalástæðan til þess, að þáverandi forsrh., háttv. 1. landsk. þm. (SE), vildi leggja fyrir þingið tillögu um, að þetta eftirlit væri framkvæmt á eðlilegan hátt, og er það orsökin til þess, að frv. um eftirlitsmann með bönkum og sparisjóðum kom fram og var samþykt. Hafi það verið ástæðulaust, er engum frekar um að kenna en hv. 5. landsk. þm.

Þá benti háttv. þm. á það, út af tillögunni um fjárveitingu til Sigurðar Nordals prófessors, að aðrir menn hefðu fengið styrk til ritstarfa, og er það rjett. Það hefir jafnan verið talið viðeigandi hjer á landi, þegar vel metnir menn hafa verið í ver launuðum stöðum en aðrir embættisbræður þeirra, en hafa þótt maklegir jafnhárra launa sem þeir, er hærra stóðu í stiganum, að veita þeim þá viðbótarlaun með því að samþykkja fjárveitingu til þeirra í fjárlögum til ritstarfa. Hefir þetta komið fram við dósenta í háskólanum, þegar svo hefir staðið á, að þeir hafa þótt maklegir sömu launa sem prófessorar. Öðru máli gegnir að bæta laun þeirra, sem eru í hæsta launaflokki, og gæti þó átt við, ef aldraður maður kæmi í þann flokk og byrjaði með lægstu launum. En engu af þessu er til að dreifa hjer. Það er talað um, að verið sje að hrekja þennan mann úr landi. Með hverju? Hvað hefir honum verið gert? Ekki annað en að veita honum á unga aldri, og að vísu að maklegleikum, prófessorsembætti við háskólann. Jeg get ekki gert mjer í hugarlund, að það sje sama sem að hrekja manninn úr landi.

Hitt getur komið fyrir, að sumir mætir menn verði útflutningshæfir einhverntíma á æfinni, þó að háttv. 5. landsk. þm. telji hvorki sig nje mig til þeirra. Hann veit auðvitað um sjálfan sig, hvort hann er útflutningshæfur, en um mig veit hann ekki. Jeg get þá sagt honum það, að jeg hefi verið og er ennþá útflutningshæfur, þó að jeg standi í því efni ekki á sporði okkar ágæta verkaða þorski. Jeg hefi rekið atvinnu við verkfræðingsstörf um nokkurt skeið, einnig erlendis, og mundi jeg hafa getað fengið meiri atvinnu þar, hefði jeg ekki haft eins mikið að gera heima fyrir og jeg gat sint. Er því óvarlegt fyrir háttv. þm. að fullyrða slíkt um aðra en sjálfan sig.

Þá kem jeg að því, sem gaf mjer eiginlega tilefni til að virða hv. 5. landsk. þm. svars, en það eru þau 4 atriði, sem hann kom með í niðurlagi ræðu sinnar. Byrjaði hann stórt og endaði smátt, gagnstætt þeirri reglu, er góðir ræðumenn fylgja. Mundi það kallað í lærðra manna hóp öfugur „climax“, og þykir ósniðug niðurröðun. Segi jeg þetta háttv. þm. til leiðbeiningar.

Hv. þm. byrjaði alldigurbarkalega að tala um það, að jeg hefði unnið óþarft verk og ilt, er jeg átti þátt í niðurrifi innflutningshaftanna árið 1921. Hafi jeg verið verkfæri í höndum kaupmanna, felt gengi íslensku krónunnar, ásamt ýmsum öðrum ummælum af svipuðu tægi, sem jeg vona, að skrifararnir hafi náð og lesa megi á síðan í þingtíðindunum. Jeg tel það oflof að eigna mjer mestan þátt í þessu verki, en get þó ekki þykst við það. Til þess að sýna, hvílíkt nauðsynjaverk það var, skal jeg nokkuð lýsa afstöðunni þá, sem að vísu má lesa í þingtíðindunum 1921, sem háttv. 5. landsk. þm. hefir ekki haft fyrir að lesa, eins og hæstv. forsrh. (JM) benti rjettilega á í síðustu ræðu sinni.

Svo stóð á síðari hluta febrúarmánaðar og fyrri hluta marsmánaðar 1921, þegar þingið var nýlega tekið til starfa, að þá voru víðtæk innflutningshöft, sem náðu meðal annars til allrar nauðsynjavöru og sett höfðu verið með bráðabirgðalögum árið áður, þegar forystumenn þjóðarinnar þá þóttust sjá fyrir, að velmegunartíminn væri á enda, vöruverð fór hækkandi, kaupgeta almennings var óbiluð og kaupvilji mikill, eins og jafnan, þegar verð á vörum fer hækkandi. Frá þessu var skýrt á þingi 1921, og sætti það engum aðfinslum. En þá var alt breytt orðið. Þá var byrjað verðfall erlendis, meira en nútímamenn hafa lifað nokkru sinni. En í landinu voru til æðimiklar birgðir af vörum hjá kaupmönnum og kaupfjelögum. Verðlag hjelst því óbreytt hjer á landi, sem ekki var óeðlilegt, þar sem mikið var til af dýrum birgðum, en nýjar vörur komust ekki að. Um sama leyti var hagur aðalframleiðenda þannig, að þeir sáu sjer ekki fært að halda áfram atvinnurekstri sínum, vegna mikillar verðlækkunar á íslenskum afurðum erlendis, nema framleiðslukostnaður lækkaði að mun. Barst þinginu mjög ákveðin áskorun frá Fjelagi íslenskra botnvörpuskipaeigenda um að nema innflutningshöftin á nauðsynjavörum úr gildi, svo að verðlækkun sú, sem orðin var á erlendum markaði, gæti einnig notið sín hjer. Þá stóð á samningum um kaup verkamanna, og vildu atvinnurekendur fá það lækkað, en þeir báru það fyrir sig, sem von var, að þeir gætu ekki gengið að lægra kaupi meðan verð á nauðsynjavörum lækkaði ekki. Var þá öllum ljóst, að svo búið mátti ekki standa lengur, er togaraflotinn lá allur hjer á höfninni og komið var fram í marsmánuð. Þá var óverjandi að halda höftum á nauðsynjavörum og koma þannig í veg fyrir, að framleiðslan gæti haldið áfram. Var því horfið að þessu ráði, að afnema höftin. Í nefndinni, sem um þetta mál fjallaði, áttu sæti nokkrir flokksmenn háttv. 5. landsk. þm., svo sem háttv. 1. þm. Eyf. (EÁ), og var þar enginn ágreiningur um, að þetta þyrfti að gera.

Nú er auðið að dæma um það, hvort árangurinn af afnámi innflutningshaftanna var sá, sem ráð var gert fyrir og vera þurfti. Og tilganginum var náð. Það má sjá með því að athuga verð á nauðsynjavöru fyrir og eftir þennan tíma. Jeg hefi gert samanburð á verði nokkurra vörutegunda í janúarbyrjun og júlíbyrjun. Það er ekki auðvelt að taka byrjun aprílmánaðar til samanburðar, því að höftin voru afnumin 31. mars, og kom verðlækkunin ekki í ljós strax, þó að sumir kaupmenn lækkuðu vöruverð sitt þegar í stað og seldu sjer í óhag, í þeirri von, að þeir ynnu það upp á nýju vörubirgðunum. Af því að þetta hefir oft borið á góma, skal jeg lesa nokkrar tölur upp úr Hagtíðindum:

Hveiti nr. 1, jan. 1,60 pr. kg. júlí 1,18

Hafragrjón — 1,25 „ „ — 0,88

Melís — 3,54 „ „ — 1,75

Smjörlíki — 3,64 „ „ — 2,86

Kol í janúar kr. 200.00 smálestin, 1. apríl kr. 140,00 og 1. júlí kr. 160,00, en fram að nýári höfðu þau verið seld fyrir 300 kr. smálestin. Landsverslun átti þá miklar kolabirgðir, og var verið að reyna að hlífa henni við tapi. Var aðflutningsbanni á kolum framfylgt svo strangt, að togarar, sem fóru með ísvarinn fisk til Englands, fengu ekki að flytja kol hingað heim og setja á land.

Jeg fer hjer rjett með það, hvaða ástæður hafi verið fyrir því, að höftunum var haldið svona lengi og ekki var slakað á þeim fyr en þingið heimtaði það. Stjórninni hraus hugur við því tapi, sem verslunarstjettin í heildinni, kaupmenn og kaupfjelög, mundu bíða á vörubirgðum sínum; og vitanlega var það tap mjög mikið. En ekki vorum það við, sem afnema vildum höftin, sem hjer ráku erindi kaupmanna. Nei, það voru sjálfir haftamennirnir.

Verðlækkunin nam 27% á fyrri hluta ársins 1921. Og sú verðlækkun kom nokkru fyr vegna þess, að höftin voru afnumin, heldur en annars hefði orðið. Togaraútgerðin fjekk 60 kr. tilslökun á verði á hverju kolatonni, eða nálega eins mikið og kol hafa kostað síðan. Ummæli hv. 5. landsk. um þetta atriði eru fáfræðin einber.

Næsti liður í ræðu hv. þm. voru togarakaupin 1919. Jeg veit ekki hvað fyrir honum vakti að blanda þeim inn í þessar umræður. Það er ekki mjer viðkomandi, og engum í núverandi stjórn.

En (háttv. þm. hefir ekki viljað láta þetta tækifæri ónotað til þess að sýna skilningsleysi sitt um fjármál þessa lands. Það er öllum kunnugt, að mestur hluti stríðsgróðans svo kallaða er tapað fje. Svo að segja það eina, sem ennþá sjest og ekki er tapað fje, er það, sem varið var til þess að kaupa togarana 1919 og 1920. Þó þessi skip væru keypt á dýrum tíma, og rekstur þeirra þess vegna hafi orðið eigendunum erfiður, þá hafa kaupin á þeim hepnast yfirleitt vel fyrir þjóðfjelagið. Aðeins tveim togurum hefir orðið að sleppa, af því að fjelagið, sem keypti þá, hafði ekki mátt til að halda þeim. Þó mistist einungis annað þessara skipa úr landi, en tapið var ekki tilfinnanlegt, að því leyti, að það lenti mest erlendis. Um hina togarana er það að segja, að þar sem nú sjest annars ekkert eftir af stríðsgróða landsmanna, hvorki mannvirki nje annað, þá standa þó togararnir eftir sem okkar besta hjálp og stoð. Þeir munu skila því fje, sem í þá hefir verið lagt, og þeir veita fjölda manna atvinnu. Og á þeim byggjast vonirnar um fjárhagslega viðreisn landsins, fremur nokkru öðru, byggjast á því, að þeir muni geta, þrátt fyrir kreppuna, lagt landinu til talsvert fje, fyrir utan það, sem í þá hefir verið lagt. Þetta sjá allir nú. Og þó þunglega liti út fyrir útgerðinni á tímabili, þá mun nú ekki hægt að benda á annan stríðsgróða, sem betur hefir verið varið en þessum, sem lagður hefir verið í þessi fullkomnustu framleiðslutæki okkar.

Þegar fáfræðin harmar niðurfall innflutningshaftanna árið 1921, þá er það flónskan ein, sem harmar togarakaupin 1919.

Þriðja atriðið hjá hv. 5. landsk. var gjaldeyrisnefndin. Jeg verð að segja það, að ef það mál er eins mikilsvert eins og hv. þm. virtist gera sjer í hugarlund, þá ætti hann að beina ásökunum sínum til fyrverandi stjórnar, fyrir að hafa ekki undirbúið málið og lagt fyrir þingið í frumvarpsformi.

Þetta hefir hún ekki gert, og jeg er ekkert að áfellast hana fyrir það. Nú hefir frumvarp í þessa átt verið borið fram af öðrum og liggur fyrir þinginu. Frumvarp þetta er enn ekki komið úr nefnd, en því hefir þó verið fullkomlega sint. Jeg vil ekki nota þetta tækifæri til þess að segja neitt um afstöðu mína til þess máls. En hafi háttv. 5. landsk. þm. ætlað að beina til mín ásökunum vegna afstöðu minnar í þessu máli, þá er það hvorki af fáfræði eða flónsku, heldur framhleypni eintóm, því hann veit ekkert, hver mín afstaða verður.

Þá sagði háttv. þm., að frv. um innflutningshöft hefði verið drepið hjer í þinginu. Jeg veit ekki til þess, að neitt frv. hafi hjer komið fyrir þingið um höft á innflutningi nauðsynjavöru. En hefði það komið fram, þá átti það skilið að falla. Hitt er öllum kunnugt, að heimildarlög um innflutningshöft á óþörfum varningi hafa verið hjer í gildi síðan árið 1920, og það mun hvergi vera tíska að setja tvenn lög um sama efni af tómri fordild. Þess vegna var hjer drepið frv., sem gekk í sömu átt og hin gildandi heimildarlög, sem sjálfsagt var. Annars skal jeg nota þetta tækifæri til þess að skýra frá skoðun minni á innflutningshöftum alment. Jeg get tekið undir með hæstv. forsrh. hvað höftin snertir. Jeg hefi enga trú á þeim. Jeg held, að það sje ekki rjett stjórnmálastarfsemi að stjórna þannig til lengdar, að beita þurfi þvingunarráðstöfunum. Þó játa jeg, að það geti verið nauðsynlegt um stundarsakir. Og jeg tel, að eins og nú er ástatt hjer á landi, þá geti það verið rjett að beita slíkum ráðstöfunum; því fyrir mistök á fjármálastjórninni hjer á landi yfirleitt hafa hjer haldist við orsakir, sem skapað hafa möguleika fyrir meiri innflutningi en útflutningi. Þetta ástand er óheilbrigt og getur ekki þrifist til lengdar. Og engin fjárstjórnarstefna gagnvart þessu er heilbrigð önnur en sú, að nema þessar orsakir burt. En þessar orsakir eru, eins og jeg hefi tekið fram í öðru sambandi, aðallega þær, að atvinnufyrirtækin hafa verið rekin ár eftir ár með halla. En sjerhver slíkur rekstur hefir óhjákvæmilega í för með sjer of mikinn innflutning til þeirra manna, sem að þessum atvinnurekstri standa. Það verður að fást viðurkenning fyrir því, að í þessu er engin stefna önnur, sem komið geti málinu í rjett horf, en sú, að sjá til þess, að engin fyrirtæki starfi með tapi ár eftir ár. En þetta tekur tíma, og jeg álít, að það sje rjettmætt, meðan verið er að koma þessu í lag, að beita þvingunarráðstöfunum til þess að hindra innflutning, helst á þeim tegundum, sem menn frekast mega án vera. Og besta aðferðin í þessu efni er einmitt sú, sem þingið nú hefir fallist á: að setja allháan verðtoll á miður nauðsynlegar vörur. Það eru bestu innflutningshöftin.

Þó álít jeg rjett að beita öðrum innflutningshöftum við hliðina á þessum, til þess að varna of miklum innflutningi, meðan einhverjar leifar af orsökunum til hans kunna að vera ódrepnar.

Jeg veit, að mín skoðun á þessu atriði er mjög ólík skoðunum háttv. 5. landsk. þm., því eftir því, sem jeg veit best, þá er öll hans stjórnviska í því innifalin að beita á öllum sviðum þvingunarráðstöfunum. En sagan sýnir, að alt slíkt drepur sig sjálft, ef það stendur lengi. Og engin stjórn fær staðist nema sú, sem styður alla góða fjelagslega krafta þannig, að þeir fái haldið þjóðfjelaginu og málefnum þess í rjettu horfi án þvingunar. Og verkefni ríkisvaldsins er að halda niðri þeim eyðingaröflum, sem upp kunna að koma og orsaka það, að hinir góðu kraftar fái ekki notið sín. En það á ekki að þurfa að beita þvingun við friðsama og rjettsýna borgara.

Hv. 5. landsk. þm. sagði í seinni hluta ræðu sinnar alldigurbarkalega, að hann ætlaðist til þess, að jeg leyfði mjer ekki oftar þetta eða hitt. Áður talaði hann um sjálfbyrgingsskap, sem fram kæmi hjá mjer, með fleiru, sem jeg get tekið sem hrós, úr því það fram gengur af hans munni. Jeg hefi nú svarað ræðu hans að því leyti, sem hún var svara verð. En jeg geri ráð fyrir því, að hann leyfi sjer að halda öllu fram óbreyttu eins og það hefði aldrei verið rekið ofan í hann.

Jeg vil þó gefa honum ofurlitla bendingu, sem gæti verið til bóta, ef háttv. þm. breytti eftir henni. Eins og kunnugt er, skrifar hann stundum í blað nokkurt, og setur þá gjarnan undir skrif sín þar annaðhvort J. J. eða tvær stjörnur. Jeg hefi nú hjer að framan nefnt þrjú einkenni á hugsuninni í þrem köflum ræðu hans, og byrjuðu þau öll á f. Nú vildi jeg stinga upp á því við hann, hvort hann vildi ekki setja hjer á eftir þrjú f í stað tveggja stjarna undir ritsmíðar sínar.