03.03.1924
Neðri deild: 13. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í C-deild Alþingistíðinda. (2513)

58. mál, stofnun háskóla

Flm. (Jón Þorláksson):

Jeg skal ekki fara að endurtaka það, sem stendur í greinargerð þessa frv., en aðeins drepa á nokkur atriði, sem ekki eru rædd þar, eða þá aðeins lauslega að þeim vikið. Í fyrsta lagi tek jeg það fram til athugunar þeirri nefnd, er þetta frv. fær til meðferðar, að þó að hjer sje farið fram á að fækka háskóladeildunum úr fjórum, niður í þrjár, þá legg jeg ekki áherslu á það atriði, ef menn vilja fremur sætta sig við það að fækka kennurunum í sumum deildunum svo, að þar sjeu ekki fleiri en tveir fastir kennarar. Hitt finst mjer vera ótækt, að hið innra skipulag háskólans útheimti fleiri kennara en þörf er fyrir kenslunnar vegna. Að öðru leyti vil jeg taka það fram, að þó að frv. þetta fari fram á að fækka þeim kennurum, sem embætti hafa, álít jeg, að háskólanum sje alls ekki mein að því. Því jeg tel háskólanum sjálfum muni hentugra að setja þar heldur nokkra aukakennara, eftir þörfum, en fullskipa föstum embættismönnum í hverja deild. Þessu til stuðnings nægir að vísa til þess, að þetta fyrirkomulag hefir mikið verið notað í læknadeild háskólans og gefist vel. Jeg segi þetta sjerstaklega vegna þess, að vera kann, að einhverjum þyki naumt að ætla aðeins tveimur kennurum að kenna alla lögfræðina, en jeg álít fortakslaust, að það væri betra að bæta það upp, sem á kynni að vanta, með aukakennurum, en að hafa þrjá fastamenn í kennaraembættum við þá deild. Viðvíkjandi tilhögun þeirri, sem með þessu frv. er ætlast til að verði framvegis á háskólanum, tel jeg rjett að geta þess, að ákvæði um skipulag háskólans er nú að finna í tvennum lögum, lögunum um stofnun háskólans og í lögum um laun háskólakennara. Í þeim lögunum, sem síðar voru nefnd, eru ákveðið um það, hve margir kennararnir skyldu vera, en ekkert tekið fram um það í lögunum um stofnun háskólans. Nú hafa ákvæði um laun háskólakennara verið tekin upp í hin almennu launalög, og því er ekki þörf á því að halda sjerstökum lögum um laun háskólakennara, og óeðlilegt að hafa ákvæði um skipulag háskólans í tvennum lögum. Þetta er ástæðan til þess, að frv. fer fram á að setja í ein lög, háskólalögin, ákvæði um fasta kennara og annað skipulag háskólans. Lögin um laun háskólakennara ættu því að falla burt, ef þetta frv. verður að lögum. Fyrir mínum sjónum stendur þetta frv. í sambandi við tvö önnur frv., nefnilega frv., sem komið hefir fram í Ed. um nýtt skipulag á hæstarjetti, og frv. um sameining forstöðu þjóðskjalasafnsins og landsbókasafnsins. Á þinginu í fyrra kom fram frv. um breytingu á hæstarjetti. Samkvæmt því áttu sömu menn að hafa á hendi dómarastörfin í hæstarjetti og kensluna í lagadeild háskólans. Jeg var þessu frv. þá fylgjandi og taldi það vera þarflegt, vegna hinnar nauðsynlegu embættafækkunar, er af því leiddi. Þetta frv. mætti þá ákafri mótspyrnu, sem þá var ekki unt að yfirstíga. En þar sem nú er komið fram frv. í Ed. um fækkun dómara í hæstarjetti og um að leggja niður ritaraembætti hæstarjettar, byggi jeg von mína um að þetta frv., sem hjer er til umræðu, nái að verða að lögum, á því, að nú muni betur ganga en síðast, og jeg get sætt mig við það, þó að nú sje farin önnur leið til þess að ná þessari embættafækkun en jeg studdi þá. Jeg vil einungis benda á, að þessi þrjú frv., um háskólann, hæstarjett og sameining safnanna, taka til um 23 fastra embættismanna, auk eins aukakennara við háskólann, eða alls 24 fastra embættismanna á þessu sviði, en ef öll þessi frv. verða samþykt, sparast 9 föst embætti af 24, og er það allviðunanleg fækkun á ekki stærra sviði embættismenskunnar. Og jeg verð að segja, að það ætti ekki að kosta miklar þrautir að ná þessari fækkun og þeim sparnaði, sem af henni leiðir; því jeg get ekki sjeð annað en að öll starfræksla geti verið viðunanleg í þessum stofnunum samt sem áður. Jeg er svo ekki að orðlengja þetta, og þar sem jeg vænti, að frv. þessu verði vísað til nefndar og öll þau frv. í þessa átt, sem fram hafa komið, hafa farið til allshn., óska jeg atkvæðagreiðslu um það, hvort þessu frv. skuli einnig vísað þangað; gæti jeg vel sætt mig við það, enda þótt jeg kysi þetta frv. fremur til mentmn.